19.7.2020 12:01

Icelandair í 36 tíma ókyrrð

Það er spurning hvert verkalýðshreyfingin er komin þegar forráðamenn ASÍ hafa ráð Láru V. Júlíusdóttur um vinnuréttarmál og Hrafns Magnússonar um lífeyrismál að engu.

Veður skipuðust skjótt í lofti í kjaradeilu Icelandair og Flugfreyjufélags Íslands á 36 klukkustundum frá kl.14.00 föstudag 17. júlí til kl. 02.00 aðfaranótt sunnudags 19. júlí.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, tilkynnti föstudaginn 17. júlí uppsögn allra félagsmanna flugfreyjufélagsins þar sem ekki yrði unnt að bjarga Icelandair í óvissu um kjarasamning sem flugfreyjufélagið hafði fellt. Síðdegis laugardaginn 18. júlí bárust fréttir um að Aðalsteinn Leifsson ríkissáttasemjari hefði boðað aðila deilunnar á sinn fund. Um klukkan tvö aðfaranót sunnudags var ritað undir nýjan kjarasamning. Hann verður nú borinn undir atkvæði.

1219324Bogi Nils Bogason (mynd mbl.is Arnþór Birkisson).

Ríkisstjórnin hélt sér til hlés á opinberum vettvangi vegna þessara sviptinga. Stjórnarandstaðan lét þeim mun meira til sín heyra eins og hér verður rakið með hennar eigin orðum. Þá fóru öfgamenn innan verkalýðshreyfingarinnar einnig hamförum.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, reið á vaðið með stóryrðum á mbl.is föstudaginn 17. júlí:

„Mér finnst þetta bara alger lágkúra. Nú verða stjórnvöld að senda skýr skilaboð um að svona gerir maður ekki. Maður sér bara fyrir sér afleiðingarnar ef stjórnvöld bregðast ekki við með neinum hætti. Hvað verður þá um kjaraviðræður til framtíðar, þegar svona stórt félag hefur svona lítinn móralskan sans. [...]

Við hljótum öll að bíða eftir að það komi útspil frá ríkisstjórninni vegna þessa. Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafa meira og minna miðað að þessu félagi og það er eðlilegt að gerð sé krafa um að það hegði sér ekki svona. [...]

Það er brúkað í sumum ríkjum að semja við erlendar starfsmannaleigur sem leigja út svona flugfreyjur og -þjóna, en viljum við að þetta sé þannig með okkar stóra flugfélag, sem hefur verið að fá ofboðslegan stuðning á síðustu mánuðum? Það getur ekki bara tekið ákvörðun um að knésetja heilt stéttarfélag.“

Helgu Völu finnst ekkert annað koma til greina en ríkisvaldið beiti fjárhagslegum þvingunum gegn Icelandair til að knýja stjórnendur félagsins til að fara að kröfum flugfreyja.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði:

„Við Íslendingar höfum verið gæfusöm að hér hafa öflug stéttarfélög, með mikilli almennri þátttöku, skipt miklu máli í því að skapa heilbrigðara vinnuumhverfi og jafnari lífskjör en víðast þekkist. Þó vissulega verði að gera mun betur er það okkur öllum í hag að standa vörð um þessi félög og leyfa ekki einstökum stórfyrirtækjum að brjóta þetta kerfi niður. Ég mótmæli því harðlega nýjasta útspili Icelandair og lýsi yfir fullum stuðningi við flugfreyjur og verkalýðshreyfinguna – það ættum við öll að gera.“

Í þessum orðum felst einnig að beita eigi ríkisvaldinu til að knýja stjórnendur Icelandair til að verða við kröfum flugfreyja.

Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrum forsætisráðherra, formaður Samfylkingarinnar og flugfreyja sagði á Facebook:

„Grimmileg aðför Icelandair að Flugfreyjufélagi Íslands er óskiljanlegur afleikur og mistök. Halda forsvarsmenn félagsins virkilega að það sé leiðin út úr vandanum að knésetja flugfreyjur/flugþjóna og stinga þau í bakið? Trúa þeir því í raun og veru að þetta sé leiðin að liðsinni lífeyrissjóðanna og stjórnvalda? Hvílík heimska. Með því að sniðganga Flugfreyjufélag Íslands er verið að færa verkalýðsbaráttuna meira en öld aftur í tímann þar sem launafólk, ekki síst konur, var beitt kúgun, ofbeldi og hótunum af atvinnurekendum. Hvaða fordæmi er verið að skapa með svona ógnarstjórnun? Að atvinnurekendur geti bara leitað á önnur mið ef launþegar lúta ekki vilja þeirra? Þá sé leiðin bara að lama verkalýðshreyfinguna og stuðla að annars konar stéttabaráttu þar sem leikreglur atvinnurekenda ráða för? Við þessar aðstæður getur ríkisstjórnin ekki setið hjá aðgerðalaus. Hún hefur þá skyldu að forða gífurlegum átökum á vinnumarkaði sem enginn sér fyrir endann á.“

Þessi reiðilestur er einnig reistur á því meginsjónarmiði að beita eigi skattfé almennings og eignum hans í lífeyrissjóðunum til að brjóta á bak aftur ákvarðanir sem stjórnendur Icelandair tóku.

Lára V. Júlíusdóttir, lögfræðingur, sérfróð um vinnurétt, sagði að ákvarðanir Icelandair vegna uppsagnanna hefðu verið í samræmi við lög. Þá sagði sósíalistinn Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar-stéttarfélags á Facebook:

„Einn truflaðasti meðlimur reykvískrar borgarastéttar [Lára V. Júlíusdóttir] talar úr hliðarveruleika hinna auðugu. Ömurlegt þvaður í ruglaðri manneskju.

„Þá sér hún ekki fyrir sér að hugsanleg samúðarverkföll yrðu almennt liðin í því ástandi sem nú sé uppi.““

Í þessum orðum felst ótti Sólveigar Önnu við að henni kunni ekki að takast að boða til samúðarverkfalls með flugfreyjum á þeirri forsendu að lög hafi verið brotin á þeim.

Gunnar Smári Egilsson, hugmyndafræðingur og leiðtogi sósíalista, ræðir um auðvaldið og illvirki þess á Facebook og segir:

„Þetta vita allir, nema kannski þau sem fjalla um stjórnmál og efnahagsmál á Íslandi. Þar er látið sem fólk sem vill að lífeyrissjóðir beri virðingu fyrir launafólki sé öfgafullt jaðarfólk. Hið rétta er að Sjálfstæðisflokks- og nýfrjálshyggjubullurnar í stjórn Icelandair, fjármálaeftirlitinu, fjármálaráðuneytinu og í fjölmiðlum er öfgafullt jaðarfólk, alt-right sértrúarsöfnuður sem tilbúinn er að fórna náttúru, samfélagi og mannfélagi ef það leiðir til þess að einhver skíthællinn nær að græða á því.“

Píratinn Þórhildur Sunna Ævarsdóttir alþingismaður sagði:

„Framkoma Icelandair gagnvart starfsfólki sínu er svívirðileg og á ekki að líðast á íslenskum vinnumarkaði. Ég tek heils hugar undir með Drífu Snædal sem segir m.a.:

„Icelandair getur ekki búist við því að njóta áfram þeirrar velvildar sem félagið hefur notið í íslensku samfélagi,“ segir hún.“

Ætlar ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að horfa upp á viðlíka djöfulsins níðingsskap aðgerðarlaus?“

Píratinn vitnaði til Drífu Snædal, forseta ASÍ, sem sagði við mbl.is föstudaginn 17. júlí:

„Þeir eru að sýna starfsfólki sínu fullkomna lítilsvirðingu og þetta verður ekki látið viðgangast. Það er verið að leita allra leiða til að bregðast harkalega við þessu.[...]

Við munum gera kröfu um það að lífeyrissjóðir starfsfólks á Íslandi verði ekki notaðir til þess að fara í hlutafjárútboð og taka þátt í því gegn hagsmunum vinnandi fólks ef Icelandair ætlar að haga sér svona. Við munum að sjálfsögðu líka gera þá kröfu að stjórnvöld séu ekki að greiða út úr okkar sameiginlegu sjóðum til Icelandair – til fyrirtækis sem kemur svona fram við starfsfólk.“

Þarna kemur fram sama sjónarmið og hjá Samfylkingunni nota skuli skattfé almennings og eignir fólks í lífeyrissjóðum til að beita stjórnendur Icelandair fjárhagslegum þvingunum í þágu flugfreyjufélagsins.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, var á sömu línu þegar hann sagði:

„Stjórnendur Icelandair starfa óáreittir í skjóli lífeyrissjóðanna sem fara með almannafé og við það getum við ekki unað lengur.

Að því sögðu skora ég á lífeyrissjóðina að krefjast hluthafafundar, tafarlaust, og gera nauðsynlegar breytingar á stjórn félagsins svo einhver raunverulegur möguleiki sé á að bjarga félaginu svo sátt ríki þar um.

Ég vil að lokum nota tækifærið og þakka forstjóra Icelandair fyrir að sameina verkalýðshreyfinguna í eina kraftmikla heild sem sækir nú fram sameinuð og aldrei sterkari.“

Guðmundur Þ. Guðmundsson landsliðsþjálfari lýsti á Facebook stuðningi við ákvarðanir stjórnenda Icelandair. Ragnar Þór Ingólfsson ritaði Guðmundi Þ. opið bréf vegna þessa þar sem sagði meðal annars:

„Þessi staða er miklu stærri og alvarlegri en Icelandair þó hún raungerist þar og hún er dauðans alvara. Félagsleg undirboð kosta mannslíf.

Við stöndum á tímamótum Guðmundur, tímamótum þar sem verkalýðshreyfingin verður að standa í lappirnar. Við getum ekki og munum ekki standa á hliðarlínunni eða sem áhorfendur eins gert var í síðasta hruni.

Við gerum kröfu um að endurreisnin fari fram með nýrri stjórn og þjálfarateymi, sem hlýtur að vera eðlileg krafa.“

Þarna er talað um baráttu upp á líf og dauða í orðsins fyllstu merkingu, hvorki meira né minna. Hingað til hefur Ragnar Þór látið sér nægja að setja verkalýðsbaráttu sína í pólitískt samhengi og meðal annars boðað að hann ætli að stofna nýjan flokk fyrir næstu alþingiskosningar. Nú stígur hann skrefi lengra.

Vilhjálmur Birgisson, verkalýðsfrömuður á Akranesi, sagði:

„Minni á að lífeyrissjóðir launafólks eiga yfir 50% í Icelandair og ég trúi ekki að meirihlutaeigandi fyrirtækisins sem eru lífeyrissjóðirnir láti þessa aðför að samningsfrelsi launafólks átölulaust!“

Halla Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri ASÍ, sagði á Facebook um svipað leyti og Aðalsteinn Leifsson boðaði stjórnendur Icelandair og forystumenn flugfreyja til sáttafundar:

„Það sem er hræðilegast við aðgerðir Icelandair er að þær voru þaulskipulagðar. Markmiðið var alltaf að reyna að brjóta stéttarfélag flugfreyja á bak aftur og ganga þannig í augun á fjárfestum, einkum erlendum. Icelandair vildi aldrei semja. En þar gleymist hverjir eru helstu bakhjarlar Icelandair, það er þjóðin í gegnum lífeyrissjóðina og svo veittan og mögulegan ríkisstuðning. Miðað við upplýsingar frá Icelandair er launakostnaður flugfreyja um 7% af rekstrarkostnaði fyrirtækisins. Það er því pólitísk, ekki peningaleg, ákvörðun að ráðast gegn þeim af slíku offorsi. Niðurbrotstilraunum verður svarað af fullri hörku. Því réttindi launafólks eru grunnurinn að almennri velferð á Íslandi.“

Þessi orð framkvæmdastjóra ASÍ sýna að þar á bæ vildu menn ýta undir illindi í stað þess að bera klæði á vopnin. Það átti að láta sverfa til stáls af því að við skrifborðið telur þetta fólk að annars konar átök en við samningaborðið skili bestum árangri.

Stefán Ólafsson prófessor er ráðgjafi Eflingar-stéttarfélags. Hann skrifaði grein á vefsíðuna Kjarnann laugardaginn 18. júlí og sagði stjórnendur Icelandair hafa leikið af sér „að undirlagi Samtaka atvinnulífsins (SA), sem lætur sig dreyma um að veikja samtök launafólks varanlega með slíkum aðgerðum, að hætti nýfrjálshyggjumanna“.

Afleikurinn hafi meðal annars þetta í för með sér:

„Icelandair þrengir verulega með þessu möguleika sína á að endurfjármagna félagið, því fulltrúar launafólks í stjórnum lífeyrissjóðanna munu vissulega eiga mun erfiðara en ella með að styðja nýjar fjárfestingar í Icelandair ef það stendur samtímis fyrir herferð til að veikja samtök launafólks og samningsréttinn á vinnumarkaðinum. Lífeyrissjóðirnir eiga nú hátt í helming hluta í félaginu.

Það verður einnig erfiðara fyrir ríkisvaldið að styðja félagið, umfram það sem þegar hefur verið gert, ef þetta útspil stendur.“

Stef Stefáns er sama og annarra vinstrisinna sem hér eru nefndir til sögunnar: beita á lífeyrissjóðum og skattfé almennings til að þvinga stjórnendur Icelandair til að reka félagið á annan hátt en þeir telja skynsamlegt.

Hrafn Magnússon starfaði áratugum saman að lífeyrismálum hjá Landssamtökum lífeyrissjóða. Hann sagði á Facebook-síðu minni 17. júlí:

„Sá í fréttum í kvöld að formaður VR vill beita lífeyrissjóðunum í verkalýðsbaráttunni. Ég tel þessa yfirlýsingu fráleita og ekki í takt við raunveruleikann.“

Það er spurning hvert verkalýðshreyfingin er komin þegar forráðamenn ASÍ hafa ráð Láru V. Júlíusdóttur um vinnuréttarmál og Hrafns Magnússonar um lífeyrismál að engu og kjósa illindi í stað lausnar við samningaborðið, lausnar sem fylgt er fram af þunga eftir að samningur hefur tekist.

Hitt er síðan umhugsunarefni miðað við það sem segir í tilvitnuðum orðum hér að ofan hvar íslenska þjóðarskútan væri stödd sæti það fólk við stjórnvölinn sem þolir jafnilla hvell og samfylkingarfólkið og píratar. Við aðstæður sem hér er lýst skiptir fumlaus stjórn án stóryrða sköpum.

Nú ættu stóryrðasmiðirnir að læra að hafa hægt um sig. Þá ber einnig að halda þeim sem lengst frá ríkisfjárhirslunni og lífeyrissjóðunum því að þeir skirrast ekki við að nota fé annarra til að þjóna pólitískri lund sinni.