15.4.2018 10:12

Ísland á réttum stað

Þeir hafa sem betur fer rangt fyrir sér sem dettur í hug að ríkisstjórn Íslands skipi sér utan hóps þeirra sem vilja refsa þeim sem beita efnavopnum.

Fréttamaður ríkisútvarpsins vildi ítrekað fá svar við því hjá Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra í hádegisfréttum laugardaginn 14. apríl hvort hún styddi árásir Bandaríkjamanna, Breta og Frakka á efnavopnastöðvar í Sýrlandi aðfaranótt laugardagsins. Fyrst spurði hann hana sem formann VG. Katrín svaraði:

 „Við höfum alltaf talað fyrir friðsamlegum lausnum og gerum það enn þá. Það er bara í takti við stefnu íslenskra stjórnvalda um þessi mál.“

Þá segir á ruv.is:

„Þegar Katrín er enn spurð hvort hún styðji árásirnar, svarar hún: „Við höfum ekki lýst sérstökum stuðningi við þessar aðgerðir, ríkisstjórnin, en við höfum sagt að þær hafi verið viðbúnar.“

Ætlið þið að lýsa yfir stuðningi við þær?

„Það sem gerist næst í þessum málum er að ég vænti þess að það verði fundað í NATO í dag en afstaða íslenskra stjórnvalda liggur algjörlega fyrir í þessum málum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.“

Hvergi hefur verið vikið að því að leitað hafi verið samþykkis ríkisstjórnar Íslands áður en þessi árás var gerð eins og árið 2011 þegar gerð var loftárás á Líbíu undir merkjum NATO.

Eins og forsætisráðherra sagði var efnt til fundar hjá NATO í Brussel síðdegis laugardaginn 14. apríl. Á fundinum var gefin skýrsla um árásirnar og einnig lögð fram ítarleg skýrsla Frakka um efnavopn í Sýrlandi. Að fengnum þessum upplýsingum tóku fulltrúar ríkjanna afstöðu til málsins og síðan var gefin út fréttatilkynning þar sem sagði meðal annars:

„Bandalagsríkin létu í ljós fullan stuðning við þessa aðgerð sem ætlað er að draga úr getu Sýrlandsstjórnar til að beita efnavopnum og til að koma í veg fyrir frekari efnavopnaárásir gegn íbúum Sýrlands. Það má ekki vera unnt að beita efnavopnum refsilaust eða að talið verði eðlilegt að beita þeim. Þau valda sýrlensku þjóðinni yfirvofandi hættu og einnig sameiginlegu öryggi okkar.“

Þarna var sem sagt tekin upplýst afstaða og hún kynnt. Þeir hafa sem betur fer rangt fyrir sér sem dettur í hug að ríkisstjórn Íslands skipi sér utan hóps þeirra sem vilja refsa þeim sem beita efnavopnum. Sætti einhverjir sig átölulaust við framferði Sýrlandsstjórnar ræðst afstaðan af öðru en heill fólksins sem á allt í húfi gagnvart glæpamönnunum sem grípa til efnavopna til að drepa sem flesta.

Frá fundi í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna.

Málið var einnig rætt í öryggisráði SÞ í dag að frumkvæði Rússa sem vildu fá samþykkta fordæmingu á Bandaríkin, Bretland og Frakkland. Tillagan kolféll aðeins þrú ríki af 15 studdu hana: Rússland, Bolivía og Kína. Vilja einhverjir íslenskir stjórnmálamenn eða aðrir að ríkisstjórn Íslands skipi sér í hóp með þessum ríkjum?