10.9.2018 10:03

Járn í járn í sænskum stjórnmálum

SD eru sigurvegarar kosninganna. Nú er spurning hvort Ulf Kristersson, formaður Moderatarna, veðjar á stuðning þeirra við myndun ríkisstjórnar.

Óvissa er um stjórnarmyndun í Svíþjóð að loknum þingkosningunum sunnudaginn 10. september. Svo mjótt er á munum á milli hægri og vinstri fylkinganna að þess er beðið með eftirvæntinu hvaða áhrif 200.000 utankjörstaðaatkvæði hafi en þau verða talin miðvikudaginn 12. september. Nú skilja 28.000 atkvæði á milli fylkinganna. Rauðgræna fylkingin er með 40.6% atkvæða að baki sér og 144 þingmenn en Alliansinn, bandalag borgaraflokkanna, með 40,3% og 143 þingmenn, Svíþjóðardemókratar (SD) eru á milli með 62 þingmenn.

5653081Stefan Lövfen, leiðtogi sænskra jafnaðarmanna og forsætisráðherra, og Ulf Kristersson, leiðtogi Moderatrna, sem gerir kröfu til að verða forsætisráðherra.

Jafnaðarmenn eru enn stærsti flokkur Svíþjóðar með 28,4% atkvæða (31% 2014), minnsta fylgi sitt í 100 ár, Moderatarna (mið-hægri) eru annar stærsti flokkurinn með 19,6% atkvæða (23% 2014) – báðir stóru flokkarnir tapa fylgi en hvor um sig gerir kröfu um að leiða ríkisstjórn. Svíþjóðardemókratar (SD) eru þriðju með 17,6% (12,9% 2014) fylgi eins og tölur standa nú.

SD eru sigurvegarar kosninganna. Nú er spurning hvort Ulf Kristersson, formaður Moderatarna, veðjar á stuðning þeirra við myndun ríkisstjórnar. Það kann að riðla Alliansen vegna þess að Miðflokkurinn og Frjálslyndir lögðust hart gegn SD í kosningabaráttunni.

Leiðtogi jafnarðarmanna, Stefan Lövfen forsætisráðherra, sagði að kvöldi kjördags að stjórn sín sæti áfram þar til ný stjórn yrði mynduð. Hann sagðist vilja fullvissa Svía um að landið yrði ekki stjórnlaust þótt það tæki nokkrar vikur að berja saman stjórn sem nyti nægilegs stuðnings á þingi. Lövfen hvatti til þess að nýkjörnir þingmenn og forystumenn þeirra hugsuðu út fyrir raðir hefðbundnu fylkinganna.

Sænska þingið kemur saman 25. september. Biðjist Löfven ekki lausnar fyrir þann dag er unnt að fella ríkisstjórnina með vantrausti á þingi.

Dmrqz48w0aadcvwJimmie Âkesson, leiðtogi SD, fagnar úrslitum kosninganna.

Jimmie Åkesson, leiðtogi SD, segir flokk sinn fúsan til samninga við alla aðra flokka og til að komast að málamiðlunum sé það nauðsynlegt. Í krafti 62 þingmanna geti þeir ekki knúið öll stefnumál sín í gegn en þeir vænti þess að áhrif sín verði í samræmi við þingmannafjöldann.

Með vísan til stjórnarsetu norska Framfaraflokksins og stöðu Danska þjóðarflokksins vakna spurningar um hvort ekki megi skilgreina Svíþjóðardemókrata sem hæfa til stjórnarsamstarfs í einni eða annarri mynd. Stjórnmálafræðingar segja að í því sambandi verði að taka tillit til þess hvernig stjórnmálaumræðum í Svíþjóð sé háttað, hvað sé við hæfi að segja og hvað megi ekki segja. Þetta svigrúm sé tiltölulega þröngt í Svíþjóð einkum varðandi suma málaflokka. Þetta stuðli að því að einangra Svíþjóðardemókratana, ef til vill þurfi eitt kjörtímabil enn til að staðan í sænskum stjórnmálum svipi til þess sem er í Noregi og Danmörku.

Reynslan af komu Piu Kjærsgaard, forseta danska þingsins, hingað til lands í júlí sýnir að píratar og að minnsta kosti hluti þingmanna Samfylkingarinnar eru á sænsku línunni í þessu efni: það beri ekki að leyfa boðendum allra skoðana að njóta sín.