Íslenskir snillingar í kirkju Bachs
Hér er sagt frá tveimur íslenskum stórlistamönnum í Tómasarkirkjunni í Leipzig: Benedikt Kristjánssyni og Páli Ísólfssyni.
Benedikt Kristjánsson tenór vann einstætt afrek föstudaginn langa þegar hann og félagar hans, Elina Albach sembal- og orgelleikari og slagverksleikarinn Philipp Lamprecht fluttu Jóhannesarpassíu Johanns Sebastians Bach í Tómasarkirkjunni í Leipzig í Þýskalandi, við gröf tónskáldsins. Flutningnum var streymt og auk þess sem sjónvarpað var frá honum.
Rætt var við Benedikt í Morgunblaðinu miðvikudaginn 15. apríl og hann sagði meðal annars um reynslu sína:
„Það er mjög erfitt að koma því í orð. Til að byrja með hafði það verið takmark hjá mér í átta ár að syngja í Tómasarkirkjunni, eða allt síðan ég komst í undanúrslit Bach-keppninnar en ekki í úrslitin sjálf, en þá er sungið í kirkjunni. Síðan hefur mig langað að syngja í kirkjunni og nú kom það til mín með þessum óvenjulega hætti. En kvöldið fyrir flutninginn, þegar við vorum að æfa í kirkjunni, bað ég húsvörðinn um að fá að vera einn eftir í kirkjunni í hálftíma. Ég sat þar hjá gröf Bachs, söng sálm og náði að tengja mig umhverfinu. Ég vissi að mögulega yrði þetta það stærsta sem ég myndi gera á starfsævinni.
Ég held að ég muni aldrei aftur gera neitt þessu líkt. Þetta var einstakt. Það er meira en 170 ára hefð fyrir því að drengjakór kirkjunnar í Leipzig flytji passíu á föstudaginn langa; meira að segja árið 1945 meðan sprengjunum rigndi voru þeir sendir í búðir og fluttu passíu með fáeinum hljóðfæraleikurum. En núna, í fyrsta skipti, kemur enginn heimamaður frá Leipzig heldur Íslendingur inn í Tómasarkirkjuna og flytur passíu eftir Bach á föstudaginn langa! Þetta var absúrd og mun aldrei gerast aftur.“
Tómasarkirkjan Í Leipzig
Við lestur þessara orð kom í hugann það sem Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri, hefur eftir Páli Ísólfssyni, organleikara og tónskáldi, í samtalsbók þeirra Hundaþúfan og hafið (útg. 1961) en Páll lærði í Leipzig og var um tíma organisti í Tómasarkirkjunni. Páll segir, nýkominn til Leipzig árið 1913:
„Næsta dag vaknaði ég eldsnemma, herti upp hugann og skoðaði borgina. Mér fannst hún stórkostleg, ekki sízt Konsvervatóríið og Tómasarkirkjan. Ég laumaðist inn í hana í óleyfi og þá hvarflaði að mér sú hugsun, að ég ætti kannski eftir að standa í fótsporum meistarans og spila þar á orgel. En í sömu andrá heltók mig ósegjanlegur kvíði og það var eins og ól væri hert að hálsinum á mér, og ég náði ekki andanum. [...] Og svo allt í einu teygði sig geisli inn um einn gluggann og í skugga minnar eigin háæruverðugu persónu, sem teygði sig upp einn vegginn í græzkulausum leik við þennan óboðna sólargeisla, þóttist ég sjá hlutskipti mitt í þeim veruleikans heimi, sem ég nú leitaði að. Síðan hef ég ávallt verið stoltur af því að hafa fengið tækifæri til að skilja skuggann minn eftir á vegg þessarar gömlu kirkju.“ (s. 98)