17.1.2022 14:28

Í minningu Poitiers

Í bókinni um Faulkner kemur smábæjarbyltingin mjög við sögu þegar litið er til baka. Byltingunni er þó alls ekki lokið hvorki í bókmenntum né kvikmyndum.

Nú þegar leikarinn Sidney Poitier andast tæplega 95 ára að aldri sýna margar sjónvarpsstöðvar úrvalsmyndina Í næturhitanum (In the Heat of the Night) þar sem Poitier fer með aðalhlutverkið á móti Rod Steiger sem hlaut Óskarsverðlaun fyrir stjörnuleik sinn.

Myndin var gerð árið 1967 og sýnd hér í mars 1971, fyrir meira en hálfri öld. Hún lifir þó enn í minningunni og þess vegna er eins og að heilsa gömlum kunningjum þegar horft er á hana að nýju. Rod Steiger er eftirminnilegri í minningunni en Poitier. Þegar litið er á efni myndarinnar nú hefur persónan sem Poitier leikur öðlast annan og skýrari sess. Hann brýtur sem Virgil Tibbs fulltrúi svertingja af sér fjötra og undirokun hvíta mannsins í Suðurríkjum Bandaríkjanna. Enn er allt sem snertir samskipti svartra og hvítra ofurviðkvæmt í Bandaríkjunum og myndin minnir rækilega á rætur þess.

Smábæjarlögreglustjórinn (Rod Steiger) undrast að svertinginn Virgil Tibbs sé mikils metinn lögregluforingi fyrir norðan og eftir að hafa kallað hann fyrst boy og síðan Virgil spyr hann: Og hvað kalla þeir þig svo fyrir norðan? They call me Mr. Tibbs er svarið og geymist það sem meðal lykilsetninga í bandarískri kvikmyndasögu. Hvítur landeigandi gaf Virgil löðrung og hann svaraði í sömu mynt. Þetta var fáheyrt í bandarískum kvikmyndum þegar myndin var gerð.

P07jx46cSidney Poitier og Rod Steiger í kvikmyndinni Í næturhitanum frá 1967.

Í næturhitanum er mynd í anda smábæjarbyltingarinnar í bandarískum bókmenntum á öðrum og þriðja áratug 20. aldarinnar. Myndin er reist á samnefndri bók eftir John Ball. Hún kom út 1965 og birtist sem framhaldssaga í Morgunblaðinu.

Aðkomumaðurinn Vigil Tibbs er á brautarpalli og bíður eftir lest á leið í gegnum smábæ og dregst fyrir óðagot lögreglu í leit að morðingja inn í lausn á morðmáli. Í sögunni er brugðið gagnrýnu ljósi á samskipti hvítra og svartra og dreginn taumur þeirra síðarnefndu.

Verbúðin snýst alfarið um líf í smábæ þegar bylting verður í atvinnulífinu. Sýnir spennu milli gamals og nýs tíma, tilfinningaleg og fjárhagsleg átök sem teygja sig upp í stjórnarráðið og inn á alþingi, allt virðist leyfilegt smábænum til heilla og framdráttar. Í næturhitanum snýst sagan um að svörtum lögreglumanni takist ekki að kasta rýrð á þá hvítu sem öllu ráða.

Samfélagið er enn minna í Svörtum söndum. Þar er brugðið ljósi á viðbrögðin þegar lík finnst og grunur vaknar um morð. Ræður lögreglan á staðnum við málið? Undirtónninn er að eitthvað hafi gerst í litla samfélaginu sem sé því og íbúum þess ofviða þegar glímt er við morð. Það reynir á grunnstoðina. Nákvæmlega eins og lýst er Í næturhitanum.

Í bókinni Fulltrúi þess besta í bandarískri menningu segir dr. Haukur Ingvarsson frá William Faulkner og áhrifum hans í bókmenntaheiminum og sérstaklega hér á landi. Þar kemur smábæjarbyltingin mjög við sögu þegar litið er til baka. Byltingunni er þó alls ekki lokið hvorki í bókmenntum né kvikmyndum. Hvarvetna er unnt að draga fram átök. Í litlum samfélögum er auðvelt að skerpa þau og láta snúast um einstaklinga.