Innihaldslaus andstaða
Tveggja daga umræður á alþingi í vikunni að ósk Miðflokksins hafa ekki leitt neitt nýtt í ljós annað en innihaldsleysi andstöðunnar gegn þriðja orkupakkanum.
Magnús Lyngdal Magnússon skrifaði á Facebook í gær:
„Einhver góðhjartaður vinur minn hér á Facebook bætti mér í hópinn Orkan okkar. Eftir því sem ég sé fleiri stöðuuppfærslur þar og skrolla stuttlega yfir umræður í hópnum staðfestist ég sífellt betur í trúnni að orkupakkinn sé hið eðlilegasta mál að samþykkja. Sjálfsagt var það ekki tilgangurinn þegar mér var bætt í hópinn en andstaðan þar inni við EES og samsæriskenningarnar (nú síðast um meint vanhæfi utanríkisráðherra) eru ævintýralegar.“
Þeir sem ekki vita skulu upplýstir um að Orkan okkar er hópur fólks sem tók sig saman í því skyni að berjast gegn innleiðingu þriðja orkupakkans hér á landi. Í Morgunblaðinu í dag (30. ágúst) birtast sýnishorn af því hve langsóttur málflutningur þessa fólks er. Þar er til dæmis í tveimur greinum leiðtoga andstöðunnar við þriðja orkupakkann leitað stoðar í því að framkvæmdastjórn ESB hefur stefnt ríkisstjórn Belgíu fyrir ESB-dómstólinn vegna þess að hún innleiddi þriðja orkupakkann ekki rétt.
Bjarni Jónsson, rafmagnsverkfræðingur og hugmyndafræðingur Orkunnar okkar, gefur sér að framkvæmdastjórn ESB vinni mál gegn Belgum fyrir ESB-dómstólnum. Tilkynnt var um málshöfðunina 25. júlí 2019 og allt óvíst um frekari framgang málsins og því síður niðurstöðu dómstólsins. Af grein Bjarna má hins vegar að ráða ESA og EFTA-dómstóllinn feti í fótspor ESB-dómstólsins „í sams konar kærumáli gegn Íslandi“.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir hins vegar í grein sinni: „Íslensk stjórnvöld ætla að komast hjá svona málaferlum með því að ganga lengra í innleiðingu 3. orkupakkans en Belgar. Ætlunin er að uppfylla allar kröfur ESB. Þ.e. við ætlum að leyfa yfirráð ólýðræðislegra stofnana yfir framkvæmdum í orkumálum og tengingum yfir landamæri.“
Í greinum sínum túlka Bjarni og Sigmundur Davíð áhrif málskots framkvæmdastjórnar ESB gegn Belgum á gjörólíkan hátt.
Orkuna okkar hefur ekki skort fé til áróðurs af hvers kyns tagi. Árangurinn er þó ekki í samræmi við erfiðið og kostnaðinn vegna þess að æ fleirum er ljóst að neikvæður málstaðurinn er reistur á veikum grunni og stöðugt molnar úr honum.
Hvað framkvæmdastjórn ESB gerir gagnvart Belgum skiptir okkur í raun engu. Málatilbúnaðurinn áréttar hins vegar mikilvægi sjálfstæðs eftirlitsaðila með því að farið sé að samkeppnisreglum á orkumarkaðnum og þar sé ekki um pólitískar íhlutanir að ræða. Bjarni og Sigmundur Davíð virðast sammála um að fyrir hendi skuli vera glufa í lögum svo að stjórnmálamenn geti ráðskast með orkuverð.
Þá gefur Sigmundur Davíð sér að Íslendingar selji orku yfir landamæri. „Ólýðræðislegu stofnanirnar“ sem hann nefnir til sögunnar, komi til þess, eru Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) og EFTA-dómstóllinn. Hann vegur þar með að EES-samningnum sem hvílir á tveggja stoða kerfi, þar sem ESA og EFTA-dómstóllinn mynda EFTA-stoðina.
Í fyrri viku birti Sigmundur Davíð grein í breska vikuritinu The Spectator þar sem hann hvatti Breta til tímabundinnar EES/EFTA-aðildar einmitt vegna tveggja stoða kerfisins. Er þetta ekki í fyrsta sinn sem hann er tví- eða margsaga vegna orkupakkans.
Tveggja daga umræður á alþingi í vikunni að ósk Miðflokksins hafa ekki leitt neitt nýtt í ljós annað en innihaldsleysi andstöðunnar gegn þriðja orkupakkanum. Þegar hugmyndafræðingarnir Bjarni Jónsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafa ekki annað til málanna að leggja á lokametrunum en rakalausar útleggingar á máli framkvæmdastjórnar ESB gegn Belgum er fokið í öll skjól.