12.2.2020 15:42

Í sænska þinginu, Riksdagen

Þinghúsið stendur á Helgeandsholmen á milli konungshallarinnar og bygginga stjórnarráðsins sem hýsa forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og varnarmálaráðuneytið, andspænis höllinni.

Fróðlegt var að fylgjast með umræðum í sænska þinginu, Riksdagen, í morgun (12. febrúar). Ann Linde utanríkisráðherra flutti þinginu árlega skýrslu sína um utanríkismál. Ræða ráðherrans var í 20 mínútur. Að henni lokinni gafst tækifæri til andsvara, fyrsta andsvar var 2 mínútur og ráðherrann hafði 2 mínútur til að svara, annað andsvarið var 1 mínúta og ráðherrann fékk einnig 1 mínútu. Einn fulltrúi hvers flokks spurði ráðherrann.

Ræður flytja ráðherrar og þingmenn úr ræðustól við hlið þingforseta. Þegar kemur að andsvörum standa þeir við tvö ræðupúlt, hvor andspænis öðrum, og ræða saman. Tímamörk eru virt og aldrei heyrist í neinni bjöllu forseta, enda er hún ekki á borði hans heldur stór fundarhamar. Þegar þingmaður hefur lokið andsvörum takast hann og ráðherrann í hendur. Þingmaðurinn gengur til sætis og næsti gengur að púltinu andspænis ráðherranum.

Þetta fer allt formlega fram undir stjórn forseta en þó mun óformlegar en í alþingi þar sem ræðumenn skiptast á að ganga í púltið og forseti kynnir þá til leiks á þann formlega hátt sem tíðkast í þinginu.

IMG_0846

Ann Linde utanríkisráðherra flytur Riksdagen skýrslu,

IMG_0849Ann Linde og Hans Wallmark, talsmaður Moderatarna, skiptast á andsvörum.

Bjölluslátturinn hvimleiði sem setur svip sinn á fundi alþingis er ekki stundaður í sænska þinginu. Þingforseti situr þegar hann kynnir ræðumenn til leiks.

Umræðurnar um skýrslu ráðherrans skiptast í tvennt. Í fyrri hluta þeirra talar ráðherrann og fulltrúar einstakra þingflokka. Formlegir fulltrúar þingflokkanna eru skráðir af skrifstofu þingsins að ósk þingflokkanna og birtist listi með nöfnum þeirra á töflu í þingsalnum.

Þingmennirnir taka til máls eftir fjölda manna í einstökum þingflokkum. Þannig talaði fulltrúi Moderatarna (mið-hægri), Hans Wallmark, næstur á eftir ráðherranum sem kemur úr Jafnaðarmannaflokknum. Wallmark mátti tala í 8 mínútur. Sömu sögu er að segja um ræðumenn Svíþjóðardemókratanna, Miðflokksins, Vinstri flokksins, Kristilega demókrataflokksin og Frjálslynda flokksins. Sex mínútur voru hins vegar fyrir Græna flokkinn. Andsvör eru leyfð eftir hverja ræðu.

Seinni hluti umræðunnar er opinn öllum þingmönnum sem óska eftir að fá orðið. Þeir mega ekki tala lengur hver um sig en sex mínútur. Öllum þingmönnum er heimilt að veita andsvar, tvö andsvör, ein mínúta hvort um sig.

Alls sitja 349 þingmenn á sænska þinginu. Þinghúsið er í gamla seðlabankahúsinu og er salurinn bjartur og nútímalegur. Þar eru túlkaklefar og voru utanríkismálaumræðurnar þýddar samtímis á ensku fyrir erlenda sendiherra sem fjölmenntu á þingpallana. Þá er táknmálstúlkur í þingsalnum en sjónvarpað er beint frá þingfundum.

IMG_0852Gamla þinghúsið, séð frá horni aðalbyggingar utanríkisráðuneytisins.

Þinghúsið stendur á Helgeandsholmen á milli konungshallarinnar og bygginga stjórnarráðsins sem hýsa forsætisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og varnarmálaráðuneytið, andspænis höllinni. Þar við hliðina er síðan óperuhúsið í Stokkhólmi. Allt eru þetta virðulegar byggingar sem minna á að Svíþjóð var stórveldi. Gamla þinghúsið stóð nær konungshöllinni en seðlabankinn. Nú hefur verið sett tengibygging milli húsanna en í gamla húsinu eru salir efri og neðri deildar og eru þeir notaðir fyrir þingflokksfundi, þar eru einnig salir fyrir nefndarfundi. Þingmenn hafas skrifstofur í húsum í kring og tengist þetta allt með göngum undir húsunum.

OperanStokkhólmsóperan. Myndin er tekin frá utanríkisráðuneytinu. Gula byggingin til hægri er Grand-hótelið.