9.5.2023 10:37

Illindi innan MÍR

Kaldar eru kveðjurnar til þessara forvera hans í forystu MÍR og ekki farið um þá silkihönskum.

Þegar Sovétríkin (Ráðstjórnarríkin) urðu að engu fyrir rúmum 30 árum og við blasti hugmyndafræðilegt skipbrot marxista var ákvörðun tekin um það á Morgunblaðinu að fara mildum höndum um þá sem hæst höfðu talað um Moggalygina í kalda stríðinu. Var talið að þeir sem trúðu á Sovétríkin og alræðisstjórn Kremlverja í nafni kommúnisma og sósíalisma ættu um nógu sárt að binda, óþarft væri að strá salti í sárin.

Engan grunaði þá á ritstjórn blaðsins að 32 árum síðar birtust þar fréttir um óvandaðan eftirleik í háborg Sovétvina á Íslandi, MÍR, Menningartengslum Íslands og Ráðstjórnarríkjanna (nú: Menningartengslum Íslands og Rússlands).

5e8a501b-21c7-4946-8bca-d114155a7ee0

Í frétt blaðsins laugardaginn 6. maí sagði frá því að þrír félagar í MÍR, formaður félagsins í rúm 40 ár til ársins 2016, Ívar H. Jónsson, kona hans, Ragnhildur Rósa Þórarinsdóttir, og listakonan Kjuregej Alexandra Argunova hefðu höfðað mál gegn MÍR og krafist þess að ákvarðanir aðalfundar félagsins 26. júní 2022 verði dæmdar ógildar. Aðalfundarmenn ákváðu að hætta rekstri MÍR, afhenda allar eignir félagsins sjálfseignarstofnunni Menningarsjóðnum MÍR , selja húsnæði félagsins að Hverfisgötu 105 og nota söluandvirðið sem stofnfé menningarsjóðsins. Jafnframt mun félagið kaupa minna og hentugra húsnæði fyrir eignir félagsins og starfsemi.

Í stefnunni til ógildingar aðalfundinum segir að enginn félagsmaður fyrir utan stjórnarmenn hafi verið boðaður til hans, hafi stjórnin þannig brotið „á réttindum félagsmanna með vítaverðum hætti“.

Í samtali við Morgunblaðið í dag (9. maí) segist Einar Bragason, núverandi formaður MÍR, hvorki óttast stefnuna né væntanlegan dóm. Löglega hafi verið staðið að aðalfundinum og ákvörðunum þar. Einar segir:

„Við erum bjartsýn á að vinna þetta mál. Ég hef ekki miklar áhyggjur af þessu. Það vakna stundum draugar úr fortíðinni eða hrynja beinagrindur úr skápnum. Þá tekst maður bara á við það.“

Kaldar eru kveðjurnar til þessara forvera hans í forystu MÍR og ekki farið um þá silkihönskum.

Einar sagði frá því í samtali við Vísi 1. maí að Anton Vasiliev, þáverandi sendiherra Rússa, hefði slitið öllum samskiptum við MÍR árið 2020 í tengslum við hátíðarhöld vegna 75 ára afmælis loka síðari heimsstyrjaldarinnar. Vildi sendiherrann að í MÍR-salnum yrði sovéskur fáni „sem liðsmenn Rauða hersins drógu að húni á þýska þinghúsinu í Berlín þegar þeir náðu borginni á sitt vald árið 1945“ segir í Vísi. MÍR skyldi kosta öryggisgæslu vegna fánans. Þegar stjórn MÍR hafnaði því sleit sendiherrann stjórnmálasambandi við MÍR að sögn Einars. Núverandi sendiherra hafi árangurslaust reynt að endurvekja það.

Einar segir í Vísi að MÍR muni starfa áfram: „Því við ætlum nú ekki að fara að skilja við rússneska menningu þó að það séu snargeðveikir menn við stjórn þarna núna. Stjórnmál eru annað en menning.“

Þegar harðstjórn Stalíns var sem mest var MÍR einmitt stofnað í því skyni að réttlæta stjórnarhætti hans með því að hampa rússneskri menningu. Íslenskir andans menn sáu þá ekki ástæðu til að draga skil milli menningar og stjórnmála.