27.9.2020 10:33

Íslenskan í brennidepli

Viðfangsefnið tungumál í ferðaþjónustu er brýnt fyrir málnefndina þegar tekið er mið af því að íslenskan skipar í vaxandi mæli annað sæti á eftir enskunni þegar í þessari mikilvægu atvinnugrein.

Málræktarþing Íslenskrar málnefndar var haldið laugardaginn 26. september og voru viðhorf til íslensku í brennidepli. Þar á meðal var fluttur fyrirlestur um tungumál í ferðaþjónustu eins og segir í auglýstri dagskrá.

Fyrirlestrar á málþinginu hafa ekki verið birtir og þess vegna skal ekki fjallað um efni þeirra hér. Viðfangsefnið tungumál í ferðaþjónustu er brýnt fyrir málnefndina þegar tekið er mið af því að íslenskan skipar í vaxandi mæli annað sæti á eftir enskunni þegar í þessari mikilvægu atvinnugrein.

120082600_395920045140309_2726242626841763013_oMyndin er tekin af síðu Food Station í Borgarnesi sem heitir einnig Fóðurstöðin á sumum myndum.

Þegar ekið er í vestur undir Ingólfsfjalli blasir til dæmis við risastórt fjólublátt skilti í vesturrótum fjallsins sem kennt er við fyrsta landnámsmanninn. Á skiltinu stefndur stórum hvítum stöfum: Breathtaking experience. Á ensku nota menn orðið breathtaking til dæmis til að hrífandi sýn ofan af fjallsbrún. Ef til vill er skiltið sett upp til að hvetja enskumælandi ferðamenn til að ganga upp á Ingólfsfjall eða Kögunarhólinn hinum megin við þjóðveg 1?

Þá má heyra í útvarpi auglýsingar um að þeir sem eru svangir á leið um Borgarnes geti notið matar í því sem kallað er Food Station. Hér hefur íslenska orðið mathöll fest rætur um stað þar sem nálgast má það sem nefnt er Food Staion í stórum verslunarmiðstöðvum erlendis. Í Borgarnesi hafa menn farið að dæmi Frakka sem nota einnig Food Station í sínu máli, unnendum franskrar tungu til ama og leiðinda.

Hér hafa verið nefnd tvö dæmi af fjölmörgum um hvernig enska nær yfirhöndinni í ferðamálinu á Íslandi.

Íslenskri málnefnd ber að álykta ár hvert um stöðu móðurmálsins. Í ályktuninni árið 2020 segir meðal annars:

„Við nýjar aðstæður í samfélaginu á þessu ári kom berlega í ljós að ritmál í ferðaþjónustu er nánast eingöngu á ensku eða öðrum erlendum málum. Það kom sér illa þegar markaðssókn tók nýja stefnu og hætt var að beina markaðsefni að erlendum gestum vegna ferðatakmarkana af völdum farsóttar og því beint að þeim sem búa á Íslandi. [...]

Þær breytingar á ferðamennsku og fyrirtækjarekstri sem fylgdu farsóttinni fela í sér sóknarfæri fyrir íslenskt mál og tækifæri til viðhorfsbreytingar. Það þyrfti að nýta þegar vöxtur færist í ferðaþjónustu á ný ́og hvetja fyrirtæki til að bjóða vörur sínar og þjónustu ávallt fram á íslensku til jafns við önnur tungumál. Enginn ætti að geta ferðast um Ísland án þess að komast að því að hér á landi er talað sérstakt tungumál en ekki aðeins enska. Leggja á áherslu á að málið snúist um sjálfsvirðingu. Engu hóteli dettur í́ hug að láta gest koma að óuppbúnu rúmi og jafn sjálfsagt á að vera að íslenska sé ávallt sýnileg, ásamt ensku ef þurfa þykir.“

Að kvöldi laugardags 26. september sýndi ríkissjónvarpið beint frá söngkeppni framhaldsskólanna og mátti þar kynnast mörgum góðum flytjendum. Kristrún Heimisdóttir lögfræðingur sagði á Facebook um keppnina:

„Þegar við þáverandi stjórn Félags framhaldsskólanema bjuggum til Söngkeppni framhaldsskólanna settum við í reglurnar að það ætti að syngja á íslensku. Nú virðist enginn syngja á íslensku... Það er rugl sem þarf að laga.“

Hér er verðugt verkefni fyrir unnendur íslenskrar tungu. Eftir sönginn á meðan beðið var úrslita fóru rapparar með þulur sínar. Þeir töluðu íslensku en þannig að óþjálfað eyra nam ekki boðskapinn.