Hugverkalandið Ísland
Hér er vikið að gífurlega mikilvægum þætti atvinnulífsins sem stuðlar að því að Ísland er kjörið land tækifæra á hátækniöld. Þetta gerist ekki af sjálfu sér þótt byltingin hafi verið hljóðlát.
Greinandinn og hugsmiðurinn Tryggvi Hjaltason í Vestmannaeyjum birti stórmerka grein á visi.is þriðjudaginn 26. nóvember þar sem hann sýnir að frá árinu 2016 hafi verið kynntar 13 lykilaðgerðir af íslenskum stjórnvöldum sem nú hafi gert Íslendinga, skv. ýmsum mælikvörðum, að einni öflugustu nýsköpunarþjóð í heimi. Þetta megi kalla „efnahagslegt kraftaverk“. Útflutningur hugverka frá Íslandi hefur aukist um rúmlega 200 milljarða árlega og nemur líklega um 320 milljörðum á þessu ári miðað við útflutning fyrri hluta ársins samkvæmt Hagstofunni. Árið 2010 var þessi útflutningur 7,4% af útflutningi þjóðarinnar en var árið 2020 20,2% af heildarútflutningi þjóðarinnar.
Þá segir Tryggvi að fjárfesting fyrirtækja í rannsóknum og þróun hafi margfaldast á sama tíma og sé hún núna a.m.k. 70 milljarðar árlega. Nær allir mælikvarðar gefi til kynna að þessar tölur ásamt fjölda verðmætra starfa stóraukist áfram á næstu árum. Þá sé mikil nýsköpun í rótgrónum greinum eins og sjávarútvegi.
Tryggvi vitnar í Global Innovation index 2023 sem sýnir að Ísland er fremst meðal landa þegar litið er til fjárfestingar í nýsköpun. Nú starfi næstum 20 þúsund manns í tækni- og hugverkageiranum og miðað við áætlanir hugverkafyrirtækja muni líklega 27 þúsund manns starfa í þessari grein árið 2029 og útflutningstekjurnar kynnu að ná 700 milljörðum árlega.
Tryggvi segir að á undanförnum átta árum hafi íslensk stjórnvöld markvisst lagt grunn að þessum vexti hugverkagreina og nefnir 13 aðgerðir til sögunnar. Þær hafi samhliða framtaki einstaklinga og fyrirtækja þeirra valdið stökkbreytingu á íslensku nýsköpunarumhverfi og lagt grunn að núverandi sókn.
„Framangreind þróun er pólitísk að því leytinu til að allar þessar breytingar, hver einasta þeirra, komu frá sama flokknum, Sjálfstæðisflokknum,“ segir Tryggvi og bætir við lýsingu á stóru myndinni:
Árið 2016 hafi verið tekin ákvörðun á landsfundi Sjálfstæðisflokksins um að stuðla skipulega að því að Ísland gæti orðið „Hugverkaland“. Á fundinum hafi ungt fólk bent á mikilvægi þess að íslenska hagkerfið fengi fleiri egg í efnahagslega körfu sína en eingöngu þær þrjár stoðir sem fyrir væru og allar treystu á náttúruauðlindir. Í hópnum hafi meðal annarra verið tveir framtíðar nýsköpunar/hugverkaráðherrar flokksins, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir.
Á landsfundinum hafi verið samþykktar skýrar ályktanir um skref í átt að þessari framtíðarsýn. Hún hafi síðan orðið að veruleika í tveimur ríkisstjórnum frá 2017 og árangurinn birst á þann hátt sem að ofan er lýst.
Hér skal ekki vitnað meira í grein Tryggva en hann hefur sjálfur lagt verulega mikið af mörkum til þessa málaflokks á undanförnum árum og látið verkin tala á mörgum sviðum.
Hér er vikið að gífurlega mikilvægum þætti atvinnulífsins sem stuðlar að því að Ísland er kjörið land tækifæra á hátækniöld. Þetta gerist ekki af sjálfu sér þótt byltingin hafi verið hljóðlát. Í þessu efni tekur skemmri tíma að rífa niður en byggja upp. Enginn flokkur nema Sjálfstæðisflokkurinn ber hag hugverkaiðnaðarins sérstaklega fyrir brjósti og vill veg hans sem mestan.