23.4.2022 12:17

Hnignun borgar í Laugardalnum

Öll stóru íþróttamannvirkin í Laugardalnum eru eldri en 30 ára. Nú ræður borgin ekki við nauðsynlegt viðhald íþróttamannvirkjanna.

Reykjavíkurborg undir stjórn Dags B. Eggertssonar hefur ekki tekist að standa þannig að útboðum og úrvinnslu þeirra vegna viðgerða á Laugardalshöllinni að standist faglegar kröfur. Nauðsynlegar endurbætur dragast endalaust á langinn.

Ný kraftur hljóp fyrir viku í umræður um þjóðarhöll, það er alþjóðlega viðurkennda íþróttahöll fyrir handbolta og körfubolta. Dagur B. ætlaði að sýna ágæti sitt í umræðunum með því að veifa tveimur milljörðum í framkvæmdafé í þágu íþrótta í Laugardalnum, þjóðarhallar (?), svaraði ríkið kallinu fyrir lok apríl annars yrði féð notað til að bæta aðstöðu fyrir Þrótt og Ármann.

Á dögunum sem síðan eru liðnir skýrist sífellt betur hve þetta var í raun ódýr leikbrella hjá Degi B. Hann hefur lengi setið undir ámæli vegna aðstöðuleysis fyrir unga liðsmenn Þróttar og fleiri eftir að Laugardalshöllinni var lokað. Mönnum ofbýður hvernig staðið er að útboðum þar á vegum borgarinnar, ekki sé unnt að ljúka viðgerð á höllinni vegna stjórnsýslulegs vandræðagangs.

Í huga flestra er það í raun tvennt ólíkt að skapa viðunandi aðstöðu fyrir Þrótt og Ármann í Laugardalnum og reisa þar þjóðarhöll. Dagur B. setur þetta hins vegar allt í einn pott í von um að beina athygli frá eigin vandræðagangi.

Laugardalur_0Séð yfir Laugardalinn lengst til vinstri er Laugardalshöll, í miðjunni Laugardalsvöllur og til hægri Laugadalslaug. Óvíst er hvort þarna verður ráðist í smíði þjóðarhallar handbolta og körfubolta. Borgin hefur ekki burði til þess eins og þegar hún reisti eldri mannvirkin, (mynd Reykjavíkurborg).

Viðbrögð borgarstjóra í umræðunum um þjóðarhöllina eru í ætt við að hann og flokkur hans hafa við kosningar á fjögurra ára fresti lofað að útrýma biðlistum eftir leikskólaplássum. Margendurtekin loforðin sýna best að efndirnar eru engar. Hildur Björnsdóttir, oddviti sjálfstæðismanna, segir í Morgunblaðinu í dag (23. apríl) að nú síðast hafi Dagur B. „orðið uppvís að því að lofa leikskólabörnum plássum á leikskólum sem ekki eru til“.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, vakti athygli á þeirri staðreynd að til þessa hefðu mannvirkin í Laugardalnum verið á forræði og forsendum Reykjavíkurborgar. Nú virtist borgin ætla að gefa þetta forræði frá sér. Ríkið gæti með myndarlegum hætti tekið þátt í því að reisa þjóðarhöll en þó ekki endilega í samstarfi við Reykjavíkurborg ef hún treysti sér ekki til þess að taka þátt í því.

Það liggur með öðrum orðum ekki fyrir af hálfu Reykjavíkurborgar undir forystu Dags B. Eggertssonar hvort unnt sé að nýta Laugardalinn í þágu þjóðarhallar. Önnur sveitarfélög lýsa áhuga á fá mannvirkið til sín, þau gerðu það ekki ef umsamin ákvörðun lægi fyrir af hálfu borgaryfirvalda.

Annaðhvort tekur Reykjavíkurborg forystu í þessu máli eða ekki. Borgin tók á sínum tíma ákvörðun og reisti Laugadalslaugina, Laugardalsvöllinn og Laugardalshöllina. Ríkissjóður átti ekki hlut að máli þá.

„Einu sinni var Reykjavík stór og sterk og gat reist Laugardalshöll af eigin rammleik. Eignaðist hana, byggði hana og átti hana. Nú virðist tíðin önnur. Nú þarf Reykjavík að horfa til ríkisins,“ segir Bjarni Benediktsson réttilega í Fréttablaðinu í dag.

Sami meirihluti hefur með blæbrigðum setið við stjórnvölinn í Reykjavík í 25 ár á síðustu 28 árum. Dagur B. hefur í tvo áratugi gegnt áhrifastöðu í meirihlutanum. Öll stóru íþróttamannvirkin í Laugardalnum eru eldri en 30 ára. Nú ræður borgin ekki við nauðsynlegt viðhald íþróttamannvirkjanna.