Julian Assange brotinn á sál og líkama
Það er óneitanlega fréttnæmt þegar fréttamenn ríkisútvarpsins ganga á þennan hátt fram fyrir skjöldu vegna Julians Assange þótt ekki sé það í fyrsta sinn.
Miðað við örlög margra einstaklinga sem sagt er frá í fréttum er vissulega sorglegt að fylgjast með stöðu Julians Assange, stofnanda WikiLeaks, sem lokaði sig inni í sendiráði Ekvadors í London í sjö ár og kom þaðan út í vor illa farinn á sál og líkama.
Undir lok maí sagði Nils Melzer, sérlegur ráðgjafi Sameinuðu þjóðanna um pyntingar, að Assange bæri öll merki um andlegar pyntingar. Hætta væri á að brotið yrði gegn mannréttindum hans yrði hann framseldur til Bandaríkjanna.
Melzer sagði Assange sýna öll merki þess að vera „undir gífurlegu andlegu álagi, með krónískan kvíða og að hafa orðið fyrir alvarlegu sálrænu áfalli“
Myndin er tekin í
Þetta mætti rekja til þess að árum saman hefði hann búið við „sífellt grimmdarlegri og meira niðurlægjandi ómannúðlega meðferð“.
Melzer hitti Assange 9. maí í Belmarsh-fangelsi í London og rannsakaði hann læknisfræðilega. Hann sagði augljóst að Assange hefði orðið fyrir alvarlegu heilsutjóni af því að dveljast árum saman í einstaklega fjandsamlegu og gerræðislegu umhverfi í sendiráði Ekvadors.
Melzer telur að verði Assange framseldur til Bandaríkjanna njóti hann hvorki málfrelsis né sanngjarnrar málsmeðferðar. Hann kunni að verða dæmdur í allt að 175 ára fangelsi. Vill Melzer að breska ríkisstjórnin komi í veg fyrir framsal til Bandaríkjanna.
Breska ríkisstjórnin segir að hún starfi náið með stofnunum Sameinuðu þjóðanna og hún virði lög og rétt. Sumt af því sem ráðgjafi SÞ segi falli ekki að skoðun breskra stjórnvalda en þau muni svara bréfi hans. Þá segir:
„Dómarar eru óhlutdrægir og starfa án afskipta ríkisstjórnarinnar, dómar eru aðeins reistir á staðreyndum máls og viðeigandi lagaákvæðum. Hver sá sem er fundinn sekur getur áfrýjað.“
Nú hefur félag fréttamanna við ríkisútvarpið mótmælt því harðlega að Bretar hafi handtekið Assange og dæmt hann í 50 vikna fangelsi fyrir að hafa leitað skjóls í sendiráði Ekvadors á sínum tíma til að leika á breska réttvísi.
Fréttamennirnir taka þann pól í hæðína í ályktun sinni að „með ákæru bandarískra stjórnvalda gegn Assange og hugsanlegu framsali Breta á honum til Bandaríkjanna er einnig vegið gróflega að heimildavernd fjölmiðla.“ Vilja fréttamennirnir að íslensk stjórnvöld starfi í anda þingsályktunar frá 16. júní 2010, innan lands jafnt sem utan, og beiti sér fyrir tjáningarfrelsi og upplýsingafrelsi.
Það er óneitanlega fréttnæmt þegar fréttamenn ríkisútvarpsins ganga á þennan hátt fram fyrir skjöldu vegna Julians Assange þótt ekki sé það í fyrsta sinn. Þeir skulda hlustendum aðra skýringu en þá að þeir vilji verja heimildarmenn fjölmiðla. Það er nokkuð langsótt að þessu sinni.