2.12.2017 11:35

Íslendingar eiga að standa utan deilna innan danska ríkjasambandsins

Það ætti að vera Íslendingum kappsmál að standa utan deilna innan danska ríkjasambandsins. Við höfðum þar aldrei stöðu nýlendu eins og danskir fræðimenn hafa áréttað í nýlegu fræðiriti um danska nýlenduveldið.

Tómlæti íslenskra stjórnmála- og fjölmiðlamanna um utanríkismál er ótrúlega mikið hér á landi og magnast með hverju árinu sem líður. Með fjölgun þeirra sem hafa menntað sig í alþjóðastjórnmálum hefði mátt ætla að umræður um þau  ykjust á vettvangi stjórnmála og í fjölmiðlum. Viðfangsefnin skortir ekki þegar litið er til breytinganna sem gerast svo ört að áhugamenn mega hafa sig alla við til að missa ekki af neinu sem snertir Ísland og Íslendinga ekki síður en aðrar þjóðir. Tilviljun virðist hins vegar ráða hvað kemst hér í fréttir eða kveikir umræður.

Poul Michelsen, Guðlaugur Þór Þórðarson og Erik Jensen rita undir þríhliða samstarfssamning í Reykjavík 31. ágúst 2017 - mynd af vefsíðu utanríkisráðuneytisins.

Lítið fór fyrir því 31. ágúst 2017 þegar Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra, Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja og Erik Jensen, sveitastjórnarráðherra Grænlands, rituðu í Reykjavík undir samning þar sem formfest er almennt þríhliða samstarf landanna. Í samningnum er fest í sessi að utanríkisráðherrar landanna þriggja haldi árlega samráðsfundi. Þá er komið á fót vinnuhópi embættismanna landanna þriggja, sem m.a. er ætlað að gera tillögur um aukið samstarf þeirra og vinna að því að ryðja úr vegi viðskiptahindrunum milli landanna.

Samningurinn hefur dregið dilk á eftir sér, hann varð meðal annars til þess að færeyski utanríkisráðherrann Poul Michelsen lét hjá líða að sitja ráðstefnu í danska utanríkisráðuneytinu föstudaginn 1. desember.

Í samtali við grænlenska útvarpið KNR segir Michelsen að hann hafi ekki komist frá færeyska þinginu vegna afgreiðslu á umdeildri fiskveiðilöggjöf en í öðru lagi hafi komið til ágreinings milli sín og danska utanríkisráðuneytisins um ofangreindan þríhliða samning. Telur ráðherrann að með afstöðu sinni geri danska utanríkisráðuneytið lítið úr samvinnu eyríkjanna á Norður-Atlantshafi. Af þeirri ástæðu telji hann sig hafa verið óvelkominn á ráðstefnuna í Kaupmannahöfn.

Poul Michelsen gagnrýnir dönsku ríkisstjórnina í grein í blaðinu Sosialurin 1. desember fyrir afstöðu hennar til þríhliða samningsins en danska utanríkisráðuneytið telji hann brjóta gegn heimildum stjórna Færeyja og Grænlands til ákvarðana um utanríkismál innan rammans um danska ríkjasambandið.

„Um er að ræða gagnrýnisverða íhlutun í færeysk og grænlensk málefni,“ segir Michelsen.

KNR sneri sér til Anders Samuelsens, utanríkisráðherra Dana, vegna málsins. Hann sagði í orðsendingu til útvarpsins að danska ríkisstjórnin væri hlynnt góðu og árangursríku samstarfi milli Færeyinga, Grænlendinga og Íslendinga. Hún vildi alls ekki leggjast gegn því. Á hinn bóginn yrði að haga samstarfinu þannig að það félli innan formlegs ramma sem settur hefði verið með lögum og þar á meðal stjórnarskránni. Það skipti miklu fyrir ríkisstjórnina að viðhalda uppbyggilegu samstarfi við landsstjórnina í Færeyjum á sviði utanríkismála þar sem Færeyingar ættu mikilvægra, lögmætra hagsmuna að gæta.

KNR segir að grænlensk yfirvöld skilji ekki hvers vegna Poul Michelsen hafi kosið að sitja ekki ráðstefnuna. Aqqaluaq B. Egede ráðherra segir að Grænlendingar vilji ekki forðast að ræða við þá sem þeir séu ósammála, geri þjóðir það leiði það aðeins til vandræða.

Af þessu má ráða að minnsta kosti þrennt: (1) Dönsku ríkisstjórninni er kappsmál að hafa sterk tök á ákvörðunum Færeyinga og Grænlendinga um utanríkismál; (2) stjórnir Færeyja og Grænlendinga eru ekki samstiga og (3) skort hefur samráð við dönsk stjórnvöld.

Spyrja má hvort framvinda þessa máls valdi vandræðum í samskiptum íslenskra og danskra stjórnvalda. Hvernig var þetta rætt og reifað hér á landi áður en undir þennan samning var skrifað? Hafi það verið gert á bakvið luktar dyr er það skýrt dæmi um skort á umræðum um utanríkismál sem snerta hagsmuni þjóðarinnar og þróunina í okkar næsta nágrenni. Vissu íslensk stjórnvöld um andstöðu dönsku ríkisstjórnarinnar?

Í Morgunblaðinu í gær birtist grein eftir mig um stórverkefni nýrrar ríkisstjórnar í utanríkismálum og má lesa hana hér . Þá vissi ég ekki að nýgerði þríhliða rammasamningurinn hefði leitt til þessara vandræða.

Það ætti að vera Íslendingum kappsmál að standa utan deilna innan danska ríkjasambandsins. Við höfðum þar aldrei stöðu nýlendu eins og danskir fræðimenn hafa áréttað í nýlegu fræðiriti um danska nýlenduveldið.