25.6.2020 9:39

Ísland sagt í tröllahöndum

Höfundur segir að á þessu stigi hafi Kínverjar komið til sögunnar. Smátt og smátt hafi þeir fyllt tómarúmið sem ESB skildi eftir sig.

Á belgísku vefsíðunni EuObserver birtist miðvukudaginn 24. júní grein eftir Caroline de Gruyter í Osló en hún er kynnt sem Evrópufréttaritari og dálkahöfundur fyrir hollenska blaðið NRC Handelsblad. Greinin á EuObserver er sögð hafa birst upphaflega í blaðinu De Standaard.

Greinin snýst um kínversk áhrif á Íslandi en fjárfestingar Kínverja eru sagðar nema næstum 6% af meðal vergri landsframleiðslu hér undanfarin fimm ár. Eftir að Bandaríkjamenn hafi hætt að vera ráðandi erlenda aflið á Íslandi fyrir 20 árum hafi Kínverjar fært sig upp á skaftið og nú séu Kínverjar „all over the island“ eins og það er orðað, eða „um alla eyjuna“. Íslendingar hafi orðið fyrstir Evrópuþjóða til að gera fríverslunarsamning við Kínverja „einkum til að ýta undir útflutning á íslenskum fiski“. Íslensk fyrirtæki komi að jarðhitavæðingu í Kína með lánum frá Asian Dvelopment Bank og frá 2010 hafi nokkrum sinnum komið til gjaldeyrisskipta á milli landanna. Kínverjar hafi opnað hér norðurslóða-rannsóknastöð árið 2018 og boðið Íslendingum aðild að belti-og-braut-fjárfestingaverkefninu.

Slide1Kínverska rannsóknarsetrið að Kárhóli í Þingeyjarsýslu (mynd karholl.is).

Höfundurinn vitnar í bók Baldurs Þórhallssonar prófessors um smáríki og þörf þeirra fyrir skjól hjá stærri ríkjum, Íslendingar þurfi stöðugt að laga sig að sveiflum í samskiptum stórvelda, „geopolitical shifts“.

Þeir hafi fundið slíkt skjól hjá Bandaríkjamönnum eftir slitin á sambandinu við Dani á fimmta áratugnum. Þá hafi þeir lagt rækt við Norðurlandasamstarfið. Þetta hafi gengið vel áratugum saman og að minnsta kostið dugað til að Íslendingar gátu ímyndað sér að þeir væru öruggir.

Íslendingar hafi orðið næsta ráðalausir eftir fall Berlínamúrsins árið 1989. Síðan hafi allt breyst árið 2006 þegar Bandaríkjamenn hafi ákveðið að loka fyrstu herstöð sinni í Evrópu – stöðinni á Íslandi. Í íslenskum fjárlögum hafi ekki einu sinni verið að finna neinn útgjaldalið til varnarmála.

Íslendingar hafi frá degi til dags leitað að nýju skjóli. Þeir hafi verið berskjölduð smáþjóð sem varð að standa á eigin fótum í bankahruninu 2008. Þeir hafi af gömlum vana leitað til til Bandaríkjamanna en án árangurs. Innan EFTA hafi ekki verið að finna neinn stuðning og þá hefðu Íslendingar sótt um ESB-aðild. Einnig hún misheppnaðist, Íslendingar vildu ekki laga sig að fiskveiðireglum ESB auk þess hefði ESB staðið með Hollendingum og Bretum í Icesave-deilunni.

Höfundur segir að á þessu stigi hafi Kínverjar komið til sögunnar. Smátt og smátt hafi þeir fyllt tómarúmið sem ESB skildi eftir sig. Íslendingar hafi stutt áheyrnaraðild Kína að Norðurskautsráðinu.

Undir lok greinarinnar segir:

„Eru Íslendingar að endurtaka sömu mistökin og áður: að treysta um of á einn stóran bandamann? Vegna andstöðu við þessa kínversku aðkomu hafa Bandaríkjamenn allt í einu sýnt endurnýjaðan áhuga á Íslandi.“

Höfundurinn segir að Íslendingar virðist leiksoppar í stórveldakeppni þar sem smáríki eigi á hættu að verða kramin ­– einkum standi þau ein.

Áhættan af því að ríki standi ein segir höfundur að sé verðið sem þau greiði fyrir fullveldið eins og Bretar kynnist um þessar mundir. Íslendingar hafi eflt tengslin við Breta, „hinn einmana úlfinn á jaðri Evrópu, sem þeir hafa fyrir skömmu gert varnarbandalag. En svo lítur út sem litla Ísland, þar sem íbúarnir eru aðeins 365,000, hafi meiri áhuga á þessu en Bretland hvernig sem á því stendur.“

Af þessari endursögn má ráða að höfundur hafi þá skoðun að Íslendingum sé best borgið innan ESB. Sérkennilegt er að hvergi er vikið einu orði að hernaðarlega þættinum, þeirri staðreynd að á undanförnum árum hefur athyglin beinst að nauðsyn þess að styrkja eftirlitsstarf á vegum NATO á Norður-Atlantshafi og laga sig að gjörbreyttum aðstæðum á norðurslóðum vegna loftslagsbreytinga.

Greinin sýnir fyrst og síðast að stórefla þarf alþjóðlega kynningu á stefnu Íslands í utanríkis- og öryggismálum fyrir utan nauðsyn þess að um þau sé rætt hér á landi á öðrum forsendum en þeim hvort nauðsynlegt sé að einstök mannvirki standist nútímakröfur.