3.6.2018 11:46

Hvalárvirkjun mótmælt á Kjarvalsstöðum

Ástæðan fyrir að vakið er máls á Hvalárvirkjun hér er undarlegur gjörningur við upphaf málverkasýningar á Kjarvalsstöðum laugardaginn 2. júní.

Birna Lárusson, upplýsingafulltrúi VesturVerks á Ísafirði skrifaði grein í Morgunblaðið í gær um Hvalárvirkjun. Þar segir meðal annars:

„Helstu sérfræðingar landsins á sviði vatnsaflsvirkjana telja að varla sé til virkjunarkostur sem hafi jafn lítil neikvæð áhrif og Hvalárvirkjun, borið saman við öll þau jákvæðu áhrif sem virkjunin mun hafa í för með sér.“

VesturVerk er í meirihlutaeigu Íslendinga, segir Birna. Annars vegar sé það HS Orka (70%) og hins vegar Gláma fjárfestingar (30%) sem þrír Ísfirðingar eiga – bræður og frændi þeirra. Þremenningarnir séu upphafsmenn þess að virkja í Hvalá, þeir gerðu leigusamninga við alla landeigendur á svæðinu um nýtingu vatnsréttinda og þeir hafi dregið vagninn alla tíð með tilheyrandi áhættu og kostnaði.

Birna bendir á að Hvalárvirkjun sé í nýtingarflokki í rammaáætlun Íslands um vernd og orkunýtingu landsvæða. Rammaáætlun sé málamiðlun um hvaða orkuauðlindir skuli nýttar og hverjar verndaðar. „Ef nýtingarflokkur rammaáætlunar er að engu hafður, gildir þá hið sama um verndarflokkinn?“ spyr Birna.

Kortið sem sýnir hvar Hvalárvirkjun verður birtist á ruv.is

Þá stóðst Hvalárvirkjun lögformlegt umhverfismat árið 2016 og síðan hefur hönnun virkjunarinnar tekið töluverðum breytingum „og allar í þá átt að draga verulega úr umhverfisáhrifum hennar,“ segir Birna.

Allir sem kjörnir voru í sveitarstjórn Árneshrepps á Ströndum þar sem þessi virkjun verður vilja að ráðist verði í gerð hennar. Fyrir kosningarnar laugardaginn 26. maí var gerð tilraun til „valdaráns“ í fámennum hreppnum til að hnekkja virkjunaráformum, tilraunin rann út í sandinn enda andstæð lögum.

Ástæðan fyrir að vakið er máls á Hvalárvirkjun hér er undarlegur gjörningur við upphaf málverkasýningar á Kjarvalsstöðum laugardaginn 2. júní. Þar hefur verið safnað málverkum íslenskra meistara sem sýnd eru undir heitinu: Einskismannsland og er með því vísað til hálendis Íslands.

Sýningin er glæsileg en hún var opnuð með tæplega klukkutíma dagskrá þar sem skáldin Elísabet Jökulsdóttir og Andri Snær Magnason ræddu meðal annars saman og stofnuðu til einskonar gjörnings sem beindist ekki síst gegn Hvalárvirkjun.

Elísabet gaf meira að segja til kynna að virkjunin nyti verndar vegna þess að stjórnarskrá lýðveldisins væri upphaflega gjöf frá dönskum kóngi og þess vegna hefðu and-virkjunarsinnar ekki náð sínu fram í kosningunum á dögunum.

Ekkert listaverkanna á Kjarvalsstöðum vísar til Hvalárvirkjunar. Hún hefur hins vegar staðist öll próf vegna mannvirkjagerðar á hálendinu og jafnframt lýðræðislegar kosningar. Hvers annars á að krefjast?