Innrás í Ísrael
Ísraelar verða ekki sakaðir um að hafa kveikt þetta ófriðarbál. Um er að ræða einhliða innrás Hamas-hryðjuverkamanna.
Ísraelsk stjórnvöld segja að Hamas-hryðjuverkamenn á Gaza-svæðinu hafi skotið um 2.500 flugskeytum á Ísrael aðfaranótt laugardagsins 7. október. Hamas-liðar segja sjálfir að flaugarnar hafi verið um 7.000 og þeir sendu menn sína á landi, sjó og í lofti inn í suðurhluta Ísraels til að valda eins miklu tjóni á mönnum og mannvirkjum og verða mátti. Árásarmennirnir voru gangandi, á vélhjólum, bílum, svifdrekum og á bátum.
Ísraelar verða ekki sakaðir um að hafa kveikt þetta ófriðarbál. Um er að ræða einhliða innrás sem af fréttum að dæma kom meira að segja Mossad, öflugri leyniþjónustu Ísraels, í opna skjöldu.
Óvinir Ísraels, hér og annars staðar, skella skuldinni að sjálfsögðu á Ísraela, innrásin sé réttlætanleg vegna 75 ára kúgunar og hernáms Ísraela á landsvæðum Palestínumanna sem verði að sætta sig við aðskilnaðarstefnu ísraelskra stjórnvalda. Áratugum saman hafa þúsundir starfsmanna Sameinuðu þjóðanna og annarra sinnt flóttamannaaðstoð við Palestínumenn sem á ríkan þátt í að viðhalda spennu fyrir botni Miðjarðarhafs.
Í Bandaríkjunum líkja vinir Ísraela þessari innrás við hryðjuverkaárás al-Kaída á Bandaríkin 11. september 2001 og benda á hve gífurlegar afleiðingar árásin hafði á gang heimsmála, ekki síst við Persaflóa og í Afganistan.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í ávarpi til þjóðar sinnar laugardaginn 7. október að árás Hamas væri upphaf á langvinnu hörðu stríði. Ísraelski herinn grípi nú til allra ráða til að svipta Hamas öllum mætti.
„Við ætlum að murka úr þeim lífið, við munum hefna þessa dimma dags á eftirminnilegan hátt,“ sagði forsætisráðherrann. „Hamas hefur hafið þetta ófyrirleitna stríð. Við munum sigra en það verður dýrkeypt.“
Að kvöldi laugardagsins 7. október komu stuðningsmenn Ísraela saman við Brandenborgarhliðið í Berlín.
Hamas hafa farið með öll völd á Gaza-svæðinu síðan 2007 en þar búa 2,3 milljónir manna á 41 km löngu 10 km breiðu landi á milli Ísraels, Egyptalands og Miðjarðarhafs.
Þetta er mesta stríðsaðgerð sem Hamas hefur nokkru sinni hafið frá Gaza og áratugum saman hafa Ísraelar ekki staðið frammi fyrir neinu sambærilegu. Árásin hófst fáeinum dögum eftir að 50 ár voru liðin frá því að Egyptar og Sýrlendingar réðust öllum að óvörum inn í Ísrael árið 1973 og meiriháttar stríðsátök hófust í Mið-Austurlöndum.
Nú er spurt hvað Palestínumenn á vesturbakka Jórdanár og í Austur-Jerúsalem, á hernumdu svæðunum svonefndu, gera. Grípa þeir einnig til vopna gegn Ísraelum? Fyrir norðan Ísrael, í Líbanon, hafa stríðsmenn öfgasamtakanna Hezbollah, skjólstæðingar Írana, öll ráð í hendi sér. Ráðast þeir inn í Ísrael? Þeir skutu á völd skotmörk að morgni sunnudagsins 8. október. Líkt og Íranir og Hamas hafa Hezbollah-menn heitið því að gjöreyða Ísraelsríki.
Ísraelsstjórn hefur undanfarin misseri náð pólitískum tengslum við ráðamenn í Sádí-Arabíu og annars staðar við Persaflóa og þannig ögrað Írönum sem jafnframt hafa brotið ís í samskiptum við ráðamenn Sádí-Arabíu.
Þráðurinn að púðurtunnu logar. Tekst að kæfa neistann í tæka tíð?