Í þágu ESB-aðildarferlis
Viðreisn vill veikja stöðu lítilla og meðalstórra útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja um allt land og búa þannig í haginn fyrir ESB-aðildaráróðurinn.
Aðferðirnar við að kynna tvöföldun á auðlindaskatti sem „leiðréttingu“ og láta eins og það hafi komið ráðherrum Viðreisnar á óvart að það væri glufa í lögum sem þyrfti að loka til að ná þessu markmiði eru líklega ekki annað en sýnishorn af þeim aðferðum sem beitt verður til að telja okkur trú um að í raun sé óhjákvæmilegt að ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðunum við ESB sem hófust 2009.
Viðreisnarráðherrarnir töldu þessa veiku fótfestu bestu leiðina í áróðri til þess annars vegar að slá sig til riddara sem andstæðinga stórútgerða og hins vegar til að veikja stöðu lítilla og meðalstórra útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækja um allt land og búa þannig í haginn fyrir ESB-aðildaráróðurinn.
Deilur vegna fiskveiða valda vanda milli Breta og Frakka,
Þeir sem fylgjast með því hvernig systurflokkur Samfylkingarinnar í Bretlandi, Verkamannaflokkurinn, reynir að snúa ofan af úrsögn Breta úr ESB og nálgast sambandið á ný sjá að þar veldur ESB-ásókn í fiskimið Breta mestum vandræðum.
Bretar og Frakkar, kjarnorkuveldin tvö í Evrópu utan Rússlands, leggja mikla áherslu á samstöðu sína í þágu Úkraínu. Þá hafa Sir Keir Starmer, forsætisráðherra Breta, og Emmanuel Macron Frakklandsforseti gengið fram sameiginlega með yfirlýsingum um að þeir muni senda stuðningslið á vettvang, verði friður á milli Úkraínumanna og Rússa. Veita verði Úkraínu áfram stuðning, jafnvel með hersveitum á völdum stöðum í landinu sjálfu, þó ekki við víglínuna.
Þegar kemur að því að útfæra þessar eindregnu pólitísku yfirlýsingar með skriflegu samkomulagi verður þyngra undir fæti. ESB vill ekki semja um neitt við Breta nema þeir tryggi fiskiskipum frá ESB-löndum – einkum Frakklandi aðgang að breskum fiskimiðum.
Sækja Brusselmenn þetta svo fast að Daniel Zeichner, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra Breta, segist standa frammi fyrir „hættulegum“ úrslitakostum af þeirra hálfu.
Á breska þinginu er ótti við að látið verði undan þessum kröfum ESB vegna þess hve stjórn Verkamannaflokksins sé mikið kappsmál að ganga frá nýjum varnar- og öryggissáttmála við ESB.
Í upphaflega Brexit-samningnum milli Breta og ESB er gert ráð fyrir fimm ára aðlögunartímabili fyrir ESB-fiskiskip til að hverfa af bresku miðunum. Þessu tímabili lýkur á næsta ári. Nú eru sem sagt öryggis- og varnarmál og framtíðarstaðan í Úkraínu notuð til að knýja á um að veiðiréttur ESB-skipanna verði framlengdur. Breska ríkisstjórnin er milli steins og sleggju vegna þess að ESB kýs að setja „hættulega“ úrslitakosti í þessu efni.
Hér er Viðreisn í fremstu röð við að telja okkur trú um að innan ESB sé fullur skilningur á því að Íslandsmið eigi að vera fyrir íslensk fiskiskip þrátt fyrir ESB-aðild. ESB eigi engan rétt á að senda evrópskan fiskiskipaflota hingað. Takist að lama smáar og meðalstórar útgerðir um land allt með „leiðréttingu“ á
auðlindaskatti er talinn barnaleikur að sannfæra þjóðina um að það takist að halda ESB-skipum frá íslenskum fiskimiðum þrátt fyrir ESB-aðild.
Viðreisn er auðlindaskatturinn kær en ESB-aðildin er forsenda flokksstarfsins.