14.10.2017 14:31

Jón Gnarr málaliði Samfylkingarinnar

Uppgjör innan smáflokka eru hörð í kosningabaráttunni. Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar, var settur af sem formaður vegna þess að hann fældi atkvæði frá flokknum. Jón Gnarr hugmyndafræðingurinn að baki Betri framtíð vegur nú að flokknum.

Uppgjör innan smáflokka eru hörð í kosningabaráttunni. Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar, var settur af sem formaður vegna þess að hann fældi atkvæði frá flokknum. Jón Gnarr hugmyndafræðingurinn að baki Betri framtíð vegur nú að flokknum.

Jón Gnarr stofnaði Besta flokkinn árið 2009 og varð borgarstjóri 2010 með hann að baki sér. Besti flokkurinn og Björt framtíð urðu eitt árið 2013. Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, tók oft slaginn fyrir Jón í borgarstjórn. Óttarr berst nú fyrir pólitísku lífi sínu.

Óttarr Proppé og Jón Gnarr samfagna

Lýsti Jón Gnarr tengslum sínum við Bjarta framtíð á þessa leið á FB-síðu sinni:

„Þessi flokkur er afsprengi Besta flokksins og hefur fengið mikinn meðbyr fyrir tengsl sín við Besta flokkinn og hefur gefið sig út fyrir að hafa þá helstu sérstöðu í Íslenskum stjórnmálum að halda á lofti inntaki eða hugmyndafræði Besta flokksins um heilbrigð samskipti. Ég studdi flokkinn í upphafi og gaf honum gott veganesti. Þessi flokkur hefur á margan hátt siglt á mér og minni arfleið þótt ég hafi ekki verið hluti af honum.“

Frá því var skýrt á visir.is föstudaginn 6. október að Jón Gnarr hefði gengið til liðs við Samfylkinguna, sama dag og hann flutti erindi á fundi flokksins. Hann tók að sér launuð ráðgjafastörf fyrir flokkinn. „Mér líst bara rosalega vel á Samfylkinguna. Mér finnst þetta mjög spennandi frambjóðendur og það er mikið af nýju fólki," sagði Jón.

Björt Ólafsdóttir, ráðherra og framjóðandi Bjartrar framtíðar, sagði í samtali á visir.is föstudaginn 6. október að Jón hefði sóst eftir að starfa með Bjartri framtíð á fundi með flokknum stuttu eftir stjórnarslit Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar.

„Hann er auðvitað búinn að vera að leita sér að vinnu og það hefur verið mjög opið. Hann hefur nú fengið vinnu hjá Samfylkingunni og það er bara fínt og kemur mér þannig séð ekki mikið á óvart. Hann var búinn að leita til okkar áður hjá Bjartri framtíð en við því miður gátum ekki borgað honum því við tökum ekki við styrkjum frá fyrirtækjum,“ sagði Björt.

Guðlaug Kristjánsdóttir, stjórnarformaður Bjartrar framtíðar, birti mynd af undirskrift Jóns Gnarrs á meðmælendalista flokksins á samfélagsmiðlum að morgni laugardags 7. október. Guðlaug nefndi að bjóða ætti stuðningsyfirlýsinguna upp til að styrkja kosningasjóð flokksins. Skömmu síðar eyddi hún færslunni og sagðist dauðsjá eftir henni.

Guðlaug sagði:

„Hann [Jón Gnarr] lýsti eindregnum stuðningi við BF og sjálfan sig reiðubúinn til að liðsinna okkur á hvern þann hátt sem honum væri fært. Ég var snögg að nappa hjá honum undirskrift á meðmælendalista með BF, sem ég ætti kannski frekar að ramma inn en skila til kjörstjórnar. Á aðeins eftir að skilja hvernig uppistandið á fundi Samfó rímar við hjartanleg stuðningsloforð, en við skiljum auðvitað ekki alltaf alla brandara Jóns alveg strax. Namaste.“

Jóni mislíkaði greinilega þessar lýsingar forráðamanna Bjartrar framtíðar á framgöngu hans. Gerði hann atlögu að flokknum og flokksmönnum á Facebook-síðu sinni. Hann vildi ítreka að hann væri ekki félagi í Bjartri framtíð og að hún hefði ekkert með hann að gera.

Reiði Jóns má rekja til þess að hann fór, eftir samtal við Óttarr Proppé, ásamt konu sinni á fund hjá Bjartri framtíð eftir að boðað var til kosninga nú. Þar tók hann til máls og viðraði hugmyndir sínar. Þá segir Jón

„Gamall félagi, sem hafði verið með okkur í Besta flokknum, tók líka til máls og sagðist vera uppfull af gremju yfir að sjá svona mikið af nýju fólki og gömul andlit. Hún var reið vegna þess að henni fannst þau öll hafa verið að erfiða svo mikið og án þess að fá neina hjálp frá okkur en nú þegar byrjað væri að ganga vel þá ætluðum við að teika velgengnina. Þetta fannst okkur hjónum ákveðið högg í magann. Og það sem verra var, enginn annar stóð upp og mótmælti þessu. Þegar fundinum lauk laumuðum við okkur út.“

Hann segist hafa fengið ýmis tilboð frá öðrum flokkum en hafi ákveðið að ganga til liðs við Samfylkinguna fyrir tilstilli vinar síns, dr. Gunna. „Ég er búinn að vera frekar blankur undanfarið. Ég er rithöfundur en fæ ekki rithöfundalaun. Ég var á launum út í Houston en það kláraðist í vor og er í rauninni bara að vinna í útvarpinu einu sinni í viku. Gunni kom á fundi með fulltrúum Samfylkingarinnar.“

Jón veltir fyrir sér hvernig fjölmiðlar hafi komist að því að hann fái greitt fyrir vinnu sína hjá Samfylkingunni en hann hafi aðeins sagt Óttari Proppé frá því.

Hann segir viðtalið við Björt Ólafsdóttur sem vitnað er til  hér að ofan „einkennilega yfirlætislegt“. Hann hafi aldrei farið fram á neinar greiðslur og bætir við að greiðslur hafi ekki verið til umræðu:

„Ráðherrann sér ástæðu til að nefna sérstaklega atvinnustöðu mína og það sé ljóst að ég sé að leita mér að vinnu, ég sé ekki merkilegur pappír og farið hafi fé betra og enginn sem sakni mín. Mér finnst þetta ekki skemmtileg kveðja frá manneskju sem ég hef virt mikils og hef stutt á margan hátt í sinni pólitísku göngu og er sjálf í nokkuð vel launuðu starfi sem hún væri örugglega ekki í ef ég hefði aldrei verið til.“

Um framtak Guðlaugar Kristjánsdóttur segir Jón: „Ég hef upplistað ýmislegt virðingarleysi í afskiptum mínum af stjórnmálum en þetta er líklega það sjoppulegasta sem ég hef orðið fyrir. Þetta er ekki bara heimskulegt, dónalegt og ómaklegt heldur líklega ólöglegt líka.“

Jón kveðst ekki hafa gert þessu fólki neitt og skuldi því ekki neitt: „Ég hef gefið þeim mikið en þau hafa aldrei gefið mér neitt, nema þennan skít núna. Ég prísa mig nú sælan að hafa ekki gengið í þennan söfnuð. Samkvæmt mínum skilningi og upplifun þá hefur flokkurinn snúist upp í andhverfu sína og í staðinn fyrir að standa fyrir heilbrigði og eitthvað göfugt virðist hann helst standa fyrir sjúkleika og lágkúru.“