20.1.2024 10:10

Hörmungin á Austurvelli

Fyrir liggja skýr gögn sem sýna að vegna útlendingalaga hér og reglna hefur verið stofnað til stórvandræða í samfélaginu.

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, sagði í færslu á Facebook 19. janúar sem fengið hefur miklar og góðar undirtektir:

„Það er hörmung að sjá tjaldbúðir við Austurvöll sem nú hafa staðið þar síðan 27. desember síðastliðinn. Það er óboðlegt með öllu að Reykjavíkurborg hafi gefið leyfi fyrir tjaldbúðunum á þessum helga stað milli styttunnar af Jóni Sigurðssyni og Alþingis. Í gær beit Reykjavíkurborg höfuðið af skömminni með því að framlengja leyfið.“

Vegna þess sem hér sagði í gær um tjaldbúðirnar á Austurvelli barst þessi ábending:

„Tjaldbúðir Palestínumanna, fjöldi palestískra fána, bílum lagt ólöglega við völlinn og fleira þessu skylt hefur fengið að vera þarna óáreitt vikum saman og samræmast illa þeim hug og þeirri sögu, sem Austurvöllur hefur öðlast meðal Íslendinga á löngum tíma.

Ekki er þó ætlun mín að fara mörgum orðum um núverandi ástand vallarins, en vil aðeins nefna meðferð íslenska fánans á hinu stóra, hvíta tjaldi Palestínumannanna. Allar reglur og lög um meðferð fánans eru þar þverbrotnar. Þykja mér borgaryfirvöld og alþingismenn, sem hafa þessa sýn fyrir augunum daglega, ekki standa sig hvað þetta varðar. Má búast við því að aðrir geri það betur og réttar?“

Það sem segir hér bendir til þess að lögregla og stöðmælaverðir telji að leyfi borgaryfirvalda vegna tjaldbúðanna nái ekki aðeins til undanþágu frá lögreglusamþykkt heldur einnig umferðarlögum og lögum um íslenska fánann. Allt er fótum troðið í skjóli meirihluta borgarstjórnar.

420578365_935554834608252_3397336482523909343_nTjaldbúðirnar á Austurvelli (mynd: FB-síða Bjarna Benediktssonar).

Þegar vakið var máls á hirðuleysinu vegna tjaldbúðanna hér 8. janúar kvaddi Karen Kjartansdóttir, fyrrv. framkvæmdastjóri Samfylkingarinnar, sér hljóðs á Facebook og sagði meðal annars að á Austurvelli legði fólk sig fram um að standa undir ábyrgðinni sem fylgdi leyfi Reykjavíkurborgar. Það mætti deila um réttmæti þess að veita leyfið. Fólkið ætti „ekki að verða skotspónn í deilu um skipulagsmál borgarinnar“.

Það er mikil einföldun, ef ekki vísvitandi blekking, að líta á gagnrýni á það sem borgarstjórnarmeirihlutinn og tveir borgarstjórar hans leyfa nú á Austurvelli sem „deilu um skipulagsmál“. Að halda því fram er svo sem í samræmi við margt annað sem kemur úr þessum herbúðum sem svar við gagnrýni. Það sem hér um ræðir á sér allt aðrar rætur en ólíka sýn á skipulagsmál.

Fyrir liggja skýr gögn sem sýna að vegna útlendingalaga hér og reglna hefur verið stofnað til stórvandræða í samfélaginu. Árum saman hefur verið forðast að horfast í augu við þetta og tekið til við að ræða eitthvað annað en lögin sjálf og reglurnar sem um þetta gilda.

Karen vill ræða skipulagsmál, aðrir aðildina að Schengen. Nágrannaþjóðir okkar í Schengen hafa sett mun strangari útlendingalög en hér gilda, til dæmis um fjölskyldusameiningu. Sú nágrannaþjóð þar sem harðast er deilt um útlendingavandann um þessar mundir, Bretar, er ekki í Schengen. Sé ekki rætt um raunhæfar leiðir til að leysa vandann, leystist hann ekki.