25.1.2024 11:02

Innfluttur ófriður

Þessi gestrisni hefur ekki valdið háværum ágreiningi hér fyrr en nú. Ástæðan fyrir spennunni núna er einföld: Palestínuvinir á Íslandi ganga fram af fólki. 

Myndin sem birtist með þessum pistli í dag er úr Morgunblaðinu í morgun. Hún er hún til marks um virðingarleysið sem íslenska fánanum er sýnt af þeim sem tjaldað hafa á Austurvelli frá 27. desember þar til í gær, 24. janúar. Tjaldbúðirnar voru reistar til stuðnings Palestínumönnum sem vilja að íslenska ríkið nái í skyldmenni þeirra á Gaza-ströndinni. Þar hefur verið barist í 100 daga frá því að Ísraelar hótuðu að gera út af við Hamas-hryðjuverkasamtökin vegna hryllingsverka þeirra í Ísrael 7. október 2023.

Screenshot-2024-01-25-at-08.46.40

Óhugnanlegt er að helstu átökin eru í kringum sjúkrahús á Gaza vegna þess að þar hafa hryðjuverkamennirnir sett um stjórnstöðvar sínar. Ástandinu sem skapast hefur verður ekki með orðum lýst og því miður er friður ekki í sjónmáli.

Þættir sem sjónvarpsstöðin CNN hefur látið gera um átökin um Jerúsalem í aldanna rás sýna að undirrót átakanna sem sagt er frá daglega í fréttum núna er mun dýpri en rekja má til stofnunar Ísraelsríkis undir lok fimmta áratugar síðustu aldar. Í sögunni um Ríkharð ljónshjarta og aðra krossfara má leita fyrirmynda að því sem nú gerist.

Með Ísraelsríki hófst nýr kafli í sögunni. Hún geymir mörg dæmi um miklu fjölmennari nauðungarflutninga fólks til að rýma fyrir nýjum íbúum heldur en þá gerðist. Fyrir botni Miðjarðarhafs dreifðust hinir brottfluttu ekki eða settust að í nágrannalöndum heldur var með samþykktum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna komið á fót palestínsku flóttamannaríki sem hefur síðan þróast við hlið Ísraelríkis og orðið eins konar hjálenda þess. Ísraelar eru sakaðir um að koma fram sem herraþjóð.

Vonir hafa verið bundnar við formlega og umsamda tveggja ríkja lausn. Stofnuðu til dæmis Íslendingar og Svíar til stjórnmálasambands við þá sem fara með vald á svæðum Palestínumanna til að árétta vilja sinn um tvö ríki. Að sá draumur rætist verður fjarlægari með hverjum degi sem nú líður.

Sagan er ekki afsökun fyrir ódæðisverkum en hún skýrir það sem að baki býr. Aldagömul heift dreifist nú út fyrir átakasvæðið milli Ísraela og Hamas-liða með flótta- og farandfólki frá Palestínu eins og við sjáum hér. Íslensk lög og stjórnvöld hafa skapað þessu fólki meira svigrúm en það nýtur til dæmis annars staðar á Norðurlöndunum enda er sókn þess meiri hingað en til þeirra landa. 

Þessi gestrisni hefur ekki valdið háværum ágreiningi hér fyrr en nú. Ástæðan fyrir spennunni núna er einföld: Palestínuvinir á Íslandi ganga fram af fólki. Stjórnendur opinberra funda í Háskóla Íslands hafa liðið þeim að eyðileggja mannamót þar með yfirgangi. Meirihluti borgarstjórnar Reykjavíkur heimilaði að Austurvelli yrði breytt í tjaldsvæði þar sem íslenski fáninn liggur eins og hvert annað drasl.

Ofstæki hér gegn Ísraelum stuðlar ekki að friði eða frelsi Palestínumanna. Lýðræðisleg stjórnvöld í Ísrael sæta þrýstingi frá sínu heimafólki og verða að taka tillit til þess. Hamas-stjórn á Gaza þolir enga andstöðu. Engum dettur í hug að snúa sér til hennar með ósk um mannúð. Þess í stað er öskrað á íslenska ráðamenn á Austurvelli. Ófriður er fluttur til Íslands í stað þess að vinna að friði þar sem barist er.