29.7.2021 10:14

Í sérflokki bólusettra

Hlutfall bólusettra hér sýnir að við stöndum mun betur að vígi en aðrar þjóðir. Það þjónar engum tilgangi að setja sig í sömu skúffu og þær.

Samkvæmt skrá sem birtist í The New York Times yfir hlutfall bólusettra 28. júlí 2021 í einstökum löndum eru 74% íbúa Möltu fullbólusettir, þar nær bólusetning til 12 ára barna, hér eru 70% íbúa fullbólusettir með 16 ára aldursmarki og í Sameinuðu furstadæmunum eru 70% einnig fullbólusettir. Þessi þrjú lönd skera sig úr á listanum. Næst eru Bahrain og Chile með 64%.

Löngum er talað um Ísrael sem dæmi um vel bólusetta þjóð en þar er hlutfall fullbólusettra 59% og í Bretlandi er það 56% (18 ára og eldri). Sé litið til Norðurlandanna eru tölurnar: Danmörk 52%, Svíþjóð 39%, Noregur 33% og Finnland 32%. Í Bandaríkjunum er hlutfallið 49%.

Í umræðum um útbreiðslu veirunnar og afbrigða hennar verður að hafa þessar tölur í huga því að allt bendir til þess að þær ráði nú mestu um til hvaða ráða skynsamlegt er að grípa í einstökum löndum. Augljóst er af því sem fram kemur að Delta-afbrigðið sem ræður smiti hér um þessar mundir hefur sett fyrri spár sérfræðinga í uppnám, ekki vegna þess að bóluefni virki ekki til að forða fullbólusettum frá því að veikjast alvarlega, heldur vegna þess hve bráðsmitandi afbrigðið er.

Tölur frá Möltu sýna að undanfarið svipar útbreiðslunni þar til þess sem gerist hér. Maltnesk heilbrigðisyfirvöld urðu að stíga skref til baka eins og hér var gert. Má nefna að 18. júlí voru ný smit á Möltu 195 og meðaltal sjö daga sýndi 201 smit en 28. júlí voru ný smit 91 og meðaltal sjö daga komið niður í 138 með 39 á sjúkrahúsi og tvö dauðsföll en alls hefur veiran leitt til dauða 423 á Möltu. Yfirvöld segja ekki enn tímabært að slaka á sóttvarnareglum en telja líklegt að innan tíðar verði veikin að mild disease – mildum sjúkdómi­ – það er flensu. Börn myndi mótefni gegn henni ung að árum en þeir sem eldri eru verði varðir með bóluefni, sumir séu raunar þannig gerðir að veiran nái aldrei tangarhaldi á þeim.

1272799Bólusetning hér hefur skilað glæsilegum árangri og hann ber að nýta (mynd: mbl.is).

Í Bretlandi höfðu margir sérfræðingar uppi miklar hrakspár fyrir 19. júlí sem var „frelsisdagur, það er afnám á sóttvarnahömlum. Spáð var að smit yrðu óviðráðanleg. Þróunin hefur orðið á annan veg og nú eru vísindamenn „undrandi“ vegna þess hve COVID-smitum hefur fækkað í landinu. Ýmissa skýringa er leitað, bent er á hitabylgju, skólafrí, lok Evrópumótsins í knattspyrnu eða fækkun sýnatöku.

Athygli vekur að skýringa er helst leitað með því að benda á annað en að áhrif bólusetninga. Ástæðan kann að vera að sú að þeir sem fluttu hrakspárnar vissu hve margir höfðu verið bólusettir þegar þeir máluðu skrattann á vegginn og sögðu að eftir 19. júlí kynni smitum að fjölga í meira en 200.000 á dag en þeim hefur á hinn bóginn fækkað frá 15. júlí þegar þau urðu flest 60.000 í þessari lotu.

Nú er tekið til við að vitna í breska vísindamenn sem segja að Bretar séu ef til vill á mörkum þess að mynda hjarðónæmi. University College London telur að um 87% séu nú ónæmir í Bretlandi en vegna Delta-afbrigðisins þurfi hlutfallið að verða 93% til að tala megi um hjarðónæmi.

Haft er eftir breskum vísindamanni í The Telegraph að allir eigi eftir að rekast á veiruna og það sé langbest að vera bólusettur þegar það gerist.

Hvenær skyldu umræður um veiruna hér snúast á þessa hlið? Hvenær verður okkur tilkynnt hvað þurfi hér til að hjarðónæmi skapist og við blasi „mildur sjúkdómur“? Hlutfall bólusettra hér sýnir að við stöndum mun betur að vígi en aðrar þjóðir. Það þjónar engum tilgangi að setja sig í sömu skúffu og þær.