Í kínverskan skammarkrók
Hörð afstaða og óvild í garð allra sem hreyfa neikvæðum athugasemdum vegna starfshátta kínverskra ráðamanna birtist nú af auknum þunga alls staðar.
Nýlega varð Chloé Zhao fyrst kvenna frá Asíu til að vinna Golden Globe verðlaunin sem besti kvikmyndaleikstjórinn fyrir mynd sína Nomadland. Zhao er fædd í Peking og eftir að hún var verðlaunuð fögnuðu kínverskir ríkisfjölmiðlar ákaft. Fyrirsagnir á borð við Stolt Kína! birtust víða.
Í The New York Times segir mánudaginn 8. mars að nú kveði við annan tón í garð Zhao af opinberri hálfu í Kína. Hún hefur búið lengi erlendis og hlaut menntun sína að mestu í Bandaríkjunum. Hömpuðu kínverskir fjölmiðlar henni almennt ekki fyrr en nú. Við frægð hennar lögðust netþefarar kínverskra stjórnvalda hins vegar í rannsóknarvinnu og grófu upp viðtal við Zhao frá 2013 í bandarísku kvikmyndariti þar sem Zhao gagnrýndi ættland sitt og lýsti því sem stað „þar sem lygar eru alls ráðandi“. Þeir þefuðu einnig uppi nýlegra samtal við Zhao á ástralskri vefsíðu, hún býr núna í Ástralíu, og var haft eftir henni á vefsíðunni: „Bandaríkin eru nú land mitt, endanlega.“
Ritstjórar áströlsku síðunnar birtu síðar athugasemd og sögðust hafa haft rangt eftir Zhao, hún hefði sagt „ekki land mitt“ um Bandaríkin. Skaðinn var hins vegar skeður. Þjóðernissinnaðir Kínverjar kröfðust að upplýst yrði um þjóðerni Zhao. Er hún kínversk eða bandarísk? spurðu þeir. Hvers vegna eiga Kínverjar að fagna velgengni hennar sé hún bandarísk?
Öryggisstofnun ríkisins á sviði menningar og hugmyndafræði sem starfar undir handarjaðri Félagsvísindastofnunar Kína sá meira að segja ástæðu til að blanda sér í málið. Hún sendi frá sér þessi boð á samfélagsmiðli: „Flýtið ykkur hægt við að bera lof á Chloé Zhao. Kynnið ykkur afstöðu hennar til Kína.“
Chloé Zhao.
Það er ekki vegna kvikmyndarinnar Nomadland sem Zhao er sett í skammarkrókinn af kínverskum yfirvöldum heldur ótta kommúnistaflokksins við skoðanir hennar, að frægð hennar kunni að gefa gagnrýni hennar aukið vægi og veikja stöðu flokksins. Þessi harða afstaða og óvild í garð allra sem hreyfa neikvæðum athugasemdum vegna starfshátta kínverskra ráðamanna birtist nú af auknum þunga alls staðar.
Merki um það má sjá í Morgunblaðinu í dag (8. mars) þar sem Jin Zhijian, sendiherra Kína á Íslandi, skrifar til varnar ofsóknum kínverskra stjórnvalda gegn Úígúrum, múslímskum minnihlutahópi í Xinjiang-héraði í Kína. Segir hann ásakanirnar reistar „á loðnum ósannindum, runnum undan rifjum fræðimannsins Adrians Zenz, sem hefur lengi haft horn í síðu Kína, og ástralskri stefnumótunarstofnun sem hefur verið fjármögnuð af bandarískum stjórnvöldum og vopnasölum. Þessir ótrúverðugu aðilar hafa farið fremstir í flokki þeirra sem hafa stundað rakalausan rógburð og skrímslavæðingu gagnvart Kína“.
Nýlega flutti breska ríkisútvarpið, BBC, þáttaröð um ofsóknir á hendur konum í Xinjiang, ófrjósemisaðgerðir og aðrar ofbeldisfullar tilraunir til að hefta fjölgun múslima í héraðinu. Lýsingar kvennanna á ofsóknunum voru óhugnanlega dapurlegar en sendiherrann sakar þær um flytja ímyndaðar sögusagnir. Það er rétt hjá Zhao, lygin er því miður í hávegum höfð hvarvetna í Kína, einnig á æðstu stöðum.