9.11.2024 10:40

Ísland er lýðræðisríki

Séu þessi mál brotin til mergjar sést að ekkert þeirra hefur neinn varanlegan skaða í för með sér, úr öllum þeim má bæta, ekkert þeirra gengur gegn lýðræðislegum stjórnarháttum.

Jón Norðfjörð, fyrrverandi framkvæmdastjóri, birti grein í Morgunblaðinu miðvikudaginn 6. nóvember undir fyrirsögninni: Er raunverulegt lýðræði á Íslandi?

Þegar spurt er á þennan veg veit lesandinn að greinarhöfundur telur svarið neikvætt eða í besta falli á gráu svæði. Þetta er einnig raunin hjá Jóni.

Ástæðan fyrir kaldhæðni Jóns er að enginn viti í raun hvað gerist að kosningum loknum, útþynnt kosningaloforð séu birt „lýðnum“ sem ráði síðan engu um framhaldið, í samkomulagi flokka um ríkisstjórn verði til einhver stefna „sem jafnvel aldrei var rætt um fyrir kosningar“. Gengur Jón svo langt að segja „að lýðræðið þróist í einhvers konar einræði og ofríki hér á landi“.

Hann segir að stjórnarslitin á dögunum hafi fengið sig til að „hugleiða ástandið“. Það bendi til þess að þjóðin „þurfi að þola það að búa í einhvers konar ólýðræðislegu ofbeldissambandi við þingmenn og ráðherra“.

Screenshot-2024-11-09-at-10.39.17

Til að rökstyðja mál sitt tekur Jón Norðfjörð nokkur dæmi:

(1) Lokun sendiráðs Íslands í Moskvu og brottrekstur rússneska sendiherrans héðan. (2) Stuðningur við Úkraínumenn sem gert hafi þeim kleift að kaupa vopn. (3) Stöðvun hvalveiða. (4) Frumvarp um bókun 35 við EES-samninginn. (4) Opin landamæri.

Séu þessi mál brotin til mergjar sést að ekkert þeirra hefur neinn varanlegan skaða í för með sér, úr öllum þeim má bæta, ekkert þeirra gengur gegn lýðræðislegum stjórnarháttum.

Rússneski sendiherrann sem hér var sýndi Íslendingum, ríkisstjórn Íslands og utanríkisráðherra dónaskap og laug upp á þjóðina í rússneskum ríkisfjölmiðlum til að þóknast Pútin. Vestræn ríki hafa almennt lokað ræðisskrifstofum utan Moskvu. Norðmenn gerðu það meðal annars í Múrmansk af því að starfsfólk þar varð fyrir áreiti. Íslenska sendiráðið í Moskvu var verkefnalaust en starfsmenn þar urðu fyrir áreiti, meðal annars á götum úti. Í stað þess að senda öryggisverði héðan eins og önnur ríki hafa gert í þágu starfsmanna sinna í Moskvu var tekin sú skynsamlega ákvörðun að loka sendiráðinu. Lofar einhver flokkur að opna það að nýju að óbreyttu stríðsástandi?

Vilji menn skilyrða aðstoð við þjóð í neyð vegna innrásar verða þeir að segja hver skilyrðin eru. Íslendingar hafa lagt fé í sameiginlegan björgunarsjóð margra ríkja. Boðar einhver stjórnmálaflokkur nú stefnu um skilyrta Úkraínuaðstoð af Íslands hálfu?

Það liggur ekkert frumvarp fyrir frá utanríkisráðherra um bókun 35, hún hefur gilt hér í rúm 30 ár og brýtur ekki í bága við stjórnarskrána. Frumvarp ráðherrans er um breytingu á íslenskum lögum til að tryggja Íslendingum umsaminn rétt á EES-svæðinu. Er einhver flokkur á móti því að þessi réttur sé tryggður?

Nú liggur fyrir beiðni um heimild til hvalveiða. Að sjálfsögðu á hún að fá rétta meðferð í stjórnsýslunni.

Engin röksemd Jóns Norðfjörðs styður þá skoðun að hér ríki ekki lýðræði. Að láta vantrú á lýðræðislega stjórnarhætti ráða atkvæði sínu er óþarft.