23.5.2017 8:51

Jákvæðar heilbrigðisfréttir

Tvær fréttir birtust í Morgunblaðinu i gær sem stangast á við þær fréttir sem gjarnan eru fluttar um íslensk heilbrigðismál.

Tvær fréttir birtust í Morgunblaðinu i gær sem stangast á við þær fréttir sem gjarnan eru fluttar um íslensk heilbrigðismál.

Fyrirsögn fyrri fréttarinnar var:

Ísland í 2. sæti yfir heilbrigðiskerfi

Þar kom fram að á Íslandi væri „næstbesta heilbrigðiskerfi í heimi, samkvæmt umfangsmikilli rannsókn á heilbrigðiskerfum heimsins“. Ra.nnsóknin náði til 195 landa og skoðaðar upplýsingar frá árunum 1990 til 2015. Niðurstöður voru birtar í The Lancet, einu virtasta og elsta læknatímariti heims, fyrir helgi.

Andorra er í efsta sæti (95 af 100 stigum), Ísland nr. 2 (94 stig), Sviss nr. 3 (92 stig), Noregur og Svíþjóð nr. 4 (90 stig)

Um er að ræða útreikning á heilbrigðisvísitölu (e. healthcare access and quality index) sem er reiknuð út frá aðgengi og gæðum heilbrigðis- þjónustu með tilliti til dánartíðni af viðráðanlegum sjúkdómum.

Fyrirsögn síðari fréttarinnar var:

Rannsókn á launum gefur skakka mynd

Samtök atvinnulífsins birtu laugardaginn 20 maí í Morgunblzðinu upplýsingar sem sýndu að læknar og hjúkrunarfræðingar væru með hærri laun hér á landi en kollegar þeirra annars staðar á Norðurlöndum. Íslenskir hjúkrunarfræðingar eru sagðir með 25% hærri regluleg laun, án yfirvinnugreiðslna, en kollegar þeirra að meðaltali á Norðurlöndum. Þá eru hjúkrunarfræðingar með 50% hærri regluleg heildarlaun, þ.e. yfirvinnugreiðslur meðtaldar, samanborið við regluleg laun kollega þeirra annars staðar á Norðurlöndum.

Læknar á Íslandi eru með 30% hærri regluleg laun og 70% hærri heildarlaun en regluleg laun kollega þeirra annars staðar á Norðurlöndunum.

Í Morgunblaðinu mánudaginn 22. maí segir Þorbjörn Jónsson, formaður Læknafélags Íslands, greiningu Samtaka atvinnulífsins á launum lækna hérlendis gefa skakka mynd af raunveruleikanum. „Við teljum að þetta gefi ekki rétta mynd. Svona samanburður er alltaf erfiður, sérstaklega vegna vinnutíma og hvernig launakerfi eru byggð upp,“ segir Þorbjörn.

Nefnir Þorbjörn máli sínu til staðfestingar að vinnuvikan sé lengri hér en í Noregi og hér fái menn vaktavinnu greidda í peningum en í Skandunavíu fái þeir greitt með vaktafríi. Þá eigi að taka aldur lækna með í reikninginn. Þá sé framhaldsnám íslenskra lækna að mestu leyti erlendis.

Þorbjörn tók einnig fram að styrking krónunnar hefði mikil áhrif á samanburð launa við erlend ríki og þá ekki bara hjá læknum heldur öðrum stéttum eins og hjá hjúkrunarfræðingum.

Allt er þetta rétt hjá Þorbirni en breyta ekki þeirri staðreynd að laun lækna og hjúkrunarfæðinga eru hærri hér en annars staðar á Norðurlöndunum.