21.8.2021 11:04

Hraðpróf vegna stemningar

Umræðurnar um leiðina út úr sóttvarnahöftunum minna dálítíð á vandræðaganginn við leiðina úr gjaldeyrishöftunum sem áttu að gilda í 10 mánuði en giltu í 10 ár af ótta við framtíðina.

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir lagði minnisblað fyrir ríkisstjórnina sem vísaði stjórnmálamönnum veginn í átökum við veiruna eftir kosningarnar 25. september nk. Af fréttum mátti ráða að þetta væri einskonar kosningastefnuskrá um sóttvarnir.

Innan ríkisstjórnarinnar voru menn sammála um að tillögur sóttvarnalæknis yrðu ekki samþykktar óbreyttar í heild og til framtíðar. Meta yrðu stöðuna hverju sinni.

Líklegt er að áhersla á hraðpróf aukist. Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson eru sammála um það. Segir Bjarni að fólk eigi að meta eigin áhættu sjálft frekar en að í gildi séu almenn boð og bönn og sjálfspróf eða skyndipróf geti orðið lykilþáttur í því. Katrín segir hraðprófin hluta af því sem koma skal.

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er formaður velferðarnefndar alþingis. Hún kallaði nefndina saman strax eftir verslunarmannahelgi og sagði að fundinum loknum í samtali við ríkisútvarpið 4. ágúst að herða ætti sóttvarnaaðgerðir, grípa yrði til aðgerða sem virkuðu og það væri í höndum ríkisstjórnarinnar.

Helga Vala sagði ekki hægt að láta „veiruna bara flæða“. Við hefðum „ekki val um annað en að bregðast við“ allir biðu „eftir tillögum frá stjórnvöldum þess efnis“.

Stemning_stor_260219Þessi mynd birtist á vísindavef HÍ þegar slegið er inn orðið stemning.

Í fréttinni á ruv.is var vísað til þeirra orða Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis að hann áttaði sig á að „lítil stemning“ væri fyrir hertum aðgerðum í samfélaginu. Um meint stemningsleysi í samfélaginu sagði Helga Vala: „Stjórnvöld þurfa auðvitað að meta það hvort þau ætla að vera í einhverri stemningu eða verja almenning.“

Rúmum hálfum mánuði er „stemningin“ orðin allt önnur hjá Helgu Völu. Hún skrifaði grein í Morgunblaðið 19. ágúst og sagði að tími væri kominn til þess að þjóðin lærði „að lifa með veirunni“. Þrátt fyrir hættu á smiti þyrftum við „að nálgast hið daglega líf eins og frekast er unnt því hættan af því að fara inn í þriðja vetur skerts skóla- og frístundastarfs fyrir ungt fólk [gæti] haft mun langvinnari afleiðingar en faraldurinn sjálfur.“

Hún talar um „svokölluð hraðpróf sem nokkurs konar aðgöngumiða inn í skóla, vinnustaði og á viðburði“.

Þótt erfitt sé að átta sig á því frá degi til dags hvað snýr upp eða niður hjá Helgu Völu Helgadóttur í þessu máli og mörgum öðrum má draga þá ályktun að nú sé hún á svipaðri línu og ríkisstjórnin. Ekki eigi að herða stjórn með opinberum boðum og bönnum heldur nýta tækifærin sem felast í víðtækri bólusetningu og nýjum aðferðum við leit að smitum.

Umræðurnar um leiðina út úr sóttvarnahöftunum minna dálítíð á vandræðaganginn við leiðina úr gjaldeyrishöftunum sem áttu að gilda í 10 mánuði en giltu í 10 ár af ótta við framtíðina.

Fjármálakerfið var stokkað upp eftir bankahrunið. Heilbrigðiskerfið verður að stokka upp eftir reynsluna af kórónuáhlaupinu.