19.11.2023 18:55

Isavia lyftir íslenskunni – Skírnisgrein um hæstaréttarsögu

Það var ánægjulegt að sjá sýnileg merki um áhrif ákvörðunar stjórnar Isavia við komuna í Flugstöð Leifs Eirikssonar í dag.

Heimflugið frá Brussel með Icelandair var á áætlun, vélin var þéttsetin og á Keflavíkurflugvelli var múgur og margmenni. Komusalurinn hefur stækkað til mikilla muna og áður en gengið er inn í hana eru stór hvít spjöld með stórum svörtum stöfum þar sem ferðamenn eru boðnir velkomnir, á íslensku efst og neðar á ensku.

L1300226Úr Flugstöð Leifs Eirikssonar (vefsiíða Isavia.is).

Degi íslenskrar tungu, 16. nóvember 2023, var fagnað af Isavia á Keflavíkurflugvelli með því að hleypa af stokkunum átakinu Höldum íslenskunni á lofti. Íslenskan á að verða sýnilegri og mikilvægur þáttur í upplifun gesta flugvallarins. Stjórn Isavia hefur ákveðið að íslenskan verði á undan öðrum tungumálum á öllum leiðbeiningarskiltum fyrir árslok 2024.

Kristján Þór Júlíusson, fyrrv. ráðherra, er nú stjórnarformaður Isavia. Hann segir réttilega á vefsíðu félagsins að íslenskan sé eitt af því sem veki áhuga annarra þjóða á Íslandi, hvort sem það séu bókmenntirnar okkar, tónlistin eða örnefni „sem enginn getur borið fram nema við“.

Það var ánægjulegt að sjá sýnileg merki um áhrif ákvörðunar stjórnar Isavia við komuna í Flugstöð Leifs Eirikssonar í dag.

Grein í Skírni


Nýtt hefti af Skírni, tímariti Hins íslenska bókmenntafélags, sem komið hefur út í 197 ár, beið mín við heimkomuna. Þar á ég greinina: Hæstiréttur í 100 ár – vísindalegar kröfur.

Hæstiréttur og Hið íslenska bókmenntafélag stóðu að útgáfu bókarinnar Hæstiréttur í hundrað ár – Saga eftir Arnþór Gunnarsson sagnfræðing árið 2021.

Undir lok greinar minnar í Skírni segir:

„Í stað þess að kanna heimildir og kynna sér skoðanir mínar telur höfundur sögu hæstaréttar að fyrir mér hafi vakað að tryggja framkvæmdavaldinu „meiri ítök í íslensku dómsvaldi en dæmi voru um síðan einveldi leið undir lok“ (bls. 397). Hvorki meira né minna!“

Einveldi Danakonungs á Íslandi stóð frá þeim tíma þegar Íslendingar undirrituðu erfðahyllinguna á Kópavogsfundinum 1662 þar til það var formlega afnumið með svonefndum stöðulögum árið 1871. Danska þingið setti stöðulögin einhliða.

Þegar ég benti á haldleysi þessarar lýsingar á hlut mínum í Morgunblaðinu bætti höfundur sögunnar um betur og sagði í grein í Morgunblaðinu 15. mars 2022 að ég hefði undirbúið „lagafrumvarp sem hefði skert sjálfstæði æðsta dómsvaldsins til muna ef það hefði orðið að lögum.“

Að þetta hafi einhvern tíma vakað fyrir mér er alrangt. Til að halda því til haga fékk ég þessa grein birta í hausthefti Skírnis 2023 sem nú hefur séð dagsins ljós undir ritstjórn Sigrúnar Margrétar Guðmundsdóttur. Í kynningu sinni á efni heftisins bendir Sigrún Margrét á að í grein minni ræði ég einnig það sem í hæstaréttarsögunni segir um val mitt á Ólafi Berki Þorvaldssyni í embætti hæstaréttardómara. Nú eru rétt 20 ár síðan sú ákvörðun mín varð mikið hitamál. Hefur Ólafur Börkur átt farsælan feril í hæstarétti síðan.