Í nafni gagnsæis
Ísland er á svipuðum stað og undanfarin ár á þessum lista. Situr öruggt í hópi fyrirmyndarríkja þar sem aðeins nokkur stig á kvarðanum skilja á milli.
Árið 1993 sammæltust nokkrir einstaklingar um að hefja alþjóðlega baráttu gegn spillingu og stofnuðu Transparency International með aðsetur í Berlín. Nú hefur hreyfingin tengiliði í rúmum 100 löndum. Í þeim hópi eru samtökin Gagnsæi, samtök gegn spillingu, sem skráð eru til heimilis í húsi Háskóla Íslands, Gimli, og er formaður þeirra Jón Ólafsson prófessor, nýskipaður formaður starfshóps forsætisráðherra um eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu.
Af vefsíðu Transparency International. Spillingarvísitalan sýnd með því að lita lönd. Ísland er í hópi gulu landanna þar sem spilling er minnst.
Á vefsíðu Gagnsæis mátti lesa miðvikudaginn 21. febrúar:
„Í dag birti Transparency International spillingarvísitölu ársins 2017. Spillingarvísitalan ("corruption perceptions index, CPI") er byggð á áliti sérfræðinga sem og almennri skynjun á spillingu í opinberum stofnunum og stjórnsýslu.
Ísland lækkar að þessu sinni um 1 í einkunn á milli ára (úr 78 í 77), en hækkar um 1 sæti á listanum, eða úr 14. í 13. sæti,[af 180] og stendur nú jafnfætis Hong Kong og Ástralíu. Ísland er töluvert langt fyrir neðan hin norðurlöndin á listanum, eins og skoða má nánar með því að smella á hlekki í frétt Transparency.
Þau lönd sem fá hæsta einkunn eiga það sameiginlegt að þar er stjórnsýsla opin og almenningur getur dregið stjórnendur til ábyrgðar. Lægstu einkunnir fá lönd þar sem mútur eru algengar, refsileysi ríkir gagnvart spillingu og opinberar stofnanir sinna ekki hlutverki sínu í þágu borgaranna. Skerðing á fjölmiðlafrelsi og tilraunir yfirvalda til að leyna upplýsingum og þagga niður gagnrýnisraddir eru nefnd sérstaklega sem geigvænleg þróun á heimsvísu.
(Transparency International sækir upplýsingar fyrir CPI vísitöluna til ýmissa greiningarfyrirtækja og stofnana er sérhæfa sig í rannsóknum á stjórnarfari og stjórnunarvísum í löndum heims. Samtökin Gagnsæi taka ekki þátt í því ferli.)“
Þetta er óhlutdræg frásögn sem sýnir að Ísland er á svipuðum stað og undanfarin ár á þessum lista. Situr öruggt í hópi fyrirmyndarríkja þar sem aðeins nokkur stig á kvarðanum skilja á milli. Jóhanni Hlíðari Harðarsyni, fréttamanni ríkisútvarpsins, þótti ekki nægilega krassandi að segja frá birtingu skýrslunnar á þennan hátt heldur segir í fyrirsögn á ruv.is miðvikudaginn 21. febrúar: Ísland er spilltasta ríki Norðurlanda og fréttin hefst á þessum orðum:
„Ísland er spilltasta ríki Norðurlanda samkvæmt nýrri úttekt Transparency International. Engu að síður telst spilling lítil hér á landi því Ísland er í hópi þeirra ríkja þar sem hvað minnst spilling fyrirfinnst.“
Hér eru efstu ríkin: 1. Nýja Sjáland 89 stig af 100. 2. Danmörk 88 stig. 3. Finnland, Noregur, Sviss 85 stig, 4. Singapore, Svíþjóð 84 stig, 5. Kanada, Lúxemborg, Holland, Bretland 82 stig, 6. Þýskaland 81 stig, 7. Ástralía, Hong Kong, Ísland 77 stig.
Umræður um spillingarvístöluna og samtökin Transparency International vekja upp minningu um reiði álitsgjafans Egils Helgasonar í garð samtakanna. Eftir hrunið 2008 sendi hann þeim skammarbréf. Egill birti bréfið á vefsíðu sinni 29. september 2009:
„Ég sendi þennan tölvupóst til Transparency International:
— — —
Dear Sir/Madam
I am a senior journalist in Iceland.
I must say that your results on Iceland and corruption absolutely undermine the reputation of your organisation.
Are you aware that there is a huge investigation into financial misdoings in our country, headed by a special prosecutor with the aid of Eva Joly, the French/Norwegian investigation magistrate?
Your information is obviously wrong – or maybe your criteria is faulty.
Best regards
Egill Helgason
Reykjavik Iceland“
Margt sérkennilegt gerðist „af því að hér varð hrun“. Því ber að halda til haga ekki síður en öðru í nafni gagnsæis.