26.12.2018 10:31

Japanir úr Alþjóðahvalveiðiráðinu

Sagan af samskiptum íslenskra stjórnvalda við Alþjóðahvalveiðiráðið sýnir að í hvalamálinu tók alþingi tvær vitlausar ákvarðanir sem bjargað var með einni réttri að lokum.

Japanir hafa tilkynnt úrsögn sína úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Þeir ætla að hefja veiðar í viðskiptaskyni innan eigin lögsögu en hætta hvalveiðum við Suðurskautið. Þeir hafa árangurslaust reynt að fá hvalveiðiráðið til að samþykkja sjálfbærar veiðar.

Á tíunda áratugnum varð mjög víðtæk samstaða á alþingi um að segja Ísland úr Alþjóðahvalveiðiráðinu. Nokkrum árum áður hafði þingið samþykkt að sætta sig við veiðibann hvalveiðiráðsins. Tilgangurinn með úrsögn úr ráðinu var að skjóta sér undan þeirri ákvörðun og jafnframt var sagt að komið yrði á fót nýjum samtökum ríkja við Norður-Atlantshaf, NAMMCO. Innan þeirra gætu Íslendingar fengið lögmæti fyrir að hefja hvalveiðar að nýju.

Seint og um síðir opnuðust augu alþingismanna fyrir því hve vitlaus úrsögnin úr Alþjóðahvalveiðiráðinu var. NAMMCO dugði ekki til að skapa lögmæti fyrir hvalveiðum Íslendinga að nýju. Þá var ákveðið að ganga að nýju í Alþjóðahvalveiðiráðið, með fyrirvara gegn hvalveiðibanninu. Úrsögnin hafði þann eina kost að gera alþingi kleift að breyta fyrri samþykkt sinni. Síðan var tekin ákvörðun um að leyfa hvalveiðar, þrátt fyrir miklar hrakspár um eyðileggingu fiskmarkaða og hræðslu í ferðaþjónustu við minni umsvif.

Sagan af samskiptunum við Alþjóðahvalveiðiráðið sýnir að í hvalamálinu tók þingið tvær vitlausar ákvarðanir sem bjargað var með einni réttri að lokum.

_104949039_gettyimages-102262270Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Japönum vegnar utan hvalveiðiráðsins og hvort staða þeirra þar ýtir undir kaup þeirra á hvalaafurðum héðan. Þrátt fyrir hvalveiðar Hvals hf. hefur ferðamönnum hingað fjölgað jafnt og þétt og sé hvalveiðunum mótmælt fer ekki hátt um það. Þær skapa hins vegar vandræði í diplómatískum samskiptum við Bandaríkjastjórn því að hömlur eru á ferðaheimildum háttsettra bandarískra embættismanna til hvalveiðilanda.