Hláturinn lengir lífið
Fólki er almennt ekki hlátur í huga á þessum alvörutímum. Þeir sem stjórna miðlun efnis til almennings mættu þó hlusta á ábendingar lækna um mikilvægi hláturs.
Á vefsíðunni Viljanum er sagt frá samtali við Þór Sigfússon, stofnanda Íslenska sjávarklasans í hlaðvarpi vefsíðunnar. Þar segir meðal annars:
„Hann [Þór] bendir að ýmislegt jákvætt sé þegar komið í ljós. Til dæmis heyri umferðartafir sögunni til, þar sem fleiri haldi sig heima. Kostnaður vegna umferðartafa teljist í hundruðum milljarða, kostnaður við breikkun stofnbrauta kringum 200 milljarða. „Þegar maður sér núna hvernig umferðin er, hversu ótrúlega fljótt framhaldsskóla- og háskólanemar hafa tileinkað sér fjarnám, blasir við að við eigum strax að leggja það til að skólarnir hefji í framtíðinni sína starfsemi seinna en áður, til dæmis kl. 10 eða 11 til að dreifa álaginu á gatnakerfið. Kennslan færi fram með fjarnám þangað til. Þetta er einföld lausn, en myndi losa mikla fjármuni sem verja má með öðrum hætti.“
Fjöldi hugmynda í þessa veru vakna um breyttar
lífsvenjur þegar fólki er skipað að vera ekki á ferli nema nauðsyn krefjist. Þeim
sem árum saman hafa unnið á netinu heima hjá sér kemur ekki á óvart að mörgum
gagnist það vel. Ábending Þórs um leið til að nýta tímann á annan hátt en að bíða
í umferðinni er réttmæt.
Heyrðu, ættir þú nú ekki að gera eitthvað? Ég er í stríði, Súsanna. Og bjarga mannslífum. Myndin birtist eftir að Emmanuel Macron Frakklandsforseti hvatti fólk til að vera ekki á ferli vegna stríðsins við kórónaveiruna.
Á baksíðu Morgunblaðsins birtist í dag (26. mars) viðtal við Ara Jóhannesson, lyflækni og rithöfund, sem varar við því að menn láti kvíða ná tökum á sér. Hann segir:
„Langvarandi neikvæðar hugsanir orsaka og fóðra síðan streituástand þar sem kortisól og fleiri hormón geta með tímanum veiklað ónæmiskerfið og minnkað mótstöðu gegn sýklum.“
Hann tekur undir ábendingar um að fólk skuli ekki „liggja yfir“ fréttum af kórónaveirunni. Frétti frá Ítalíu lýsi til dæmis ástandinu þar og ekkert bendi til svipaðs ástands hér.
Þá segir í blaðinu:
„Ari vekur athygli á mikilvægi hláturs og vísar á heimasíðu Mayo-klíníkur í Bandaríkjunum. „Þar er þessi málsgrein, í lauslegri þýðingu:
„Hlátur bætir súrefnisupptöku, örvar hjarta, lungu og vöðva og eykur losun á vellíðunarhormóninu endorfíni í líkamanum. Neikvæðar hugsanir koma af stað efnabreytingum sem leiða til streituástands og draga úr ónæmisviðbrögðum. Jákvæðar hugsanir losa hins vegar taugaboðefni sem stuðla að streituminnkun og vörnum gegn ýmsum sjúkdómum“.“
Fólki er almennt ekki hlátur í huga á þessum alvörutímum. Þeir sem stjórna miðlun efnis til almennings mættu þó hlusta á ábendingar lækna um mikilvægi hláturs. Þess verður til dæmis ekki vart þegar fylgst er með kynningu á efni ríkissjónvarpsins að þar hafi menn sérstaklega hugað að því að kitla hláturtaugar áhorfenda. Kannski verður þessari gagnrýni svarað með því að gamlir þættir með Hr. Bean séu endursýndir á föstudagskvöldum.
Eða eins og skáldið segir:
Hláturinn lengir lífið
og lyftir geði tregu,
þó sumir hlæi hátt – haha
og sumir hlæi lágt – haha
Hver með sínu nefi,
hlær á ýmsa vegu.
Hlæja verður margur þó gamanið sé grátt.