Hungur magnast í N-Kóreu
Stjórnarskiptin í Washington verða til þess að nú hefst nýr kafli í sögunni sem reist er á orðrómi og ályktunum um það sem gerist í lokaðri Norður-Kóreu sem skipar sér sjálf í sveit kjarnorkuvelda.
Eitt furðulegasta útspil Donalds Trumps í utanríkismálum var fundur hans í júní 2018 með Kim Jong-un, einræðisherra í Norður- Kóreu, í Singapúr. Af hálfu eimnræðisherrans var allt sviðsett til að stilla honum upp sem leiðtoga ríkis jafnfætis Bandaríkjunum. Að Trump léti þetta eftir Kim verður varla talið til marks um annað en þrá hans til að gera eitthvað fyrst og baða sig í ljósi fjölmiðla um heim allan.
Á vefsíðu CNN-fréttastofunnar birtist
fyrir skömmu frétt um að hungursneyð væri líklega meiri í Norður-Kóreu um þessar
mundir en oft áður. Ályktunin er reist á athugun sem sýnir að veiðiferðum skipa
í „svarta flota“ N-Kóreu á smokkfiskimið snarfækkaði á árinu 2020, þar með
hefur þessi mikilvæga fæðutegund horfið af fátæklegum matarborðum N-Kóreumanna.
Frá hersýningu N-Kóreumanna 14. janúar 2021. Nú taka þeir til við að ögra Joe Biden og stjórn hans.
CNN vitnar í tölur frá Global Fishing Watch sem sýna að samtals fækkaði veiðidögum n-kóreskra smokkveiðiskipa undan strönd Rússlands um 95% á árinu 2020, úr 146.800 daga í 6.600 daga. Þá hafi orðið hrun í smokkfiskveiðum í lögsögu N-Kóreu.
Talað er um „svarta flota“ N-Kóreumanna vegna þess að stjórnendur skipanna láta ekkert vita um ferðir þeirra og þau birtast ekki á opinberum vaktkerfum þrátt fyrir alþjóðlega tilkynningarskyldu. Á undanförnum árum hefur mörg skip í þessum flota rekið að ströndum Japans, stundum án þess að lífsmark sé með nokkrum í áhöfninni. Skipin eru illa búin til langferða eða til að þola grimmdarveður sem geta orðið á þessum norðurslóðum Kyrrahafsins.
Global Fishing Watch notar gervihnetti við upplýsingaöflun og með þeim er mjög auðvelt að fylgjast með smokkfiskveiðum því að þær eru yfirleitt stundaðar að næturlagi með aðstoð aflmikilla ljóskastara.
Sérfræðingar Global Fishing Watch telja líklegt að rekja megi færri veiðiferðir frá N-Kóreu til strangs ferðabanns sem Kim Jong-un setti til að stemma stigu við COVID-19-faraldrinum. Hann innsiglaði landið í von um að halda veirunni utan þess, veikburða heilbrigðiskerfið hefði auðveldlega hrunið undan þunga hennar. Kim og hans menn stæra sig af því að ekki einn einasti maður í N-Kóreu hafi veikst af veirunni.
Hafi tekist að halda veirunni í skefjum innan N-Kóreu með því að herða sultarólina vegna minni viðskipta og veiða segja alþjóðastofnanir að þörf sé á brýnni neyðarhjálp frá öðrum löndum til að seðja hungur um 10 milljón manna í landinu.
Á dögunum var mikil hersýning í höfuðborg N-Kóreu og þar mátti meðal annars sjá eldflaug sem sögð var smíðuð til að senda kjarnorkusprengju úr kafbáti. Minnt er á að skömmu eftir að Barack Obama tók við embætti forseta árið 2009 skutu N-Kóreumenn langdrægri eldflaug á loft til að ögra Bandaríkjamönnum. Nú er talið líklegt að þeir grípi bráðlega til sama ráðs til að minna Joe Biden á sig.
Stjórnarskiptin í Washington verða til þess að nú hefst nýr kafli í sögunni sem reist er á orðrómi og ályktunum um það sem gerist í lokaðri Norður-Kóreu sem skipar sér sjálf í sveit kjarnorkuvelda.