Jacques Chirac jarðsettur
Í blaðinu Journal du Dimanche var um helgina sagt frá könnun sem sýndi að Chirac nyti mestra vinsælda og virðingar sem forseti Frakklands fyrir utan Charles de Gaulle.
Þegar þetta er skrifað er bein útsending á sjónvarpsstöðinni France 2 frá útför Jacques Chiracs sem var forseti Frakklands í 12 ár frá 1995 til 2007. Fjölskylda og vandamenn kvöddu ástvin sinn snemma morguns við einkaathöfn í kirkjunni Saint-Louis des Invalides.
Frá Invalide (þar er meðal annars grafreitur Napóleons) var kistan flutt að Saint-Sulpice dómkirkjunni skammt frá Lúxemborgargarðinum og öldungadeild þingsins. Athöfninni þar var sjónvarpað beint. Meðal kirkjugesta voru Emmanuel Macron Frakklandsforseti og fyrrverandi forsetarnir Valéry Giscard d'Estaing, Nicolas Sarkozy, François Hollande auk 80 erlendra fyrirmenna og hundruð annarra en þúsundir manna stóðu utan dyra og fylgdust með á skjám.
Chirac (86 ára) andaðist fimmtudaginn 26. september og er eftirminnilegt að sjá hve myndarlega var staðið að því í franska sjónvarpinu að minnast hans. Af þeim frásögnum var auðvelt að ráða hve mikilla vinsælda hann aflaði sér sem stjórnmálamaður.
Pólitískur heimavöllur Chiracs var Corrèze, landbúnaðarhérað í hjarta Frakklands. Það er til marks um sérkenni franskra stjórnmála að þingmaður frá Corrèze yrði borgarstjóri í París, 1977 til 1995.
Emmanuel Macron við kistu Chiracs í Invalide.
Vegna tengsla Chiracs við landbúnaðinn voru sýndar margar myndir af honum með bændum og búfé auk þess sem þess var rækilega getið að hann hefði verið bon vivant, glaðvær lífsnautnamaður en jafnframt harður í horn að taka og slyngur stjórnmálamaður.
Í blaðinu Journal du Dimanche var um helgina sagt frá könnun sem sýndi að Chirac nyti mestra vinsælda og virðingar sem forseti Frakklands fyrir utan Charles de Gaulle.
Hann hallaðist að stefnu de Gaulles um sjálfstæða afstöðu Frakka á alþjóðavettvangi þegar hann ákvað 2003 að leggja Bandaríkjastjórn ekki lið í innrásinni í Írak.
Útför Chiracs var sálumessa að kaþólskum sið. Einstaklega hátíðleg með þátttöku frábærra listamanna, Daniel Barenboim lék impromptu eftir Schubert á píanó.
Frú Vigdís Finnbogadóttir var fulltrúi Íslendinga við útförina og sást í sjónvarpi þegar Édouard Philippe forsætisráðherra tók á móti henni áður en hún gekk inn í Saint-Sulpice dómkirkjuna. Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, var fulltrúi þjóðar sinnar. Þarna voru einnig Vladimir Pútín Rússlandsforseti og Albert prins af Monakó svo að dæmi séu nefnd.