12.6.2023 10:28

Hollvinir Rússa sýna lit

Svo eru það þeir sem segja að við eigum að sýna Putín velvild af því að Rússar hafi verið sérstakir vinir okkar í áranna rás. Þessi goðsögn er lífseig.

Ranghugmyndir um stöðu Íslands í heiminum eru miklar og þegar einnig kemur til vanþekking á sögu þjóðarinnar skekkjast umræður um alvörumál. Í netheimum gætir auk þess ríkrar viðleitni hjá mörgum til að blekkja með því að fara vísvitandi með rangt mál. Oft í því skyni að afla vondum málstað fylgis.

1327016Mótmælt við rússneska sendiráðið í febrúar 2022 (mynd: mbl.is/Óttar Geirsson).

Ákvörðun utanríkisráðherra um að tímabundið skuli hætt starfsemi í sendiráði Íslands í Moskvu og í samræmi við gagnkvæmnisreglur skuli Rússar draga úr starfsemi sendiráðs síns í Reykjavík hefur dregið athygli að þeim sem er annt um að Pútin sé sýnd tillitssemi.

Rökin fyrir því að þetta sé of harkalegt óvinabragð við Rússa eru af ýmsum toga. Ekkert sambærilegt hafi til dæmis verið gert þegar Sovétmenn börðu niður sjálfstæðisvilja Ungverja 1956 og Tékkóslóvaka 1968.

Viðbrögð vestrænna lýðræðisríkja voru vissulega önnur þá en nú enda ólíku saman að jafna bæði þegar litið er til atburðanna og stöðu alþjóðamála.

Kalda stríðið snerist öðrum þræði um viðurkenningu á áhrifasvæðum og leikreglur þess voru reistar á þeim grunni. Við hrun Sovétríkjanna 1991 hvarf áhrifasvæðastefnan. Pútin vill endurvekja hana og um það er meðal annars tekist í Úkraínu.

Ástæðulaust er að gleyma því að bæði 1956 og 1968 sögðust sumir sósíalistar og kommúnistar á Íslandi hafa slitið stjórnmálatengsl við móðurflokkinn í Moskvu. Það voru þó ekki allir í flokknum í þeim hópi. Sumir voru stalínistar allt til æviloka.

Þeir sem gagnrýna að sendiráðin í Moskvu og Reykjavík starfi ekki áfram eins og ekkert hafi í skorist og láta eigi svívirðingar rússneska sendiherrans í Reykjavík yfir sig ganga eru talsmenn áhrifasvæðakerfis í heimsmálum. Ýmsum þeirra finnst ástæðulaust að skipta sér af því að Pútin þurrki Úkraínumenn og Úkraínu út af kortinu. Það sé óhæfileg ögrun smáþjóðar að móðga stjórn Pútins með því að hætta tímabundið úthaldi á verkefnalausu sendiráði. Það sé betra að borga fyrir að vera til upp á punt fyrir Pútin.

Sumir þeirra sem reiðast vegna ákvörðunar utanríkisráðherra halda að hlutleysisyfirlýsingin frá 1918 sé enn í gildi. Það sýnir aðdáunarvert hugrekki að blanda sér samt í umræður um samskipti við Rússa á stríðstíma.

Svo eru það þeir sem segja að við eigum að sýna Putín velvild af því að Rússar hafi verið sérstakir vinir okkar í áranna rás. Þessi goðsögn er lífseig.

Á áttunda og níunda áratugnum hertu Sovétmenn þumalskrúfurnar og hótuðu öllu illu við gerð viðskiptasamninga ef þeir fengu ekki sínu fram, það var til dæmis illa séð af þeim að stærð og starfsemi sendiráðs þeirra í Reykjavík sætti gagnrýni. Þeir reyndu að þagga niður í blaðamönnum í gegnum Samband íslenskra samvinnufélaga (SÍS) og síldarútvegsnefnd.

Endurómur af boðskapnum um að ekki megi styggja valdamennina í Kreml vegna viðskiptahagsmuna birtist enn og aftur. Formaður Viðreisnar lætur meira að segja að því liggja að hingað komi ekki kjúklingabringur frá Úkraínu af því að það sé ekki Putín þóknanlegt.