Ísland en ekki Pólland sækir mál í Strassborg
Formaður Dómarafélagsins gefur til kynna að afstaða pólsku ríkisstjórnarinnar ráði mati dómara í máli Íslands fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu.
Kjartan Björgvinsson, héraðsdómari, formaður Dómarafélags Íslands, segir á FB-síðu sinni 6. desember:
„Óháð öllum skoðunum um Landsréttarmálið þá er stuðningur pólskra stjórnvalda í málinu verulegt áhyggjuefni. Pólskir dómarar hafa undanfarin ár sætt ofsóknum og skipulögðum rógsherferðum stjórnar PiS-flokksins sem vill afnema sjálfstæði dómstóla, beita kynbundnu misrétti og takmarka sjálfsögð grundvallarréttindi hinsegin fólks. Íslensk stjórnvöld eiga forðast slíkan félagsskap eins og heitan eldinn.“
Héraðsdómarinn segir þetta vegna frétta um að þrír aðilar nýttu sér heimild til að senda skriflega greinargerð til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sem býr sig undir að taka afstöðu til undirdeildar MDE í landsréttarmálinu. Ríkisstjórn Íslands skaut málinu til yfirdeildarinnar og verður það tekið fyrir 5. febrúar 2020.
Þeir sem nýttu sér að senda skriflega greinargerð til yfirdeildarinnar voru ríkisstjórn Póllands, The Helsinki Foundation for Human Rights, mannréttindasamtök í Varsjá, og umboðsmaður almennings í Georgíu. Pólsku mannréttindasamtökin og umboðsmaðurinn frá Georgíu styðja niðurstöðu undirdeildar MDE en ríkisstjórn Póllands vill að henni sé hnekkt.
Í Morgunblaðinu í dag (9. desember) segir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra af og frá að tengja Landsréttarmálið
við óeðlileg pólitísk afskipti framkvæmdavaldsins af skipan dómsvaldsins. Sú
afstaða ríkisstjórnarinnar komi skýrt fram í greinargerð dómsmálaráðuneytisins
til yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu. Þá eigi Landsréttarmálið ekkert
skylt við málsatvik í Póllandi, slík tenging sé langsótt.
Byggingin hýsir Mannréttindadómstól Evrópu í Strassborg.
Eftir að meirihluti undirdeildar MDE komst að óvæntri niðurstöðu sinni gegn íslenska ríkinu vöknuðu strax spurningar um hvort málið hefði í raun snúist um annað í huga meirihluta undirdeildarinnar en stöðu mála hér á landi. Meirihlutinn hefði viljað senda viðvörun til Póllands um hvað pólsk stjórnvöld ættu í vændum vegna ágreinings þar í landi um skipan dómara. Þetta var í aðdraganda þingkosninga í Póllandi og því betri jarðvegur en ella fyrir umræður um slík mál þar og mátti nota niðurstöðuna í Landsréttarmálinu sem röksemd gegn stefnu pólskra stjórnvalda.
Kosið var til þings í Póllandi 13. október 2019. Stjórnarflokkurinn Lög og réttlæti hélt meirihluta sínum í Sejm, neðri deild þingsins, en tapaði honum í öldungadeildinni. Flokkurinn fékk 44% atkvæða, hæsta hlutfall atkvæða sem nokkur flokkur hefur fengið síðan lýðræði komst á í Póllandi árið 1989. Kjörsókn var meiri en jafnan áður.
Pólverjar kjósa sér stjórnendur í lýðræðislegum kosningum og stjórn þeirra hefur fullan rétt til að setja sjónarmið sín fram gagnvart MDE í Strassborg. Að formaður Dómarafélags Íslands telji að skoðun pólsku ríkisstjórnarinnar móti afstöðu dómara í MDE í máli vegna Íslands rennir stoðum undir þá skoðun að meirihluti undirdeildar MDE hafi verið með Pólland í huga þegar hann dæmdi í landsréttarmálinu. Það er áhyggjuefni fyrir Íslendinga en ekki niðurstaða lýðræðislegra kosninga í Póllandi og afstaða stjórnvalda þar.