Illkvittinn orðrómur
Orðin að „flengja uppreisnarmenn“ þegar rætt er um embættismenn og „uppræting“ á kúltur eru beint frá menningarbyltingunni í Kína.
Á vefsíðunni mannlif.is er dálkur sem heitir Orðrómur. Með því að birta efni í þeim dálki slær Reynir Traustason tvöfaldan varnagla. Annars vegar þann að ekki sé endilega allt satt sem sagt er og hins vegar að þurfa ekki sjálfur að kannast við réttmæti þess sem birtist, með því að dreifa orðrómi firrir maður sig því að vera upphaflegi höfundurinn.
Reynir birti 31. mars Orðróm undir eigin nafni. Þar stóð:
„Fullyrt er að starfsandi og vinnukúltúr í hinu forna ráðuneyti menntamála hafi um árabil verið með eindæmum slæmur. Þannig hafi menntamálaráðherrar hvers tíma átt í hinum mesta vanda við að hemja villiketti embættismannakerfisins sem fóru sínar eigin leiðir, þegar þeim sýndist og létu ekki að stjórn hinna kjörnu fulltrúa. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra mun hafa glímt við þessi mál ekki síður en forverar hennar.
Þegar ný ríkisstjórn tók við var gripið til þess að stokka ráðuneytið upp og færa hluta þess undir aðra ráðherra. Þar með tókst Lilju að flengja uppreisnarmennina og uppræta þann kúltúr sem svifið hafði yfir vötnum og virkja starfsfólk sitt til góðra verka. Embættismenn í áhrifastöðum hafa ýmist verið færðir til eða endurhæfðir …“
Að vísu eru 20 ár frá því að ég kvaddi menntamálaráðuneytið. Á þeim sjö árum sem ég starfaði þar kynntist ég alls ekki þeim „starfsanda og vinnukúltur“ sem þarna er í lýst. Er illskiljanlegt til hvers orðrómi í þessa veru er dreift. Sé það svo að við stjórnarmyndunina 28. nóvember 2021 hafi verið ákveðið að brjóta menntamálaráðuneytið upp í marga parta til að Lilja D. Alfreðsdóttir næði vopnum sínum gagnvart embættismönnum í ráðuneytinu stangast það allt á við yfirlýst markmið Katrínar Jakobsdóttur sem ber ábyrgð á lokaákvörðuninni sem um þetta var tekin og síðan hrundið í framkvæmd með ályktunartillögu sem forsætisráðherra lagði fram á þingi.
Hér hefur menntamálaráðuneytið verið til húsa í nokkra áratugi (af vefsíðu stjónarráðsins).
Í opinberum umræðum um þá tillögu eða breytingarnar á stjórnarráðinu var aldrei minnst einu orði á einskonar menningarbyltingu í stjórnarráðinu að fordæmi frá Maó formanni þar sem embættismenn voru niðurlægðir og sendir út í sveitir til endurhæfingar.
Orðin að „flengja uppreisnarmenn“ þegar rætt er um embættismenn og „uppræting“ á kúltur eru beint frá menningarbyltingunni í Kína. Má ætla af orðum Reynis að slík bylting haf verið gerð að frumkvæði Lilju D. Alfreðsdóttur og nú svífi allur annar og betri andi yfir vötnunum.
Sé orðrómurinn réttur skuldar forsætisráðherra þjóðinni skýringar. Það er ekkert smámál að ráðast í þá kostnaðarsömu uppstokkun á ráðuneytunum sem enn er ekki að fullu lokið. Þar geta ekki duttlungar eins ráðherra hafa ráðið eins og Reynir gefur til kynna. Sé orðrómurinn rangur skuldar forsætisráðherra þeim embættismönnum sem sótt var að af þessum sökum skýringar.
Einhverjir embættismenn ákváðu vegna uppstokkunarinnar að nýta rétt til eftirlauna í stað nýs starfsumhverfis, að kveðja það fólk á þennan kuldalega og drambsama hátt er alls ekki við hæfi.
Þessi orðrómur einkennist af illvilja og rætni sem er ómakleg.