5.7.2017 11:04

Juncker segir ESB-þingið stórhlægilegt.

Maltverjum sýnd óvirðing eftir sex mánaða forsæti í ráðherraráði ESB.

Fyrsta júlí ár hvert tekur nýtt ríki við forsæti í ráðherraráði ESB. Að þessu sinni tóku Eistlendingar við af Maltverjum – tvær smáþjóðir fara með pólitískt forræði innan ESB á þessu örlagaríka ári í sögu þess, þegar formlega hefjast viðræður um úrsögn Breta úr því. Eina þjóðin sem áður hefur sagt skilið við ESB eru Grænlendingar sem gerðu það um miðjan níunda áratuginn.

Öllum er ljóst að hvorki Maltverjar né Eistlendingar gegna í raun öðru en formlegu hlutverki í forsæti ESB þótt út á við og sérstaklega innan landanna sjálfra sé litið á þetta hlutverk sem viðurkenningu og álitsauka. Lokavöldin innan ESB eru í höndum Þjóðverja og Frakka eins og jafnan hefur verið og Angela Merkel Þýskalandskanslari og Emmanuel Macron Frakklandsforseti áréttuðu það enn einu sinni í minningarræðum yfir Helmut Kohl í sal Evrópuþingsins í Strassborg laugardaginn 1. júlí.

Það var hátíðarstund þegar Kohl var kvaddur og með öllu ólík uppnáminu sem varð í sama þingsal þriðjudaginn 4. júlí þegar Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, kom þangað til að taka þátt í umræðum um það sem gerðist í sex mánaða forsetatíð Maltverja, fámennustu þjóðar ESB. Juncker blöskraði hve fáir þingmenn voru í salnum og sagði:

„Sú staðreynd að aðeins um 30 þingmenn eru hér við þessar umræður sýnir í raun að ekki er unnt að taka þingið alvarlega. Evrópuþingið er hlægilegt, mjög hlægilegt. Væri herra Muscat [forsætisráðherra Möltu] frú Merkel – erfitt að ímynda sér – eða herra Macron – auðveldara að ímynda sér – væri salurinn þéttsetinn. Þingið er stórhlægilegt.“

Þingsalurinn í Strassborg er fyrir rúmlega 700 þingmenn. Svona leit hann út þegar Maltverjar gerðu grein fyrir sex mánaða forystu sinni í ráðherraráði ESB.

 Antonio Tajani, forseti ESB-þingsins, setti ofan í við Juncker: „Þú getur gagnrýnt þingið en það er ekki í verkahring framkvæmdastjórnarinnar að hafa eftirlit með þinginu , það er þingsins að hafa eftirlit með framkvæmdastjórninni.“

Juncker svaraði: „Það eru aðeins fáeinir þingmenn hér til eftirlits með framkvæmdastjórninni. Þið eruð hlægileg. Ég ætla aldrei að taka þátt í fundi af þessu tagi.“

Frans Timmermans, varaforseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði síðar að Tajani og Juncker hefðu hist og rætt út um málið. „Jean-Claude er vanur að tala frá hjartanu,“ sagði hann.

Ágreiningur milli ESB-þings og ESB-framkvæmdastjórnar er alkunnur. Að öðrum þræði snýst þetta mál um hann en höfuðmáli skiptir að innan ESB-þingsins vita menn að smáþjóðir innan sambandsins skipta engu. Þeim er sýnd óvirðing og mega sín einskis – Juncker þekkir þetta af eigin reynslu sem fyrrverandi forsætisráðherra Lúxemborgar.