26.11.2020 10:39

Í minningu Thorvaldsens

Páfi Thorvaldsens situr uppgefinn í stól sínum eftir þjáningarnar sem hann mátti þola vegna Napóleons. Haft er eftir Thorvaldsen þegar hann leit á lokagerð styttunnar árið 1831: „Þarna var ég líklega of norrænn.“

Fyrir viku. 19. nóvember var því fagnað hér á landi og víðar að 250 ár voru liðin frá fæðingu myndhöggvarans Bertels Thorvaldsens. Faðir hans, Gottskálk Þorvaldsson frá Reynistað í Skagafirði, fluttist ungur til Kaupmannahafnar, kvæntist danskri konu og eignuðust þau Bertel sem kom aldrei til Íslands en varð frægur hér eins og annars staðar. Var hans minnst á ýmsan hátt hér á afmælisdaginn meðal annars með þátttöku danska sendiherrans.

Á vefsíðu Jyllands-Posten miðvikudaginn 25. nóvember birtist stutt grein eftir einn dálkahöfunda blaðsins, Per Nyholm, um Thorvaldsen. Honum er lýst sem stærsta nafni dönsku Listaakademíunnar í aldanna rás og sagt að hann sé „verdensberømt i Danmark“, heimsfrægur í Danmörku og vel þekktur annars staðar í Evrópu. Minnt er á að hann hafi verið forstöðumaður listaakademíu páfastóls í Róm og sé eini maður mótmælendatrúar sem gert hafi listaverk í Péturskirkjunni. Minningarmark hans um Píus páfa 7. sé fáeinum metrum frá minnismerki Berninis um Alexander páfa 7. Munurinn á verkunum sé augljós. Verk Berninis sem dramatískt í stíl meistara barokksins. Páfi Thorvaldsens sitji uppgefinn í stól sínum eftir þjáningarnar sem hann mátti þola vegna Napóleons. Haft er eftir Thorvaldsen þegar hann leit á lokagerð styttunnar árið 1831: „Þarna var ég líklega of norrænn.“

Nyholm segir að árið 1797 hafi Thorvaldsen og hundur hans Rex siglt með freigátunni Thetis til Miðjarðarhafs. Haft er eftir Fisker skipherra að Thorvaldsen hafi sofið of lengi og borðað of mikið. Hann yfirgaf skipið á Möltu og hélt þaðan til Palmeró og um Napólí til Rómar þar sem hann hefði gjarnan viljað dveljast til dauðadags með vinum sínum, ástkonum og dótturinni Elisu. Kristján konungur 8. skipaði honum hins vegar að snúa aftur til Danmerkur.

Btitle-manglerListmálarinn C.W. Eckersberg málaði þessa mynd af Thorvaldsen árið 1814 í Róm. Hann er þarna í hátíðarbúningi San Luva-akademíunnar.

Thorvaldsen kom 17. september 1838 til Kaupmannahafnar með freigátunni Rotu. Frægðin tryggði honum hátíðlegar móttökur og deyjandi einveldið þarfnaðist hetju segir Nyholm. Þrátt fyrir smæð sína var þá gnægð snillinga í Kaupmannahöfn Kierkegaard, H.C. Andersen, Ørstederne, Goldschmidt, Oehlenschläger, Eckersberg og aðrir sem Thorvaldsen þekkti frá Róm. Hann varð þátttandi í selskabslífi borgarinnar, snæddi kvöldverði hjá fjölskyldum fyrirmenna og fór síðan í Det Kongelige Teater, þar sem hann andaðist á frumsýningu 24. mars 1844. Líkið var borið út og sýningunni haldið áfram, segir Nyholm.

Hann nefnir nokkur þekkt verk Thorvaldsens auk styttunnar af Píusi páfa sé freska með Alexander mikla í forsetahöllinni í Róm. Við Luzern í Sviss megi sjá ljón hans, í Mainz í Þýskalandi sé stytta hans af Gutenberg. Í Varsjá í Póllandi sé riddarastytta af Poniatowski og þar sitji einnig Kopernikus en í Kraká megi sjá aðalsmanninn Potocki. Þá segist Nyholm fyrir mörgum árum hafa rekist á litla brjóstmynd af greifaynju eftir Thorvaldsen í mannauðu safni í Hvíta-Rússlandi. Þá eigi hann sjálfur í borðstofu sinni eitt af málverkunum sem prýddu heimili Thorvaldsens í Via Sistina í Róm, það sýni Campania-hérað á Ítalíu. Nyholm segist hafa keypt myndina á uppboði í Vínarborg þar sem enginn hafi ekkert gert sér grein fyrir gildi hennar eða uppruna.