12.8.2020 10:02

Hriktir í fjölmiðlastoðum

Spennan í íslenska fjölmiðlaheiminum snýr þó ekki að þessu heldur því sem segir í upphafi yfirlýsingar RÚV vegna myndbandsins: „Í Fréttablaðinu í dag er fréttamaður RÚV, Helgi Seljan, borinn þungum sökum.“

Nú hriktir í ýmsum stoðum íslenskra fjölmiðla vegna reiði áhrifamanna innan þeirra í tilefni af því að Samherji bjó til myndband og setti á YouTube. Á ruv.is segir svo um boðskap Samherja þriðjudaginn 11. ágúst:

„Í myndbandinu er því haldið fram að Helgi [Seljan fréttamaður] og Ríkisútvarpið, hafi falsað gögn við gerð Kastljósþáttar árið 2012, fyrir átta árum, um rannsókn Seðlabankans á Samherja, og að að skýrsla Verðlagsstofu sem umfjöllunin byggðist meðal annars á, hafi aldrei verið til. RÚV hafnar þessu sem röngu.“

Verðlagsstofuskýrslan hefur ekki verið birt og enginn starfsmaður þeirrar stofu kannast við að slík skýrsla hafi verið tekin saman. Miðað við lykilhlutverk skýrslunnar hlýtur hún að verða birt.

Spennan í íslenska fjölmiðlaheiminum snýr þó ekki að þessu heldur því sem segir í upphafi yfirlýsingar RÚV vegna myndbandsins: „Í Fréttablaðinu í dag er fréttamaður RÚV, Helgi Seljan, borinn þungum sökum.“

Leynileg-upptakaÞessi mynd er fengin af dv.is.

Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri vefsíðunnar Kjarnans, setur mál sitt gjarnan í langan hátíðarbúning þegar hann vandar um við þá sem honum þóknast ávarpa. Hann segir í fréttaskýringu 11. ágúst:

„Mestu vonbrigðin eru þó með fjölmiðla sem gera það ekki [hrista það af sér þegar tuddinn, hér Samherji, beitir ofbeldinu]. Fréttablaðið, mest lesna dagblað landsins, gerði sig sekt um að taka blindandi þátt í áróðursherferð Samherja í morgun. Á forsíðu þess voru settar fram alvarlegar einhliða ásakanir á hendur kollega, algjörlega á forsendum Samherja. Samskipti blaðamanns Fréttablaðsins við Helga Seljan, sem hann hefur birt á samfélagsmiðlum, sýna að hann reyndi ekki einu sinni að bera efnisatriði umfjöllunarinnar undir hann, þrátt fyrir að hann hafi augljóslega vitað um hvað „þáttur“ Samherja snerist. Á þessu ber ritstjóri blaðsins ábyrgð. Og stjórn útgáfufélagsins ber ábyrgð á honum.

Það að Fréttablaðið geri sig sekt um svona þátttöku í áróðursstríði Samherja er áfall fyrir stétt blaðamanna, og stöðu íslenskrar fjölmiðlunar.“

Þórður Snær tengir Seljan-málið síðan gömlu baráttumáli sínu um að skattgreiðendur standi undir kostnaði við útgáfu Kjarnans með ríkisstyrkjum og segir:

„En líklega er þetta óumflýjanleg afleiðing þess þegar stjórnmálamenn velja að skapa hér fjölmiðlaumhverfi sem lætur auðmenn borga taprekstur stærstu fjölmiðla landsins árum saman, með tilheyrandi bjögun á samkeppnisumhverfi, atgervisflótta úr geiranum og brotthvarfi faglegra gilda af þeim ritstjórnum.

Þá verða hinir einfaldlega að standa enn fastar í lappirnar. Og munu gera það.“

Í greiningunni á Seljan-málinu felst að nýti öflugt útgerðarfyrirtæki sér upplýsingatækni til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og segi fjölmiðill frá því án þess að sá sem gagnrýni sætir segi skoðun sína í sömu frétt verði viðkomandi fjölmiðill þátttakandi í „áróðursstríði“ útgerðarfyrirtækisins og ógni stöðu íslenskrar fjölmiðlunar. Fréttamenn ríkisútvarpsins kynna sjaldan báðar hliðar deilumáls í sama fréttatíma. Svarið við gagnrýni um „áróðursstríð“ er að í fréttatímanna rás birtist allar hliðar. Sú afsökun dugir auðvitað ekki í Seljan-málinu.