28.6.2017 10:10

Í minningu heitra deilumála

Tvær fréttir í Morgunblaðinu í morgun vekja minningar um heit deilumál á árum mínum í stjórnmálunum.

Tvær fréttir í Morgunblaðinu í morgun vekja minningar um heit deilumál á árum mínum í stjórnmálunum.

Í fyrsta lagi er birt frásögn um byggingu höfuðstöðva Orkuveitu Reykjavíkur (OR). Framkvæmdir við bygginguna stóðu yfir árin sem ég sat í borgarstjórn Reykjavíkur og gagnrýndi ég að ráðist skyldi í smíði þessa húss. Gagnrýni minni var svarað af hörku af stjórnendum OR og R-listafólkið í borgarstjórn stóð að baki þeim. Var ég sakaður um að vega að starfsmönnum OR með gagnrýni minni!

Ég taldi að spilin væru aldrei lögð á borðið. Það væri stundað laumuspil til að leyna kostnaði við gerð hússins, hann væri mun hærri en talsmenn þess sögðu. Tölurnar sem birtar eru í Morgunblaðinu segja sína sögu:

Við vígslu byggingarinnar 23. apríl árið 2003 var byggingarkostnaður metinn 2,9 milljarðar króna, eða 213 þúsund krónur á fermetra. Árið 2005 sögðu stjórnendur OR að kostnaðurinn væri 4,2 milljarðar króna og hefði því farið 31,9% fram úr áætlun. Í skýrslu úttektarnefndar um rekstur Orkuveitunnar frá árinu 2012 segir að endanlegur kostnaður hafi orðið ljós árið 2005 og þá hefði heildarkostnaður verið 4,3 milljarðar, í janúar 2005. Miðað við verðlag hvers árs frá 2001 til 2005 hefði hann verið 5,3 milljarðar, eða 8,3 milljarðar á verðlagi ársins 2010. Árið 2013 voru höfuðstöðvarnar seldar Foss fasteignafélagi fyrir 5,1 milljarð króna, en byggingarkostnaðurinn miðað við verðlag um miðjan febrúar það ár nam 9,4 milljörðum króna.

Byggingin hefur reynst gölluð og nú kostar hundruð milljóna að hreinsa hana af myglusveppi. Um einu og hálfu eftir að húsið var formlega tekið í notkun þurfti að skipta um þéttilista á utanverðri austurhlið vesturálmu hússins. Í Morgunblaðinu segir að rangir listar hefðu verið notaðir í upphafi og lekið hefði meðfram þeim, þó án mikils tjóns. Hefðu listarnir verið notaðir með það fyrir augum að þeim yrði skipt út síðar til að tefja ekki verkið.

Allt er þetta sorgarsaga og sér ekki enn fyrir endann á henni.

Hin fréttin birtist á forsíðu Morgunblaðsins um að meira vændi sé nú stundað hér á landi en nokkru sinni fyrr. Þetta er alvarlegt mál ekki aðeins vegna vændisins heldur allrar skipulögðu glæpastarfseminnar sem þrífst í kringum það. Til að brjóta málið til mergjar verða umræður um útlendingamál á opinberum vettvangi að taka á sig annan svip en til þessa.

Fréttin minnti mig hins vegar á að eitt fyrsta málið sem meirihlutinn að baki ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar náði fram á vorþinginu 2009 var innleiðing á svonefndri „sænskri leið“ til að sigrast á vændi.

Við flokksbræðurnir Jón Magnússon og Kjartan Ólafsson greiddum atkvæði gegn frumvarpinu. Ég var sannfærður um að lagabreytingin yrði haldlaus í baráttunni gegn vændi. Sýnist mér það hafa sannast.

Væri rannsóknarefni að fara ofan í umræður um þetta mál hér á sínum tíma auk þess að kanna örlög „sænsku leiðarinnar“ almennt.