16.11.2021 10:02

Íslenska í framreiðsluheimi

Enginn Íslendingur biður nú um glóaldin, gulaldin eða jarðepli á veitingastað en eitthvað má á milli vera frá gerviveröld enskunnar í íslenskum veitingaheimi.

Að morgni 16. nóvember, afmælisdags Jónasar Hallgrímssonar og dags íslenskrar tungu, sagði gamalreyndur framreiðslumaður að í námi hans hefði það orðið mönnum til framdáttar á prófum að nota orðið glóaldin fyrir appelsínu, gulaldin fyrir sítrónu eða jarðepli fyrir kartöflur. Á hinn bóginn hefði hann ekki heyrt íslenskt orð fyrir karöflu. Um hana segir á vísindavef HÍ:

„Karafla er borðflaska undir vín eða vatn. Fleirtöluorðið er karöflur.

Samkvæmt Íslenskri orðsifjabók er það tökuorð úr dönsku, 'karaffel'. Á ensku og frönsku heitir þetta 'carafe', á ítölsku 'caraffa' og á spænsku 'garrafa'. Orðsifjabókin og aðrar heimildir á Netinu telja að orðið sé upprunalega komið úr arabísku.

Elsta dæmið um um orðið karöflu í ritmálssafni Orðabókar Háskólans er frá árinu 1879, en það er að finna í ritinu Mínir vinir, dálítil skemmtisaga, eftir Þorlák Ó. Johnson, verslunarmann.“

Framreiðsla er löggilt iðngrein og er náminu lýst þannig á vef Menntaskólans í Kópavogi:

„Framreiðslumaður vinnur sjálfstætt við framreiðslu, annast faglega þjónustu og stjórnun í veitingasal; tekur á móti gestum með viðeigandi hætti; stjórnar veisluhaldi í samstarfi við matreiðslumenn og annað fagfólk; gerir áætlanir um veitingarekstur og mannahald og velur viðeigandi framreiðsluaðferð eftir tilefni viðburða. Framreiðslumaður þjónar fjölmenningarlegum hópi gesta og leiðbeinir um val á vörum í samræmi við óskir og þarfir þeirra. Framreiðslumaður starfar í samræmi við siðareglur greinarinnar. Framreiðslumaður starfar þar sem seldar eru veitingar í atvinnuskyni.“

Í þeirri þjónustugrein sem hér er lýst á íslenska verulega undir högg að sækja.

Img_2479Framreiðsla er kennd í Menntaskólanum á Tröllaskaga og er myndin þaðan.

Í lok október 2021 var í ríkisútvarpinu rætt við Bjarnheiði Hallsdóttur, formann Samtaka ferðaþjónustunnar, um notkun ensku í íslenskri ferðaþjónustu. Hún sagði ensku hafa rutt sér rúms á löngum tíma í greininni án umræðu eða sérstakrar ákvörðunar. Útlendingar sæktu hins vegar landið heim til að kynnast menningu þjóðarinnar og þar skipti tungumálið miklu. Þess vegna ætti alltaf að hafa íslenskuna fyrst og erlent tungumál fyrir neðan hana í auglýsingum eða t.d. á matseðlum.

Með aukinni markaðssetningu á netinu hefði notkun ensku vaxið verulega í ferðaþjónustunni. Eigendur fyrirtækja hefðu breytt nöfnum þeirra til að auðvelda leit á netinu. Nú sé þetta að breytast, leitarvélar stjórni ekki markaðssetningu lengur. Telur Bjarnheiður að það hafi áhrif hér og segir:.

„Ég er algerlega á þeirri skoðun að við eigum að reyna að halda í þetta ekta [íslenskuna] og þetta upprunalega alls staðar þar sem við getum því það er það sem ferðamenn eru að sækjast eftir. Þeir eru ekki að sækjast eftir einhverri gerviveröld sem þeir geta séð hvar sem er.“

Enginn Íslendingur biður nú um glóaldin, gulaldin eða jarðepli á veitingastað en eitthvað má á milli vera frá gerviveröld enskunnar í íslenskum veitingaheimi.