25.12.2019 11:24

Jólakortið kvatt

Fyrir rúmum 200 árum gerðu járnbrautirnar jólakortið lífvænlega viðskiptahugmynd. Nú hafa samgönguleiðir breyst og þar með dreifing jólakveðja. Við kveðjum jólakortið með söknuði.

Jólakortalistinn styttist ár frá ári og kortunum sem koma inn um bréfalúguna fækkar einnig. Þetta er hluti þjóðfélags- og samskiptabreytinga sem verða ekki stöðvaðar. Um þessi jól barst til dæmis eitt kort með þeim boðum að viðkomandi væri hættur að senda jólakort en hann gerði þó þessa einu undantekningu.

Kveðjan yljaði um hjartaræturnar. Hún minnti jafnframt á að líklega væri tímabært að færa þessi samskipti alfarið í netheima eins og svo margt annað.

Sir Henry Cole sendi fyrsta jólakortið árið 1843. Fyrir honum vakti að rækta tengsl við vini sína og að almenna breska póstþjónustan, sem hófst skipulega árið 1840, næði betur til almennings. Um þetta leyti komu járnbrautirnar til sögunnar og ódýrara varð að flytja póst með þeim en hestvögnum. Fleiri en miklir efnamenn gátu sent bréf í pósti.

Í samvinnu við vin sinn, listamanninn John Horsley, hannaði Sir Henry Cole – sem nú er einkum minnst fyrir að stofna Viktoríu og Albert-safnið í London ­– fyrsta jólakortið. Naut það velþóknunar Viktoríu drottningar.

Kortið er þrískipt. Í ytri römmunum tveimur eru myndir sem sýna umhyggju í garð fátækra en í stóra miðjurammanum situr fjölskylda við glæsilegan jólamálsverð. Ýmsum var misboðið vegna þess að á myndinni sést barn með vínglas. Talið er að um eitt þúsund kort hafi verið prentuð og seld. Hér er mynd af kortinu:

FirstchristmascardFyrsta jólakortið - frá 1843.

Í stuttri sögu jólakortsins á netinu segir að í upphafi 20. aldar hafi Danir tekið til við að selja merki góðgerðarfélaga til að líma á jólakortaumslög eða kortin sjálf. Þetta hafi reynst mjög góð fjáröflunarleið sem ruddi sér rúms í Noregi og Svíþjóð og síðan um allan heim.

Á vefsíðu Þjóðminjasafns Íslands segir:

„Annars var það nokkuð misjafnt eftir löndum hvenær framleiðsla jólakorta varð almenn og í Danmörku var fyrst notast við þýsk jólakort, allt þar til Danir fóru að framleiða sín eigin kort um 1880. Fyrstu jólakortin komu á markað á Íslandi um 1890 og voru dönsk eða þýsk og er elsta jólakortið sem varðveitt er í Þjóðminjasafninu danskt að uppruna, frá árinu 1891.

Rétt undir aldamótin 1900 fóru síðan heimagerð íslensk jólakort að sjást í verslunum og eru elstu varðveittu íslensku jólakortin frá árinu 1900. Þau sýndu oft ljósmyndir af þekktum íslenskum byggingum og landslagi, gjarnan í vetrarbúningi, og þekkist slíkt myndefni á jólakortum enn þann dag í dag. Sömuleiðis var vinsælt áður fyrr að senda erlend jólakort af þekktum leikurum. Seinna á 20. öldinni fór að bera á teiknuðum jólakortum samtímis sem þau urðu æ algengari, sérstaklega á árunum milli stríða.“

Fyrir rúmum 200 árum gerðu járnbrautirnar jólakortið lífvænlega viðskiptahugmynd. Nú hafa samgönguleiðir breyst og þar með dreifing jólakveðja. Við kveðjum jólakortið með söknuði. Það hefur ekki síður verið ánægjulegt að taka þátt í að hanna kortið en taka á móti því.