9.4.2021 10:54

Jón og séra Jón – líka í Noregi

Lögreglustjórinn sagði að þótt sömu lög giltu um alla þá væru ekki allir jafnir fyrir þeim og refsa ætti Ernu Solberg af því að hún væri „fremst meðal þjóðkjörinna“.

Í dag (9. apríl) efndi Ole B. Sæverud, lögreglustjóri í Suðaustur-lögregluumdæminu í Noregi, til fjarfundar og tilkynnti að ákveðið hefði verið að sekta Ernu Solberg forsætisráðherra um 20.000 NRK (300.000 ISK) fyrir 60 ára afmælisveislu hennar sem fjölskylda hennar sat, að henni fjarverandi, á veitingastað á Geilo-skíðasvæðinu 26. febrúar.

Lögreglustjórinn sagði að þótt sömu lög giltu um alla þá væru ekki allir jafnir fyrir þeim og refsa ætti Ernu Solberg af því að hún væri „fremst meðal þjóðkjörinna“ og bæri sérstaka ábyrgð sem forsætisráðherra. Til að efla virðingu fyrir sóttvarnareglum yrði að sekta hana. Sindre Finnes, eiginmaður Ernu, er einnig sakfelldur en sleppur við refsingu. Veitingamanninum er ekki heldur refsað þar sem gætt var fyllstu sóttvarnareglna á veitingastaðnum.

SolbergErna Solberg, forsætisráðherra Noregs.

Lögreglan segir að Erna Solberg hafi verið með í ráðum þegar fjölskyldan ákvað að fleiri en 10 manns mundu hittast og borða saman á veitingastað, í trássi við sóttvarnareglur. Hún hafi vitað um fjölda gestanna og hvar þeir höfðu pantað borð. Daginn eftir, 27. febrúar, komu 14 manns, forsætisráðherrann og fjölskylda hennar, saman í leiguíbúð í Geilo og snæddu sushi. Lögreglan segir að engin refsilög hafi þar verið brotin, óljóst sé hvort sóttvarnareglur gildi einnig um mannfagnað af þessu tagi, leiguíbúðin er lögð að jöfnu við heimili.

Þessi niðurstaða norsku lögreglunnar er í sama anda og dómar sem hafa fallið hér á landi um að einstaklingar sem gegna störfum á opinberum vettvangi verði skaðlaust að þola að veist sé að mannorði þeirra á prenti eða annan hátt.

Hér hefur ekki verið sett neitt bann við utanferðum fólks eins og t.d. í Bretlandi. Hundruð Íslendinga fóru utan í páskaleyfi. Ferðalög þeirra lutu innlendum og erlendum sóttvarnareglum. Með þetta í huga kom á óvart að Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, skyldi í Kastljósi 8. apríl veitast sérstaklega að Brynjari Níelssyni alþingismanni fyrir Spánarferð í páskaleyfinu.

Þarna er líklega nýjasta dæmið úr opinberum umræðum hér um að sömu lög gildi að vísu um alla en það séu ekki allir jafnir fyrir þeim. Í viðtalinu við Kára nefndi Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fréttamaður Brynjar og Sigríði Á. Andersen alþingismenn sérstaklega til sögunnar í þeim eina tilgangi að gera lítið úr skoðunum þeirra. Hlutdrægni af þessu tagi af hálfu fréttastofu ríkisins er ekki nýmæli en ólíðandi engu að síður og ber fyrst og síðast vott um fagmannlegt agaleysi á ríkisútvarpinu.

Ari Trausti Guðmundsson alþingismaður er meðal þjóðkunnra eldfjallafræðinga. Þegar jarðeldarnir á Reykjanesi breyttust og svæðinu umhverfis þá var lokað almenningi fór Ari Trausti með öðrum vísindamönnum að kynna sér aðstæður. Þetta varð til þess að einhverjir ráku upp ramakvein um að hann nyti sérréttinda sem þingmaður! Hann væri sem sagt ekki gjaldgengur meðal vísindamanna. Í gagnrýni á Ara Trausta birtist sama viðhorfið: Jú, sömu lög gilda fyrir alla en það eru ekki allir jafnir fyrir þeim.

Þessi árátta er kennd við nornaveiðar gangi hún í öfgar – vonandi erum við ekki að hraðleið inn á þær veiðilendur.