27.6.2020 10:35

Í fjórða sinn gegn forseta

Nú er í fjórða sinn boðið fram gegn sitjandi forseta og í fyrsta sinn eftir að hann hefur aðeins setið í eitt kjörtímabil.

Gengið er til forsetakosninga í níunda sinn í 76 ára sögu lýðveldisins í dag (27. júní). Almenna reglan var sú að ekki var stofnað til framboðs gegn sitjandi forseta. Þetta breyttist í forsetatíð frú Vigdísar Finnbogadóttur. Nú er í fjórða sinn boðið fram gegn sitjandi forseta og í fyrsta sinn eftir að hann hefur aðeins setið í eitt kjörtímabil.

Árið 1988 bauð Sigríður Þorsteinsdóttir úr Flokki mannsins í Vestmannaeyjum sig fram og fékk 5,3% atkvæða, Vigdís fékk 92,7% en auð og ógild atkvæði voru 2%. Kjörsókn var 72% tæplega 175.000 á kjörskrá.

Árið 2004 buðu Baldur Ágústsson (9,9% af greiddum atkv.) og Ástþór Magnússon (1,5%) sig gegn Ólafi Ragnari Grímssyni (67,5%). Kjörsókn var dræm, aðeins 62,9%, rúmlega 213.000 á kjörskrá.

Árið 2012 voru þrír karlmenn og þrjár konur í framboði: Andrea Jóhanna Ólafsdóttir (1,80% af greiddum atkv.), Ari Trausti Guðmundsson (8,64%), Hannes Bjarnason (0,98%), Herdís Þorgeirsdóttir (2,63%) og Þóra Arnórsdóttir (33,16%) gegn Ólafi Ragnari Grímssyni (52,78%). Kjörsókn var 69,32% af rúmlega 235.000 á kjörskrá.

1215286Guðni Th. Jóhannesson hjólaði frá Bessastöðum á kjörstað í Álftanesskóla (mynd: mbl.is/íris Jóhannsdóttir).

Í ár býður Guðmundur Franklín Jónsson sig fram gegn Guðna Th. Jóhannessyni. Ríflega 252 þúsund manns eru á kjörskrá og höfðu í gær (26. júní) hátt í 54 þúsund kosið utan kjörfundar, sem er nýtt met.

Án þess að farið sé í mannjöfnuð má fullyrða að árið 2012 þegar Ólafur Ragnar bauð sig fram í fimmta sinn hafi verið um raunverulega kosningabaráttu að ræða. Ólafur Ragnar talaði um framtíð sína í embætti í véfréttarstíl í áramótaávarpi 1. janúar 2012 sem ýtti undir framboð. Hann tók síðan af skarið um framboð sitt 4. mars 2012. Gaf hann til kynna að annars blasti við óbærileg upplausn vegna skorts á framboði einhvers sem hefði burði til að sameina þjóðina að baki sér.

Athyglisvert er að við skýringu á úrslitum kosninganna árin 2004 og 2012 var tekið til við að ræða hve mörg atkvæði frambjóðendur hefðu fengið miðað við fjölda manna á kjörskrá. Þá varð hlutfall Ólafs Ragnars 42,5% árið 2004 og ekki nema 35,68% árið 2012. Ætlun þeirra spunaliða sem fyrir þessu stóðu var greinilega að vega að ímynd Ólafs Ragnar sem sameiningartákns. Skömmu fyrir kosningarnar 2004 beitti hann synjunarvaldi forseta samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar í fyrsta sinn gegn fjölmiðlalögunum. Lögin voru dregin til baka. Á árunum 2008 til 2012 beitti Ólafur Ragnar þessu valdi tvisvar gegn Icesave-lögum og hafnaði þjóðin lögunum í bæði skiptin.

Í kosningabaráttunni núna segist Guðmundur Franklín Jónsson hafa Ólaf Ragnar sem fyrirmynd og talar um sjálfan sig sem „öryggisventil“ gagnvart ákvörðunum alþingis. Hann muni grípa til sinna ráða hvort sem fleiri eða færri skori á hann að beita 26. greininni.

Guðni Th. Jóhannesson vísar til fordæma úr forsetasögunni þegar hann er spurður um synjunarvaldið og talar í véfréttarstíl um að óráðinn fjölda fólks þurfi til að hann hugi að beitingu greinarinnar.

Sitjandi forseti gefur höggstað á sér með því yfirleitt að ræða að með einhverjum skilyrðum sé unnt að binda hendur hans til að beita 26. gr. Eina vald kjósenda yfir húsbóndanum á Bessastöðum er á kjördag. Þar fyrir utan á forseti að sitja á friðarstóli. Flóknara er þetta ekki.