9.10.2018 11:12

Hrunsagan: Þórólfur og Icesave

Prófessor Þórólfur taldi ekki of mikið á þjóðina lagt að þrengja að sér vegna Icesave-greiðslna til ársins 2014.

Í morgun (9. október) klukkan 07.10 kveikti ég stutta stund á Útvarpi Sögu eins og stundum á ökuleið milli staða. Þar var þá endurvarpað samtali eigenda stöðvarinnar við Þórólf Matthíasson, hagfræðiprófessor við HÍ, frá árinu 2010. Prófessorinn fór miklum orðum um nauðsyn þess að þjóðin semdi um að greiða Icesave-skuldirnar. Þær yrðu tiltölulega létt byrði og á fyrsta afborgunarárinu, 2016, ætti þjóðin bara að sætta sig við sama kaupmátt og árið 2015.

Prófessor Þórólfur taldi ekki of mikið á þjóðina lagt að þrengja að sér vegna Icesave-greiðslna til ársins 2014. Þjóðin ætti að greiða þessar skuldir enda hefði hún hvað eftir annað kosið yfir sig stjórnmálamenn sem gættu ekki hagsmuna hennar betur en að til bankahrunsins kom. Þjóðin gæti í raun sjálfri sér um kennt og yrði að borga brúsann. Nú skipti miklu að njóta aftur góðvildar erlendra banka, þeir hefðu þegar borið mikinn skaða vegna hrunsins.

655320Af mbl.is

Þessi málflutningur Þórólfs Matthíassonar hljómaði ótrúlega nú átta árum síðar þegar kaupmáttur launa hefur aukist um 25% á fáeinum misserum, EFTA-dómstóllinn fallist á kröfur Íslendinga í Icesave-málinu og matsfyrirtæki gefa íslenska þjóðarbúinu hæstu einkunnir.

Þórólfur Matthíasson gekk á þessum tíma erinda Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra og Steingríms J. Sigfússonar sem þá var fjármálaráðherra og fól Þórólfi ýmis trúnaðarstörf fyrir sig. Í þessu gamla útvarpsviðtali þakkaði Þórólfur fjármálaráðherranum með þeim orðum að með Steingrím J. á ráðherrastóli árið 2008 hefði líklega ekki orðið hrun!

Málflutningur prófessors Þórólfs var liður í að festa í sessi þá söguskoðun að allt illt væri sjálfstæðismönnum að kenna. Stjórn Samfylkingar og VG var  einmitt mynduð á þeim forsendum 1. febrúar 2009. Sama viðleitni til að skella skuldinni á pólitíska andstæðinga og þrengja að þeim hélt lífi í viðhaldi gjaldeyrishaftanna. Steingrímur J. notaði þau til meiri afskipta af gangi viðskiptalífsins en annars hefði verið. Jóhanna og Samfylkingin sögðu ekki unnt að losna við höftin nema með því að ganga í ESB.

Vinstri kafli hrunsögunnar frá 1. febrúar 2009 fram að kosningum vorið 2013 er samfelld pólitísk hrakfallasaga vegna rangra ákvarðana og mistækra aðgerð.  Hann er hrópleg andstæða við skynsamleg viðbrögð þegar hrunið varð og sett voru neyðarlögin sem reyndust traustasti grunnur endurreisnarinnar.