21.7.2022 10:19

Hustings=húsþing í Bretlandi

Nú hefst sem sagt lokabaráttan milli frambjóðendanna tveggja og fer hún fram innan Íhaldsflokksins þar sem tekist er á um stuðning hjá 200.000 flokksfélögum á hustings.

Þeir sem fylgjast með kosningabaráttunni milli Liz Truss og Rishis Sunaks um leiðtogasætið í breska Íhaldsflokknum í breskum fjölmiðlum sjá og heyra að þeim ber að efna til hustings með flokksmönnum víða um land til að afla sér fylgis.

Orðið husting(s) er til marks um forn áhrif íslensku á ensku, eins og sést hér á mynd frá OxfordLanguages sem birtist þar með neðangreindum texta.

Husindexlate Old English husting ‘deliberative assembly, council', from Old Norse hústhing ‘household assembly held by a leader', from hús ‘house' + thing ‘assembly, parliament' hustings was applied in Middle English to the highest court of the City of London, presided over by the Recorder of London. Subsequently it denoted the platform in Guildhall where the Lord Mayor and aldermen presided, and (early 18th century) a temporary platform on which parliamentary candidates were nominated; hence the sense ‘electoral proceedings'.

Þingmenn Íhaldsflokksins hafa nú gengið til kosninga fimm sinnum til að velja á milli þeirra 8 úr þingflokknum sem voru upphaflega í kjöri. Boris Johnson sagði af sér sem leiðtogi 7. júlí, síðan var kosið milli þingmannanna 8 þessa daga: 13.,14.,18.,19. og 20. júlí þegar Truss og Sunak voru eftir.

Nú hefst sem sagt lokabaráttan milli frambjóðendanna tveggja og fer hún fram innan Íhaldsflokksins þar sem tekist er á um stuðning hjá 200.000 flokksfélögum. Fundir frambjóðendanna með þeim eru nefndir hustings á ensku. Fundirnir eru opnir og BBC, breska ríkisútvarpið, sendir út frá einhverjum þeirra.

Nýr leiðtogi íhaldsmanna verður kynntur formlega 5. september og daginn eftir gengur Boris Johnson á fund drottningar og biðst lausnar og nýi leiðtoginn verður forsætisráðherra.

Kjörseðlar verða sendir út 1. ágúst og 2. september lýkur kosningunni, fram til klukkan 17.00 þann dag hafa kjósendur tíma til að gera upp hug sinn. Hafi þeir greitt atkvæði snemma í ferlinu en vilja breyta því fyrir lok þess geta þeir gert það á netinu.

Samhliða því sem stuðningsmenn frambjóðendanna fara af stað vinnur hópur sem styður Boris Johnson að söfnun nafna undir áskorun til flokksstjórnar íhaldsmanna um að samhliða formannskjörinu fái flokksmenn að greiða atkvæði um hvort réttmætt sé að bola Boris úr embætti.

Í tillögunni er einnig kynnt ferli sem opni Boris leið til að halda stöðu sinni.

Cruddas lávarður styður Boris ákaft og segir í grein í The Telegraph 21. júlí að ólíðandi sé að með hjarð-afsögnum hafi um 50 þingmönnum tekist að koma forsætisráðherranum frá á hættustund án formlegs samþykkis flokksfélaga.

Lokaorðin í kveðjuræðu sem Boris Johnson flutti sem forsætisráðherra í neðri málstofu breska þingsins miðvikudaginn 20. júli voru: Hasta la vista, baby – ég sný aftur ­– orð úr Terminator- kvikmynd með leikaranum Arnold Schwarzenegger.

Það er ofurhiti innan Íhaldsflokksins eins og víðar í Bretlandi um þessar mundir.