1.2.2018 13:58

Hræsni þingmanna Viðreisnar

Hræsni þingmanna Viðreisnar er átakanleg í þessu máli en Píratar eru einfaldlega „búnir á því“. 

Eftir því sem stjórnarandstæðingar og fréttastofa ríkisútvarpsins (FRÚ) þæfa skipan dómara í landsrétt lengur því undarlegri verður allur málatilbúnaðurinn. Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður alþingis, sagði á morgunvakt rásar 1 mánudaginn 29. janúar að með breytingu á stjórnarráðslögunum frá 2011 hefði markmiðið verið að auka gildi ráðgjafar embættismanna. „Ráðherra skal leita ráðgjafar vegna ákvarðana sem hann tekur. Markmiðið er að auka líkur á að ákvörðun sé tekin á réttum grundvelli. Valdið er áfram ráðherrans en hann á að styðjast við þekkingu ráðuneyta. Það á eiginlega ekki að þurfa taka þetta fram,“ segir á ruv.is 29. janúar. 

Nú liggur fyrir að embættismenn sem veittu Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra ráð þegar unnið var að tillögu til alþingis um skipan dómara í landsrétt töldu að rannsóknarskyldan væri rík. Ráðherra vissi það að sjálfsögðu en henni bar hins vegar að virða lagaákvæði um tveggja vikna frest til að undirbúa tillögu sína. 

Í aðdraganda þess að alþingi samþykkti tillögu ráðherrans 1. júní 2017 var öllum ljóst að tíminn var naumur og hann þyrfti að vera lengri til að ræða málið ofan í kjölinn. Um þetta var ágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Athygli beindist þó einkum að forminu við samþykkt þingsins. Stjórnarþingmenn studdu ráðherrann til unnt yrði að vinna skipulega að því að koma landsrétti á fót og hann gæti hafið starfsemi sína 1. janúar 2018. 

Nú láta þingmenn Viðreisnar, Jón Steindór Valdimarsson og Hanna Katrín Friðriksdóttir, eins og þetta komi þeim allt á óvart og þau hafi verið blekkt til að samþykkja eitthvað sem þau vildu ekki þótt jafnréttiskrafa þessara þingmanna hafi orðið kveikjan að því að ráðherrann tók að hrófla við tillögu dómnefndarinnar. 

Þegar litið er á gang dómaramálsins á þingi, harðar deilur þar í aðdraganda atkvæðagreiðslunnar 1. júní 2017 og rannsóknar sem stofnað var til á málsmeðferðinni á þingi að frumkvæði forseta Íslands er fráleitt að láta nú eins og alþingi beri ekki sína ábyrgð og þar með þingmennirnir Jón Steindór og Hanna Katrín. 

Nýlega sagði Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, að hún væri bara „búin á því“ á kvöldin vegna þingstarfanna. Í umræðum um landsréttarmálið á þingi í dag (1. febrúar) sagðist Halldóra ekki skilja hvernig þingið gæti haldið áfram án þess að ráðherra tæki raunverulega ábyrgð á því að hunsa ráðleggingar sérfræðingar í ráðuneyti sínu og minnihlutans á þingi!  

Afstaða þessara þingmanna og annarra í stjórnarandstöðunni vegna ákvarðana alþingis og dómsmálaráðherra í málinu er stórundarleg. Ábyrgð í þessu máli er ekki hjá ráðgjöfum heldur þeim sem ákvarðanir taka. Vegna tímahraks skiluðu ráðgjafarnir efnislega auðu – þá skorti tíma. 

Þegar Hanna Katrín Friðriksdóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu um tillögu dómsmálaráðherra 1. júní 2017 sagði hún: 

„Frú forseti. Frá árinu 1920 hafa fjórar konur verið skipaðar hæstaréttardómarar á Íslandi. Fjórar konur, 97 ár. Vegna þess að gamla Ísland á sér margar birtingarmyndir. Þessi mynd á ekki upp á pallborðið hjá minni hlutanum í dag. Látum svo vera. En við ætlum að hafa hana áfram í heiðri. Nýtt dómstig, Landsréttur, vakti vonir um breytingar til betri vegar í þessum málum vegna þess að það skiptir máli. Við greiðum núna atkvæði um lista, fjölbreyttan lista, með 15 hæfum einstaklingum að undangengnu hæfnismati. Sá listi hefur það líka til að bera, sem hefur verið býsna sjaldgæft undanfarin 100 ár, að búa yfir jöfnu kynjahlutfalli. Hæfir einstaklingar, jafnt kynjahlutfall. Ég segi já.“ 

Hanna Katrín vissi jafn vel þá og nú að ágreiningur væri um hvort ráðherra og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins hefði rannsakað málið nægilega vel. Í áliti sem Katrín Jakobsdóttir, formaður vinstri grænna, lagði fram sagði meðal annars: 

„Það er í takt við álit þeirra sérfræðinga sem komu fyrir nefndina sem töldu að til að leggja á það sérfræðilega skoðun hvort ráðherra hefði framkvæmt fullnægjandi mat á einstökum umsóknum miðað við þau sjónarmið sem hann teldi að samræmdist best þörfum Landsréttar þyrfti einfaldlega miklu meiri tíma og miklu meiri aðgang að gögnum. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hefði verið skammtaður óhóflega skammur tími við skoðun málsins. Þá liggur fyrir að engar reglur eru til um hvernig eftirliti Alþingis með þessari ákvörðun ráðherra skal háttað.“ 

Alþingi tók ákvörðun sína þrátt fyrir viðvörunarorð sérfræðinga um meiri tíma til rannsókna og það gerði ráðherrann einnig. Hvorki þingi né ráðherranum var skylt að fara að þessum ráðum og mismunandi túlkun á matskenndum ákvæðum stjórnsýslulaga leiðir ekki til þess að ráðherra beri að segja af sér. Stjórnmálamenn bjóða sig fram til að taka ákvarðanir og hljóta dóm fyrir þær í kosningum. Hræsni þingmanna Viðreisnar er átakanleg í þessu máli en Píratar eru einfaldlega „búnir á því“.