29.4.2018 17:04

Ísraelar standa fast á rétti sínum

Ísraelar fögnuðu 70 þjóðhátíðardegi 19. apríl 2018. Þennan dag árið 1948 las David Ben-Gurion, fyrsti forsætisráðherra Ísraels, upp sjálfstæðisyfirlýsingu Ísraela.

Haldið var af stað með WOW air-vélinni frá Ben Gurion-flugvelli í Tel Aviv í Ísrael um klukkan rúmlega 09.00 að staðartíma í morgun (29.apríl) og lent eftir sjö tíma flug eða rúmlega 13.00 á ísl. tíma. Allt á áætlun. 

Þegar komið er til Keflavíkurflugvallar frá Tel Aviv þurfa farþegar að sæta öryggisleit með þeirri skýringu að farið sé eftir reglum um komu á Schengen-svæðið frá öðrum löndum en Bretlandi og Bandaríkjunum. Þetta er skrýtin regla úr því að veittar eru svona miklar undanþágur frá henni. Í fáum löndum er auk þess gætt meira öryggis við innritun í flugvélar en í Ísrael. 

Leitin kom greinilega erlendum farþegum, sem margir voru á leið til Bandaríkjanna, í opna skjöldu, sérstaklega þar sem engin viðvörun virðist hafa verið gefin, til dæmis við kaup í fríhöfninni á Ben Gurion-flugvelli.  

IMG_5814_1525021326375Séð yfir Musterishæðina og Jerúsalem frá Olíufjallinu.

Undanfarna daga hef ég sagt lauslega frá dagskrá okkar sem fórum í hópferðina á vegum Minja og sögu til Ísraels. Fróðleikurinn sem við fengum var svo mikill að það tekur sinn tíma að melta hann. 

Ísraelar fögnuðu 70. þjóðhátíðardegi sínum 19. apríl 1918 sjá hér . Þennan dag árið 1948 las David Ben-Gurion, fyrsti forsætisráðherra Ísraels, upp sjálfstæðisyfirlýsingu Ísraela. Í aðdraganda hennar var hart tekist á um hvernig haga ætti stöðu araba annars vegar og gyðinga hins vegar á landsvæðinu sem gyðingar töldu sitt og þeim hafði verið úthlutað. 

Gengið var til atkvæða um málið á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) 29. nóvember 1947. Thor Thors, sendiherra Íslands hjá SÞ, var einn þriggja manna í nefnd sem átti að leita sátta um málið innan vébanda SÞ. Það mistókst og kom það í hlut Thors að kynna allsherjarþinginu þá niðurstöðu nefndarinnar raunhæfasta leiðin væri að skipta Palestínu. Var það samþykkt með 39 atkvæðum gegn 13 (fulltrúar 10 ríkja greiddu ekki atkvæði).  

Þessi ákvörðun leiddi til átaka enda var það og hefur verið yfirlýst stefna araba að reka Ísraela á haf út. Þessi afstaða kann þó að breytast, fyrir skömmu sagði krónprinsinn í Sádí-Arabíu gyðinga eiga rétt til lands í Palestínu.  

Hliðarveruleikinn í stjórnmálum Mið-Austurlanda er friðarferlið milli Ísraela og araba. Hvað eftir annað berast fréttir um að þessi eða hinn atburðurinn ógni þessu ferli. Það er hins vegar einfaldlega hluti „eðlilega ástandsins“ í þessum heimshluta þar sem deilt hefur verið um áhrif og land frá örófi alda.

ps. í upphaflegri færslu sagði ég þjóðhátíðardag Ísraels 14. maí en þá miðaði ég við okkar tímatal en ekki það hebreska eins og Ísraelar gera.