Jafnaðarmenn breyta um svip
Fyrir nokkrum árum var á það bent að evrópskir jafnaðarmannaflokkar yrðu að engu ef þeir tileinkuðu sér ekki ábyrgari stefnu og nýjan svip.
Þjóðverjar ganga til sambandsþingskosninga sunnudaginn 26. september. Þegar tvær vikur eru til kjördags er líklegt að jafnaðarmaðurinn (SPD) Olaf Scholz, fjármálaráðherra í stjórn Angelu Merkel, verði næsti kanslari Þýskalands.
Armin Laschet, leiðtoga kristilegra (CDU), hefur mistekist að ávinna sér nægilegt traust kjósenda, til dæmis birtust myndir af honum hlæjandi í heimsókn á flóðasvæðin í vesturhluta Þýskalands fyrr í sumar.
Sunnudaginn 12. september hittust Scholz og Laschet í sjónvarpsviðræðum ásamt Annalenu Baerbock, kanslaraefni Græningja.
Laschet gerði þar harða hríð að Scholz með ásökunum um að fjármálaráðuneytið undir hans stjórn hefði ekki staðið sig sem skyldi gegn peningaþvætti. Scholz neitaði því að skrifstofa hans sjálfs í ráðuneytinu sætti lögreglurannsókn eftir húsleit í fjármálaráðuneytinu og dómsmálaráðuneytinu í fyrri viku. Leitin var gerð að tilmælum stofnunar sem vinnur gegn peningaþvætti i Þýskalandi. Grunsemdir eru um að eftirlitsaðilar sem starfa á ábyrgð Scholz hafi ekki gert dómstólum viðvart þegar grunur vaknaði um nokkurra milljóna evru peningaþvætti.
„Starfaði fjármálaráðherra minn eins og þú stæðum við frammi fyrir alvarlegum vanda,“ sagði Laschet við Scholz.
Laschet lét einnig varnaðarorð falla um að hugsanlega mundi Scholz mynda þýska vinstri stjórn með Græningjum og Die Linke, flokknum lengst til vinstri á þýska sambandsþinginu.
Leiðtogar stóru flokkanna í Þýskalandi: Jafnaðarmaðurinn Olaf Scholz, græninginn Annalena Baerbock og Armin Laschet, kristilegur (CDU).
Kannanir að viðræðunum loknum sýndu að Laschet mistókst að veikja stöðu Scholz. Fjármálaráðherrann þótti mest sannfærandi af 41% áhorfenda, 27% sögðu þetta um Laschet og 25% um græningjann Baerbock.
Stjórnmálaskýrendur minna á að Laschet hafi sýnt það á heimavígstöðvum, sambandslandinu Nordrhein-Westfalen, að hann geti sótt í sig veðrið á lokametrum kosningabaráttu og skákað keppinautum sínum.
Fylgi kristilegu samstarfsflokkanna (CDU/CSU) mælist á hinn bóginn í sögulegu lágmarki, aðeins um 21%. Ætli Laschet að snúa vörn í sókn verður að hann að sýna meiri slagkraft en hann hefur gert til þessa.
Fyrir nokkrum árum var á það bent að evrópskir jafnaðarmannaflokkar yrðu að engu ef þeir tileinkuðu sér ekki ábyrgari stefnu og nýjan svip. Þá voru danskir jafnaðarmenn gjarna nefndir sem góð fyrirmynd til umbóta, til dæmis í útlendingamálum. Þýskir jafnaðarmenn létu sér þetta að kenningu verða eins og sést af mörgu í kosningabaráttu Olafs Scholz. Norskir jafnaðarmenn tóku sér einnig tak. Þeim er spáð velgengni í norsku þingkosningunum í dag, 13. september. Jonas Gahr Støre og borgaralegur bakgrunnur hans hentar nú norska Verkamannaflokknum betur en áður til að ná til kjósenda.
Hér flaggar Samfylkingin á lokametrum fyrir kosningar Kristrúnu Mjöll Frostadóttur, 33 ára hagfræðingi með bakgrunn í Seðlabankanum, greiningardeild Arion banka, bandaríska fjárfestingarbankanum Morgan Stanley og sem aðalhagfræðingur Kviku banka frá 2018. Til að sanna jafnaðarmennskuna boðar hún endurupptöku auðlegðarskatts!