10.11.2017 11:19

Hótað með villiköttum

Að Sjálfstæðismenn verðlauni formann VG er óverðskuldað. Verðlaunin tryggja auk þess ekki að VG standi heilt að ríkisstjórn. Flokkurinn hefur jafnan klofnað í stjórnarsamstarfi.

Þegar þetta er skrifað sitja þingflokkar á fundum til að ræða stjórnarmyndun sem snúist hefur um þriggja flokka stjórn BDV undanfarna daga eftir að Katrín Jakobsdóttir VG skilaði af sér umboðinu til forseta Íslands mánudaginn 6. nóvember.

Vegna stöðunnar nú segir Össur Skarphéðinsson, fyrrv. þingmaður og ráðherra Samfylkingarinnar, á FB-síðu sinni í dag (10. nóvember):

„Gerilsneyðing stjórnmálanna af málefnum birtist vel í þeirri stjórnarmyndun sem nú er komin vel áleiðis bak við tjöldin milli VG, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar. Allar fréttir af henni snúast um ráðherrastóla. Í þeim er ekki minnst á málefni. Ekki orði. Prinsippfesta VG var einu sinni partur af kjölfestu í stjórnmálunum.“

Ég skáletra lokasetninguna í tilvitnuðu orðunum. Hvenær skyldi þetta „einu sinni“ hafa verið? VG varð til um aldamótin um svipað leyti og Samfylkingin. Steingrímur J. Sigfússon og klíka í kringum hann vildi ekki taka þátt í sameiningu vinstri manna í Samfylkingunni. Kannski er það sú „prinsippfesta“ sem Össuri er ofarlega í huga. Honum getur varla þótt að Steingrímur J. hafi sýnt prinsippfestu eftir að hann komst í ríkisstjórn með Össuri 1. febrúar 2009.

Össur átti hvað mestan þátt í að svipta VG prinsippfestunni með kröfunni um að flokkur léti af andstöðu við umsókn um aðild að ESB og fengi í staðinn ráðherrastóla. Steingrímur J. var ekki lengi að kúvenda í ESB-málinu fyrir ráðherrastól, sömu sögu var að segja um afstöðuna til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Breta og Hollendinga vegna Icesave.

Steingrímur J. gerði VG að mesta umskiptingi í íslenskri stjórnmálasögu. Það kemur því úr hörðustu átt frá fyrrverandi samstarfsmanni VG við þessi umskipti að ráðast á VG nú með ásökunum um skort á prinsippfestu.

Hitt er síðan annað mál að áhugi VG á valdamiklum ráðherrastólum sýnir að flokkurinn hefur breyst – hann vill komast í hærri gæðadeild en árangurinn leyfir. Sagt er að þetta sé formanni flokksins nauðsynlegt til að hann geti haldið honum við efnið og tryggt stuðning við ríkisstjórnina.

Að Sjálfstæðismenn verðlauni formann VG er óverðskuldað. Verðlaunin tryggja auk þess ekki að VG standi heilt að ríkisstjórn. Flokkurinn hefur jafnan klofnað í stjórnarsamstarfi. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir kvartaði sem forsætisráðherra undan „villiköttunum“ innan stjórnarliðsins og taldi nauðsynlegt að smala þeim vísaði hún til þingmanna VG.

VG er í raun regnhlíf yfir ólíka hópa til vinstri við Samfylkinguna og hver þeirra um sig gerir kröfu um áheyrn hjá flokksforystunni. Að láta forsætisráðherraembættið í hendur á formanni slíkra samtaka kallar á að þrýstihópar sérsjónarmiða taki ráðherrann og þar með ríkisstjórnina alla í gíslingu. Öðru vísi horfir við falli ákveðnir málaflokkar undir ráðherra VG og fyrir hendi er forsætisráðherra sem stuðlar að jafnvægi frekar en að láta undan kröfu um einstefnu.

Þetta verða þeir að hafa í huga sem ræða stjórnarmyndun við VG. Stjórnmálamenn bjóða sig fram til að veita þjóðinni forystu. Þeirra er að vega og meta bestu kosti til þess. Í því felst að greina stöðuna á raunsæjan hátt og hafa skýr rök fyrir niðurstöðunni.