Hreyfing á stjórnarskrármálinu
Með því að taka upp þetta vinnulag fyrir sex árum ýtti ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur öllum umræðum um „nýju stjórnarskrána“ út af borði sínu.
Við myndun ríkisstjórnar haustið 2017 lagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra til að lýðveldisstjórnarskráin yrði endurskoðuð í heild á tveimur kjörtímabilum og að vinnan yrði áfangaskipt. Miðað var við eftirfarandi skiptingu málefna:
1. Á tímabilinu 2018-2021 skyldu tekin fyrir: Þjóðareign á náttúruauðlindum, umhverfis- og náttúruvernd, þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði hluta kjósenda eða minnihluta þings, framsal valdheimilda í þágu alþjóðasamvinnu, II. kafli stjórnarskrárinnar um forseta lýðveldisins og meðferð framkvæmdarvalds og loks ákvæði um hvernig stjórnarskránni verði breytt.
2. Á tímabilinu 2021-2025 skyldu tekin fyrir: Kaflar stjórnarskrár um Alþingi, m.a. um fjárstjórnarvald þess, Alþingiskosningar og dómstóla, þ.e. III. IV. og V. kafli, ákvæði um þjóðkirkjuna, mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar, og inngangsákvæði, þ.e. I. VI. og VII. kafli og önnur efni sem ekki hafa þegar verið nefnd.
Þetta hefur gengið eftir og í gær, föstudag 15. september, kynnti forsætisráðherra greinargerðir sérfræðinga um kafla stjórnarskrárinnar sem fjalla um alþingi, dómstóla og mannréttindi.
Að lokum breyttist baráttan fyrir „nýju stjórnaskránni“ í veggjakrot (mynd: mbl.is).
Þórður Bogason hæstaréttarlögmaður vann greinargerð um alþingi. Þar er m. a. lagt til að stjórnmálasamtök og frambjóðendur geti kært ákvörðun alþingis um gildi kosninga til hæstaréttar. Þess er skemmst að minnast að eftir þingkosningarnar 2021 hófst mikil rekistefna um úrslit þeirra vegna talningarklúðurs í NV-kjördæmi. Þingmenn leiddu deilurnar sjálfir til lykta.
Hafsteinn Þór Hauksson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, vann greinargerð um dómstóla. Hann vill skerpa eftirlitshlutverk dómsvalds gagnvart framkvæmdavaldi og löggjafarvaldi og hnykkt sé á sjálfstæði dómsvaldsins.
Víða er deilt um stöðu dómstóla. Sé dómstólum falið aukið vald til að þrengja að þjóðkjörnu löggjafarvaldi er uppi það sjónarmið að til mótvægis eigi að rýmka pólitísk afskipti af vali manna í dómarasæti. Hér er þróunin í þá átt að þrengja vald kjörinna fulltrúa gagnvart dómurum og auka jafnframt afskiptarétt dómara af kjörnum fulltrúum. Nauðsynlegt er að finna hæfilegt jafnvægi og ná víðtækri sátt um það. Til þessa hefur það ekki tekist.
Mannréttindakafli stjórnarskrárinnar var endurnýjaður um miðjan 10. áratuginn og er talinn hafa staðist tímans tönn. Í greinargerð Róberts Spanó og Valgerðar Sólnes, prófessors við lagadeild HÍ, eru hins vegar lagðar til breytingar er varða auðlindir, umhverfi og eignarrétt.
Með því að taka upp þetta vinnulag fyrir sex árum ýtti ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur öllum umræðum um „nýju stjórnarskrána“ út af borði sínu. Umræðurnar voru komnar í öngstræti eins og birtist í veggjakroti. Vonandi verður ný umræðulota skynsamlegri enda haldi menn sig við vel ígrundaðar hugmyndir og setji sér ekki það markmið að kljúfa þjóðina í þeim anda sem einkenndi allan málatilbúnað í kringum „nýju stjórnarskrána“.