Jákvæð kosningaúrslit
Sé litið til úrslitanna hér í ljósi þess sem er á Norðurlöndunum blasir við að stóru jafnaðarmannaflokkarnir sem fengu áður fyrr öflugan stuðning með um 40% fylgi eru nú á svipuðu róli og Sjálfstæðisflokkurinn.
Úrslit kosninganna eru jákvæð af þremur ástæðum:
- Vinstri stjórn er ekki í kortunum. Sé vilji til að mynda þriggja flokka stjórn verður það ekki gert án Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn getur myndað þriggja flokka stjórn með Framsóknarflokknum og Vinstri grænum (VG) eða Flokki fólksins eða Viðreisn. Samfylking og Píratar útilokuðu samstarf við flokkinn og verða því utan stjórnar. Engum getur dottið í hug að mynduð verði stjórn Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata, VG og Framsóknarflokksins, það er Reykjavíkurmódelið auk framsóknar.
- Núverandi stjórnarflokkar geta setið áfram í meirihlutastjórn með 37 þingmenn að baki.
- Sósíalistaflokkurinn fékk ekki mann á þing.
Forystumnenn ríkisstjórnarflokkanna í sjónvarpssal: Katrín Jakobsdóttir, Sigurður Ingi Jóhansson og Bjarni Benediktsson. (Mynd: mbl.is.)
Þrír flokkar bæta við sig fylgi:
Framsóknarflokkurinn mestu 6,6% í 17,3%, + 5 þingmenn alls 13.
Flokkur fólksins +1,9% í 8,8% +2 þingmenn alls 6.
Viðreisn +1,3% í 8,3% +1 þingmaður alls 5.
Tveir flokkar standa í stað:
Sjálfstæðisflokkur tapar 0,8% fær 24,4%, sami þingmannafjöldi 16.
Píratar -0,6% í 8,6% sami þingmannafjöldi 6.
Þrír flokkar tapa fylgi:
VG -4,3% í 12,6%, -4 þingmenn alls 8.
Samfylking -2,2% í 9,9% -1 þingmann alls 6.
Miðflokkurinn -5,5% í alls 5,4% -4 þingmenn í 3.
Sjálfstæðisflokkurinn fær langmest fylgi í kjördæmi formanns síns, Bjarna Benediktssonar, það er í fjölmennasta kjördæmi landsins, Suðvesturkjördæmi, en þar fékk D-listinn 30,2% atkvæða.
Sé litið til úrslitanna hér í ljósi þess sem er á Norðurlöndunum blasir við að stóru jafnaðarmannaflokkarnir sem fengu áður fyrr öflugan stuðning með um 40% fylgi eru nú á svipuðu róli og Sjálfstæðisflokkurinn sem naut einnig áður umtalsmeiri stuðnings kjósenda en nú.
Sjálfstæðisflokkurinn er nú hlutfallslega stærsti mið-hægri flokkurinn á Norðurlöndum. Hann er á svipuðu róli og flokkur jafnaðarmanna í Danmörku, aðeins minni en Verkamannaflokkurinn í Noregi og nokkrum prósentustigum minni en sænski jafnaðarmannaflokkur en stærri en finnski jafnaðarmannaflokkurinn. Í öllum þessum löndum er talið sjálfsagt að forystumaður stærsta flokksins myndi stjórn. Nú gerir Jonas Gahr Støre, formaður Verkamannaflokksins, tilraun til stjórnarmyndunar í Noregi þótt flokkur hans hafi tapað einum manni í kosningunum 13. september. Þar var Miðflokkurinn sigurvegari kosninganna og bætti við sig 9 þingmönnum.
Hefji stjórnmálafræðingar og aðrir álitsgjafar nú vangaveltur um kosningaúrslitin hér með vísan til Norðurlandanna yrði léleg útkoma Samfylkingarinnar æ augljósari. Flokkurinn sem átti árið 2000 að sameina félagshyggjuöflin og ýta Sjálfstæðisflokknum til hliðar hangir í raun á horriminni. Logi Einarsson flokksformaður átti þá ósk heitasta að kvöldi kjördags að félagshyggjuöflin sameinuðust! Hvað hefur hann verið að gera?